Skógarkot

Frá Skógarhólum undir Ármannsfelli um Krika undir Ármannsfelli, síðan um Hrauntún, Skógarkot, Stekkjargjá og Langastíg að Selkotsleið til Skógarhóla.

Þetta er merkt reiðleið, falleg skógarleið.

Leiðin frá Ármannsfelli að Skógarkoti hét Nýja Hrauntúnsgata og er elzta bílaslóð landsins frá suðvesturhorninu um Kaldadal vestur í Borgarfjörð. Nyrsti hluti hennar næst Ármannsfelli heitir Réttargata. Þetta er reiðstígur, en göngustígurinn liggur um túnið á Hrauntúni. Þar má ekki æja hrossum, því að þau geta skemmt hraungarða. Búið var í Hrauntúni til ársins 1934. Skógarkot er einmana túnkollur umlukinn hrauni. Þar bjó Kristján Magnússon hreppstjóri, frægur athafnamaður og átti fimmtán börn með tveimur konum á bænum. Vegna þessa dæmdur til hýðingar árið 1831. Af því fólki segir í Hraunfólkinu, skáldsögu Björns Th. Björnssonar. Búið var í Skógarkoti til 1936. Við Langastíg eru klettamyndirnar Gálgaklettar tveir og Steinkerlingar. Í Gálgaklettum voru sakamenn hengdir fyrr á öldum.

Förum frá Skógarhólum austur með Kaldadalsvegi 52 að Krika undir Ármannsfelli, skammt austan Sleðaáss, þaðan suður um hlið merkt Sandaleið og um skógargötu suður Þingvallahraun um Hrauntún og Skógarkot. Síðan vestur að Þingvöllum, yfir vellina og upp Langastíg yfir gjána og loks norður yfir þjóðveg 36 að Selkotsleið milli Reykjavíkur og Skógarhóla.

12,3 km
Árnessýsla

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.739 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Hrafnabjörg, Lyngdalsheiði, Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Gagnheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort