Stundum heyrist sú skoðun, að marklítið sé að kvarta um, að fjárlög ríkisins hækka gífurlega ár frá ári. Slík hækkun sé í eðlilegu samræmi við hina miklu verðbólgu hér á landi, sem sjaldnast hefur verið meiri en einmitt nú.
Þegar nýju fjárlögin verða afgreidd í desember, verða þau þrefalt hærri en fjárlög ársins 1971. Þau hafa hreinlega þrefaldazt á aðeins þremur árum. Þótt verðbólgan hafi verið veruleg á þessum tíma, var hún þó ekki svona hrikaleg.
Staðreyndin er sú, að fjárlögin hafa hækkað langt umfram verðbólguna. Þetta sést bezt með því að athuga þá sneið, sem ríkiskassinn tekur af þjóðarframleiðslunni. Á sjöunda áratugnum, þegar viðreisnarstjórnin var við völd, hækkuðu fjárlögin venjulega í samræmi við verðbólguna og héldust í um eða tæpum 20% af þjóðarframleiðslunni. Þá hirti ríkið einn fimmta af þjóðarkökunni.
Síðan vinstristjórnin tók við, hefur þessi sneið stækkað á kostnað hinna aðilanna að þjóðarkökunni, sveitarfélaganna, fyrirtækjanna og fjölskyldnanna. Í nýjum fjárlögunum, sem afgreidd verða í desember, bendir allt til þess, að sneið ríkisins verði orðin 30% af allri kökunni. Hlutur ríkisins hefur þá aukizt úr fimmtungi í tæpan þriðjung alls þess fjár, sem Íslendingar hafa til umráða.
Þegar ríkið er farið að taka 30 milljarða af100 milljarða þjóðarframleiðslu, sem er til skiptanna, er von, að síga taki á ógæfuhliðina. Þetta er vitanlega ástæðan fyrir þeim drápsklyfjum tekjuskatta, sem almenningur verður að bera um þessar mundir. Ríkið gengur einfaldlega allt of langt í skattheimtu sinni. Þjóðin hefur ekki efni á að bera svona stórt ríkisbákn.
Þetta hafa verkalýðsfélögin nú loksins séð. Ein aðalkrafa Alþýðusambandsins í samningunum, sem nú standa yfir, er, að verulegar lagfæringar fáist á skattheimtunni. Einfalt dæmi nægir til að sýna, hve sjálfsögð slík krafa er. Fái launþegi 10.000 króna hækkun, borgar vinnuveitandinn fyrir hana 14.000 krónur vegna launatengds kostnaðar, svo sem skatta, en launþeginn fær aðeins í sinn hlut 4.500 krónur, því að Halldór E. tekur hitt í skatta. Það kostar því 14.000 krónur að láta launþegann fá 4.500 króna kjarabót.
Það er raunar skiljanlegt, að verðbólgan skuli vera illskeyttari en nokkru sinni fyrr, þegar kerfið er orðið svona fáránlegt. .
Oft hefur verið bent á, að óbeinir skattar væru að ýmsu leyti sanngjarnari og mildari en hinn beini tekjuskattur. Það væri heppilegt að breyta hluta núverandi tekjuskatts í söluskatt og síðar í virðisaukaskatt. En slíkt eitt út af fyrir sig er engin lausn á ofsköttuninni í þjóðfélaginu. Það leysir ekki vandann að koma með einn skatt í staðinn fyrir annan.
Vandinn er sá, að tekjuskattinn verður að stórlækka, án þess að sömu ríkistekna sé aflað með öðrum hætti. Það verður einfaldlega að skera niður fjárlögin. Það verður að leggja niður óþarfa stofnanir, sem ríkisstjórnin hefur komið upp, svo sem Framkvæmdastofnunina. Og það verður að fresta framkvæmdum, sem í sjálfu sér eru nytsamlegar, en þjóðin hefur ekki efni á að sinni.
Eina ábyrga afstaðan, sem þingmenn geta haft gagnvart fjárlagafrumvarpinu, er að skera það miskunnarlaust niður, eins og hvert annað krabbamein.
Jónas Kristjánsson
Vísir