Vegna ótryggs ástands heimsmála hefur nýtt sagnfræðirit eftir Philip Bobbitt, The Shield of Achilles, vakið mikla athygli. Það er fyrsta ritið, sem sameinar sagnfræði hernaðar, sagnfræði alþjóðastjórnmála og sagnfræði alþjóðalaga. Hann telur, að þjóðir hafi ekki myndað ríki, heldur hafi ríki myndað þjóðir. Ríki hafi hins vegar oftast orðið til við hernað og hafi oftast sannað sig með framhaldi á hernaði. Hann telur, að tiltölulega ungt kerfi alþjóðlaga frá 20. öld standi á brauðfótum og muni ekki styrkjast við, að þjóðríki séu að víkja fyrir markaðssvæðum. Við höfum að undanförnu séð, að í krafti síns eigin handafls hafna Bandaríkin hverju alþjóðasamkomulaginu á fætur öðru, bæði nýjum og gömlum. Hann telur líklegt, að mestu harmleikir mannkynssögunnar séu framundan í heimsmálunum. Michael Howard prófessor skrifar um bókina í Guardian í dag.
