Skessubásavegur

Frá Kaldadalsvegi og fyrir norðan Skjaldbreið að Hlöðuvöllum.

Leiðin er óviss á köflum, einkum að norðvestanverðu, og þyrfti að varða hana. Kort Björns Gunnlaugssonar frá 1849 sýnir leiðina norðan við Hrúðurkarla, en hún er sunnan við þá. Leiðin á kortinu er vafalaust ekki nákvæmlega sama leiðin og Sturlungar notuðu, en hún er nærri lagi.

Árið 1253 fóru Hrafn Oddsson og Eyjólfur Þorsteinsson úr Hvítársíðu og suður hjá Skjaldbreið um Skessubásaveg og um Miðdalsfjall í misheppnaðri aðför að Gissuri Þorvaldssyni. Sighvatur Böðvarsson á Stað á var bróðir Þorgils skarða og vildi árið 1262 hefna fyrir dráp hans. Hann hitti Sturlu Þórðarson, föðurbróður sinn við Hallbjarnarvörður og fóru þeir saman suður Skessubásaveg og áfram um Klukkuskarð, þar sem þeir fengu óveður. Létu þar fyrir berast um nótt og héldu síðan áfram til Iðufundar við Þorvald Þórarinsson í Skálholti.

Förum frá fjallaskálanum á Hlöðuvöllum í 460 metra hæð og höldum nokkurn veginn í beina línu upp á Kaldadalsveg suðvestan Hrúðurkarla. Fyrst förum við sunnan við Fremra-Mófell og fyrir vestan Sköflung. Síðan sunnan undir Lambahlíðum / Tjaldafelli og norðvestur yfir Fífilvelli, fyrir sunnan Bjarnarfellin og fyrir norðan Sandfellin. Á Kaldadalsveg komum við suðvestan við Hrúðurkarla í 500 metra hæð.

21,9 km
Árnessýsla

Skálar:
Hlöðuvellir: N64 23.913 W20 33.488.

Nálægir ferlar: Kaldidalur.
Nálægar leiðir: Skjaldbreiður, Eyfirðingavegur, Miðdalsfjall, Brúarárskörð, Miðfell, Helludalur, Hellisskarð, Farið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins