Skjálgdalsheiði

Eyjafjörður, Þjóðleiðir

Frá Miklagarði í Eyjafirði að Þverá í Öxnadal.

Heitir nú Kambskarð.

Sjaldan farin nú á dögum, en oft farin á Sturlungaöld. Hét þá Skjálgdalsheiði. Sighvatur Saxólfsson og Gissur Höskuldsson fóru á laun um skarðið á leið til Guðmundar dýra að segja honum hervirki Þorgríms alikarls Vigfússonar á Bakka í Eyjafirði. Sighvatur Sturluson hafði varðmenn á heiðinni 1234, svonefndan hestvörð. 1235 reið Órækja Snorrason heiðina á leið til Vestfjarða af fundi með Sighvati Sturlusyni. Hér riðu Sturla Þórðarson og Órækja Snorrason 1242 sem fangar Kolbeins unga. Á heiðinni mælti Órækja: “Skammur er nú dásshali okkar frændi eða hvað ætlar þú nú, að Kolbeinn ætlist fyrir.” Hrafn Oddsson flúði um Skjálgdalsheiði eftir Þverárfund 1255 og fall Eyjólfs ofsa Þorsteinssonar.

Förum frá Miklagarði vestur Skjálgdal og beint áfram vestur með Kambsá um Skjálgdalsheiði upp í Kambskarð í 1000 metra hæð milli Hvítalækjarfjalls að norðanverðu og Kambsfells að sunnanverðu. Förum vestur og niður úr skarðinu í Þverárdal og síðan til norðurs út dalinn, niður með Þverá að austanverðu að Þverá.

20,8 km
Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Melgerðismelar, Hraunárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga og Árbækur Ferðafélagsins