Jamie Oliver er snillingur. Fyrir þremur árum fór hann í árangursríka herferð fyrir bættum skólamat. Nú er hann kominn í nýja herferð. Hvetur Breta til að koma sér upp jurtagarði eins og forfeður þeirra gerðu í síðari heimsstyrjöldinni. Hann byrjaði herferðina í Rotherham. Sá staður varð frægur í skólaslagnum. Mæður tróðu þá ruslfæði gegnum skólagirðinguna, svo að börnin þeirra þyrftu ekki að borða hollan mat í mötuneytinu. Ef vel gengur að fá mömmur í Rotherham til að sjá ljósið, verður blásið víðar til átaks. Oliver vill að menn rækti sinn mat sjálfir og kaupi ekki ruslfæði.