Snæfjallaheiði

Frá Berjadalsá á Snæfjallaströnd um Snæfjallaheiði að Kumlá í Grunnavík.

Gömul og grýtt póstleið. Fara þarf varlega, því að leiðin er víða nálægt brúnum Vébjarnarnúps. Uppi á heiðinni er leiðin vel vörðuð. Um tvær leiðir er að velja. Sú nyrðri er með stærri vörðum og er hún vetrarleið. Syðri leiðin er betri yfirferðar að sumri.

Sumarliði Brandsson póstur hrapaði með hesti sínum fyrir bjargbrjún Vébjarnarnúps árið 1920 og fórust báðir. Þegar leit var gerð að honum, fórust þrír leitarmenn í snjóflóði. Síðar fundust pósttaska og reiðtygi Sumarliða á klettasnös.

Förum frá Berjadalsá upp með Íralæk rétt utan við Berjadalsá um sneiðinga upp á grösugan Reiðhjalla í fjallsbrúninni. Síðan norðvestur um Snæfjallaheiði í 470 metra hæð. Að lokum bratta sneiðinga austnorðaustur að Nesi eða Kumlá í Grunnavík. Þaðan er stutt leið norður að Stað.

12,6 km
Vestfirðir

Skálar:
Sútarabúðir: N66 14.722 W22 52.290.

Nálægar leiðir: Vébjarnarnúpur, Höfðaströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort