Skeið og tölt og mýkt

Punktar

Ný umræða um stöðu hrossaræktar á Íslandi hófst með tveimur samhliða atburðum. Greinaflokkur síðasta heftis Eiðfaxa um mýkt ferðahrossa og hast hoss sumra sýningarhrossa var önnur rótin.

Hin var umsögn Ágústs Sigurðssonar hrossaræktarráðunauts á stóðhestasýningunni í Gunnarsholti í vor, þar sem hann vakti athygli á, að helmingur stóðhestanna þar sýndi ekki skeið og taldi það vera áhyggjuefni.

Þriðja skrefið í umræðunni var málþingið um tölt á Hólum, þar sem Ágúst ítrekaði, að áherzlan á mýkt hefði látið undan síga fyrir áherzlu á fálmandi hreyfingar og taldi, að minna ætti að einblína á framfótahreyfingar en gert hefur verið að undanförnu. Eyjólfur Ísólfsson tók undir skoðun Ágústs og spáði því, að það, sem hann kallaði “fótaburðarsótt” mundi minnka á næstunni. Í þessu hefti Eiðfaxa er sagt frá málþinginu á Hólum.

Fjórða skrefið er greinaflokkur þessa tölublaðs um stöðu skeiðs í hrossaræktinni í beinu framhaldi af orðum ráðunautarins í Gunnarsholti. Hinn þekkti hrossadómari, Jón Finnur Hansson, hefur gengið til liðs við Eiðfaxa og skilgreinir vandamálið í grein í þessu hefti Eiðfaxa. Ennfremur talar hann þar við marga fagmenn, sem segja álit sitt á stöðu skeiðs. Sitt sýnist hverjum í þeirri umræðu eins og vera ber á góðum málfundi, enda hefur stóri sannleikurinn ekki fundizt enn.

Í grein Ágústs um skeið í þessu hefti stingur hann upp á, að kynbótahross verði á sýningum ekki aðeins flokkuð eftir aldri, heldur einnig eftir því, hvort þau sýna skeið eða ekki. Hann sér fyrir sér yfirlitssýningar, þar sem teflt sé saman annars vegar beztu tölturunum og hins vegar mestu vekringunum.

Á sýningunni í Gunnarsholti vék Ágúst einnig að framförum í danskri ræktun íslenzkra hesta í kjölfar kynbótasýningarinnar í Herning, þar sem hann var dómari. Í þessu hefti Eiðfaxa er rætt við ýmsa ræktunarmenn í Danmörku, þar sem þeir rekja ýmsar breytingar, sem orðið hafa til bóta í starfi þeirra. Athyglisvert er, að þeir hafa tengzt íslenzkri ræktun betur en áður.

Eiðfaxi leggur um þessar mundir áherzlu á að vera virkur í málefnalegri umræðu, fræðslu og skoðanaskiptum um margvísleg atriði, sem skipta máli í hrossarækt. Þetta kom skýrt fram í síðasta hefti Eiðfaxa og kemur enn sterkar fram í þessu hefti.

Af mörgu er að taka. Áhugi er vaxandi á ræktun íslenzkra hesta erlendis, ekki aðeins í Danmörku, þar sem dæmt var í Herning eftir íslenzka dómskalanum. Þjóðverjar eru farnir að halda kynbótasýningar eftir íslenzka dómskalanum í bland við hefðbundnar sýningar eftir þýzka dómskalanum. Þannig dreifast áherzlurnar frá Íslandi um allan heim ræktunar íslenzkra hrossa.

Með alþjóðavæðingu íslenzka dómkerfisins vex þrýstingur á kerfið. Fleiri aðilar og fleiri sjónarmið koma til sögunnar. Til dæmis vilja vafalaust sumir Þjóðverjar verja klárhestana gegn tilfærslum í áherzlu dóma í átt til mýktar og skeiðs, sem sumir Íslendingar telja samkvæmt ofangreindu vera tímabærar.

