Niðurskurður ríkisútgjalda um 2500-3700 milljónir króna og lækkun tekjuskatts vega þyngst á metunum í fjármálaaðgerðum ríkisstjórnarinnar um þessar mundir. Hækkun söluskatts um eitt stig er mun veigaminni aðgerð, því að hún gefur ríkinu þó ekki nema 800 milljónir.
Óneitanlega er ekki í stíl að vera að hækka einn skatt meðan aðrir eru lækkaðir og útgjöld ríkisins skorin niður. Hækkun söluskattsins hefur slæm áhrif á samkomulagið á vinnumarkaðinum og getur reynzt dýrkeypt um síðir. Þá verður það einnig að viðurkennast, að 20% er anzi hár söluskattur og takmarkar möguleika á breytingu tolla í söluskatt.
Nokkur sárabót er að því, að hækkun söluskattsins hverfur í skugga ráðagerðanna um 2500-3700 milljón króna niðurskurð ríkisútgjalda og um þá lækkun tekjuskatts, sem á að fela í sér, að almennar launatekjur verði tekjuskattsfrjálsar.
Ljóst er, að niðurskurður ríkisútgjalda um þessar miklu upphæðir verður mjög erfiður. Ekki verður unnt að fækka fastráðnum starfsmönnum ríkisins á þessu ári, en hins vegar ætti að vera unnt að banna yfirvinnu þeirra. Yfirvinna er að dragast saman í atvinnulífinu og ætti einnig að gera það hjá ríkinu.
Mesti sparnaðurinn ætti svo að nást með frestum framkvæmda. Og sá niðurskurður hlýtur að verða mjög tilfinnanlegur. Menn verða að sætta sig við, að mikill fjöldi nytsamlegra framkvæmda verði að bíða, meðan efnahagsóveðrinu er að slota. Gerð hafna, vega, skóla, sjúkrahúsa og margs annars af því tagi verður að bíða.
Einu framkvæmdirnar, sem ekki má spara, eru virkjanir og dreifing jarðhita og vatnsafls. Á þeim sviðum verðum við meira að segja að herða sóknina. Og þá stefnu hefur ríkisstjórnin einmitt tekið með því að láta hluta olíuprósentsins í söluskattinum renna til slíkra framkvæmda. Réttast hefði þó verið að láta þessa prósentu renna óskipta til þessa, fremur en að greiða niður olíunotkunina.
Svo virðist sem niðurskurður framkvæmda verði víðast hvar ekki minni hjá bæjar- og sveitarfélögum landsins en hjá ríkinu. Því má búast við miklum straumi starfskrafta úr byggingariðnaðinum til framleiðsluatvinnuveganna, sjávarútvegs og iðnaðar. En nokkur hætta er einnig á, að atvinnuleysi verði í byggingariðnaðinum, þrátt fyrir þennan straum.
Samt verður ekki hjá þessum niðurskurði komizt. Yfirbygging þjóðfélagsins er orðin of dýr. Þjóðin hefur kollsiglt skútu sinni. Alþingismenn okkar voru of léttlyndir, þegar þeir gengu frá fjárlögum fyrir jólin. Við verðum að fresta þeirri veizlu, sem þar var búin þjóðinni, og draga í þess stað af krafti úr hlutdeild ríkisbúsins í þjóðarbúinu.
Erfiðasta vandamál aðgerðanna kemur í ljós, þegar ramakvein fara að heyrast úr öllum áttum vegna miskunnarlauss niðurskurðar ríkisútgjalda. Þá mun sannarlega reyna á þolrif ráðamanna og þjóðar. Vonandi tekst að skera þessi útgjöld niður um 2500-3700 milljónir. Þá er hálfur sigur unninn.
Jónas Kristjánsson
Vísir