Skriðunes

Strandasýsla, Þjóðleiðir

Frá Broddanesi í Kollafirði að Kjarlaksstöðum í Bitrufirði.

Gömul þjóðleið, notuð fyrir daga bílsins.

Falleg leið á þjóðsagnaslóðum og sumpart um friðlýsta og stórbrotna náttúru. Norðan til í Stigavík eru Broddar, sem bæir í nágrenninu eru kenndir við. Við klettana á að vera dys Brodda gamla. Þar er sagður fólginn fjársjóður. Stigaklettur heitir eftir þrepum upp á klettinn, sem notaðar voru, áður en einstigið var breikkað. Gott útsýni er til fjalla í Húnaþingi, þegar komið er út fyrir Enni. Í Tólfmannaurð er sagt, að tólf bændur hafi farizt í skriðu. Efst í fjallinu er Arnarstapi og var þar lengi arnarhreiður. Í Kýrhamri var sagt búa hamratröll. Draugurinn Ennismóri var talinn fylgja fólki af Ennisætt frá Skriðinsenni. Sérgrein hans var að fikta í rafkerfi bíla.

Förum frá Broddanesi austur með ströndinni um Lönguvík, Sýrvík, Ólafsvík og Stigavík undir Ennishöfða. Í sunnanverðri Stigavík þarf að gæta sjávarfalla, annars þurfum við að klöngrast um skriðu ofan við víkina. Yzt á nesinu er Stigaklettur, þar sem er einstigi, sem hefur verið breikkað og gert hestfært. Næst förum við suður ströndina um ógreiðfæra Tólfmannaurð. Á leiðinni komum við að þverhníptum Kýrhamri, sem Guðmundur biskup góði vígði að hluta. Við förum um Skriðinsenni og komum að lokum aftur að vegi 61 við Kjarlaksstaði.

7,5 km
Vestfirðir

Nálægir ferlar: Bitruháls.
Nálægar leiðir: Hamarssneiðin, Steinadalsheiði, Spákonufell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort