Sköllóttir skattlagðir

Greinar

Ekki hefur tíðkazt að leggja aukaskatta á menn fyrir að vera sköllóttir. Sagt er, að giftir menn hafi einu sinni verið skattlagðir sérstaklega í Rómarveldi og ógiftir menn á sama hátt í annan tíma. En slíkir skattar hafa aldrei náð fótfestu, því að rangindi þeirra eru augljós.

Eina mismununin í skattlagningu, sem hefur náð almennri útbreiðslu, er í tekjusköttum. Prósenta álagningar hækkar eftir hærri tekjum. Ein mismunun til viðbótar hefur þó nýlega verið tekin upp hér á landi, – skattlagning á búsetu manna. Þessi mismunun var tekin upp í skattalög vinstri stjórnarinnar, þrátt fyrir andmæli á alþingi.

Skattur af hlunnindum bænda er 1/2 prósent eins og af öðrum fasteignum þeirra. Þessi skattur nífaldast og verður fjögur og hálft prósent, ef landeigandi býr utan sveitarfélagsins, þar sem hlunnindin eru. Þessi níföldun hefur engin smáræðis áhrif á afkomu manna.

Segjum okkur, að maður í slíkri aðstöðu sé svo heppinn að ná tíu prósent tekjum af hlunnindunum. Af þessum tekjum greiðir hann þegar nærri helming í fasteignaskatt. Síðan fer rúmlega afgangurinn í tekjuskatt, ef maðurinn nær hæsta skattþrepi eins og flestir Íslendingar ná. Þetta er einhver grófasta skattlagning, sem sögur fara af.

Tilgangurinn virðist vera sá að taka rækilega í gegn þá utansveitarmenn, sem eignazt hafa laxveiðijarðir, og flá algerlega af þeim þær tekjur, sem þeir kunna að afla sér af slíkum eignum. Er þá ætlazt til þess, að þeir sjái sitt óvænna og selji hlunnindin til að losna úr svikamyllunni. Stjórnarskráin virðist ekki vernda menn gegn slíku ofbeldi af hálfu hins opinbera.

Auðvitað geta fleiri menn lent í kvörninni. Bóndinn, sem kaupir jörð handan árinnar til þess að afla sér aukinna slægna, lendir í þessari hrikalegu skattheimtu, ef jörðin handan árinnar er í öðru sveitarfélagi en hans eigin. Og bóndinn, sem af fjárhagsástæðum eða heilsufarsástæðum verður að bregða búi og flytjast á mölina, lendir einnig í skattlagningunni. Þótt hann reyni að nýta sér hlunnindi jarðarinnar með því að leigja þau út, nær hann ekki krónu í sinn hlut.

Fórnardýrin, hvort sem þau eru bændur eða kaupstaðarbúar, geta svo sem smeygt sér undan þessu með því að stofna fyrirtæki um hlunnindin og láta fyrirtækin eiga heima í viðkomandi sveitarfélagi. Þar með dettur skatturinn úr fjórum og hálfu prósenti niður í hálft prósent. Aðförin gegn þeim hlýtur því að misheppnast.

Þessi undankomuleið losar stjórnvöld samt ekki undan ábyrgðinni af ranglátum lögum. Til raun hefur verið gerð til að kúga eignir af mönnum með fantalegri skattlagningu og sú tilraun stendur eftir, þótt árangurinn verði lítill sem enginn.

Tilraunin sýnir, að stjórnvöld telja sér heimilt að taka fyrir ákveðna hópa í þjóðfélaginu og flá þá í skattheimtu. Með sama hugarfari er alveg eins hægt að láta sér næst detta í hug að hreinsa eignirnar alveg af öllum brúneygum mönnum eða öllum kvæntum mönnum á fimmtugsaldri, svo að fáránleg dæmi séu nefnd.

Jónas Kristjánsson

Vísir