Sléttuheiði

Frá Hesteyri í Hesteyrarfirði að Sæbóli í Aðalvík.

Í Árbók FÍ 1994 segir: “Upp frá Stað austanvert við vatnið liggur leiðin … Brekkurnar eru töluvert í fangið uppúr dalbotninum framan við Staðarvatn og hægara að sniðskera þær, fannir eru efst í brúnum. Yfir heiðina er fylgt vörðum og skýrum slóða … Af Sléttuheiði er komið niður í Sléttudali, Ytri- og Innri, kjarrvaxið land með grasgefnum brokmýrasundum … Um Ytri-Hesteyrarbrúnir og niður Bröttugötu og í Hesteyrarfjörð þar sem gata er glögglega mörkuð í bratta hlíðina og þéttar birkibreiður verma sig á skriðum beint móti suðri í sólskini.”

Förum frá Hesteyri suður ströndina undir Nóngilsfjalli. Fyrst um eyrar, síðan um fjöru og þaðan fyrir ofan bakka. Förum um Grasdal skýra og auðvelda götu um Götuhjalla og Bröttugötu vestur á Ytri-Hesteyrarbrúnir og þaðan beint vestur Sléttuheiði. Gott útsýni er þar, gatan greið og vel vörðuð. Af heiðinni er þverleið suður á Sléttu. Leið okkar liggur áfram norðaustur og síðan bratt um sneiðinga niður í Fannadal og þar vestur um mýrar að Staðarvatni og Stað í Aðalvík. Meðfram vatninu norðanverðu og síðan norðvestur að sjó við Húsatún. Þaðan með ströndinni vestur að Sæbóli.

13,7 km
Vestfirðir

Skálar:
Látrar: N66 23.555 W23 02.200.

Nálægar leiðir: Slétta, Kjaransvíkurskarð, Hesteyrarbrún, Háaheiði, Hesteyrarskarð, Þverdalsdrög, Aðalvík, Hraunkötludalur, Skarðadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort