Brýnna er að bjarga hringveginum en að leggja um heiðar nýja vegi, sem stytta leiðir lítið og flestar ekkert. Víða er hringvegurinn stórskemmdur vegna meiri umferðar þungra bíla en gert hafði verið ráð fyrir. Samt eru menn að gamna sér við að stofna félög um vegi með varanlegu slitlagi yfir Kjöl og Arnarvatnsheiði. Og látið hefur verið undan þrýstingi um veggöng í afskekktum fjörðum, svo sem í Héðinsfirði. Betra er að viðurkenna, að þungaflutningar í landinu hafa færst af sjó á hringveginn og forgangsraða vegagerð með tilliti til þess.
