Slyppt og snautt?

Greinar

Magnús Kjartansson, ráðherra Alþýðubandalagsins, réðst í gær í Þjóðviljanum með fúkyrðum að Tómasi Karlssyni, ritstjóra Tímans. Hreytti Magnús úr sér orðum eins og “hreinn heilaspuni”, “fáfræði”, “blygðunarleysi” og “firrur”. Auk þess sagði hann, að “einkennileg” skrif Tómasar væru “ódulbúin árás á Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra og Einar Ágústsson utanríkisráðherra”.

Tilefni hins mikla reiðilestrar er leiðari, sem Tómas skrifaði í Tímann á laugardaginn. Þar skýrði Tómas eitt dularfyllsta fyrirbrigði íslenzkrar stjórnmálasögu, stefnu Framsóknarflokksins í varnarmálum. Sú stefna hefur löngum vakið mikið umtal og hinar margvíslegustu útleggingar.

Tómas sagði, að stefna Framsóknarflokksins væri ekki sú, að varnarliðið ætti skilyrðislaust að fara úr landi á kjörtímabilinu. Hins vegar væri stefnan sú, að herinn færi í áföngum á mun lengra tímabili, auk þess sem áfram verði haldið við eftirlits- og aðvörunarstarfi varnarliðsins.

Magnús reiðist vitanlega þessari túlkun. Flokkur hans hefur þegar sætt sig við að verða að athlægi fyrir kúvendingu í landhelgismálinu, svo að hann geti áfram setið í stjórn til að koma varnarliðinu úr landi á kjörtímabilinu. Og nú segir Tíminn, að hið langþráða markmið Magnúsar sé bara misskilningur.

Magnús segir ráðherra Framsóknarflokksins hafa lofað því, að lögð verði “fyrir alþingi að loknu jólaleyfi tillaga um heimild til uppsagnar herverndarsamningsins”. En Magnús má ekki gleyma því, að Framsóknarflokkurinn getur auðveldlega komið slíkri tillögu fyrir kattarnef, þótt hún komi fram á alþingi.

Magnús segist einnig vera sannfærður um, að allir þingmenn stjórnarflokkanna telji það drengskaparskyldu sína að standa við fyrirheitið og hina sameiginlegu heitstrengingu um brottför varnarliðsins. Þetta er merkileg yfirlýsing í ljósi þess, að frá upphafi hafa þrír þingmenn Framsóknarflokksins lýst sig andvíga brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu.

Af hverju fer Magnús með svo augljósa sjálfsblekkingu á prent? Af hverju segir hann framsóknarmenn hafa gefið hátíðleg loforð, þegar þeir hafa einmitt neitað að gefa slík loforð? Er hann að reyna að snúa í sókn þeirri vörn, sem flokkur hans hefur verið í, síðan hann lét kúga sig og kúvenda sér í landhelgismálinu?

Í lok greinarinnar segir Magnús: “Fari svo ólíklega, að einhver þingmaður stjórnarflokkanna skerist úr leik, er hann um leið að rjúfa þessa stjórnarsamvinnu”. Þá vita framsóknarmenn það. Alþýðubandalagið gafst upp í landhelgismálinu til þess að hafa sitt fram í varnarmálunum. Fari það líka halloka þar, getur það ekki haldið áfram stjórnarsamstarfinu.

En nú eru framsóknarmenn komnir á bragðið. Þeir finna, að Alþýðubandalagið er hægt að kúga. Tómas Karlsson sagði í viðtali við Vísi í gær, að leiðari hans hefði fyrirfram verið samþykktur bæði af forsætis-og utanríkisráðherra. Það bendir því margt til þess, að framsóknarmenn hyggist nú láta Alþýðubandalagið fara slyppt og snautt úr þessari ríkisstjórn

Jónas Kristjánsson

Vísir