Umræðan í Eiðfaxa birtist í þremur gerðum tímaritsins, á íslenzku, ensku og þýzku og nær þannig mikilli dreifingu um allan heim íslenzka hestsins. Vafalaust munu birtast hér í blaðinu síðar í sumar viðbrögð frá ýmsum löndum við þessari umræðu og innlegg í hana.

Allt er þetta af hinu góða. Heimur íslenzka hestsins er einn, þótt hann sé dreifður. Allir málsaðilar hafa þeirra hagsmuna að gæta, að þróun íslenzka hestsins verði sem glæsilegust. Eiðfaxi þjónar hlutverki meðalgöngumanns í þessari málefnalegu umræðu.

Málþing um tölt var haldið á Hólum 20. maí á vegum Söguseturs íslenzka hestsins á Hólum. Björn Kristjánsson, forstöðumaður sögusetursins, setti málþingið. Síðan töluðu Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunautur og Eyjólfur Ísólfsson reiðkennari á Hólum. Hér á eftir fara ekki endursagnir erindanna, heldur brot úr efni þeirra.

Töltið kom aftur um miðja 19. öld

Björn Kristjánsson:

Tölt var innleitt á Íslandi að nýju eftir miðja 19. öld. Það var þekkt fyrr á tímum, en lítið notað og týndist niður að mestu. Á fyrri öldum var mest lagt upp úr skeiði. Heimildir um tölt frá fyrri tíð eru fátæklegar, helzt myndskreytingar í handritum og ákveðin textabrot. Þegar Jón Ásgeirsson á Þingeyrum og séra Jakob Benediktsson í Miklabæ fóru að ríða tölt á síðari hluta 19. aldar og hafa áhrif á aðra reiðmenn, var gangtegundin ný fyrir flestum samtíðarmönnum þeirra. Það er ekki fyrr en kemur vel fram á 20 öld að töltið nær verulegum vinsældum, þannig segir Þorlákur Björnsson frá Eyjarhólum í viðtali, að ekki hafi verið farið að sýna tölt á mótum fyrr en eftir 1940.

Tölt er sýnt á Valþjófsstaðahurðinni

Sigríður Sigurðardóttir:

Ein elzta hestamynd á Íslandi er á Valþjófsstaðahurðinni frá því um 1200. Þar er sýndur hestur með mikilli fótlyftu og hefur sú mynd verið gerð að táknmynd Söguseturs íslenzka hestsins. Á fimmtándu öld er skrifað á einum stað: “fara út eftir ísnum mikið tölt”. Í handriti frá 14. öld eru sýndir þrír reiðmenn, þar af einn á töltandi hesti.

Á öllum tímum Íslandssögunnar hefur tölt verið til, en fremur lítið notað. Heldri manna reiðtygi fyrri alda voru fremur klossuð og þung og gáfu ekki mikla möguleika á sambandi við hestinn. Þau voru því ekki til þess fallin að ná tölti úr hestum. Reiðþófinn var þó algengasta reiðver Íslendinga á öllum öldum og gaf kost á þessu sambandi.

Stangarbeizli komu sennilega ekki til Íslands fyrr en á 17. öld, miklu síðar en á meginlandi Evrópu. Nútímahnakkar með ensku sniði komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en um miðja 19. öld.

Fótaburðarsóttin mun senn minnka

Eyjólfur Ísólfsson:

Ísland hefur alltaf verið erfitt yfirferðar og ekki kallað á mikla töltreið. Samt bjó tölt alltaf í hestakyninu. Það hvarf að mestu úr notkun á síðari öldum, enda voru hnakkar grófir og gáfu lítið samband. Tölt var síðan endurvakið, þegar ný reiðtygi komu til sögunnar, enskir hnakkar og stangarbeizli.

Góð áseta einkennir myndir af reiðmönnum um aldamótin. Þegar töltið komst svo í meiri tízku á 20. öld, fór að bera á töltsótt, sem einkenndist af því, að menn riðu eingöngu á tölti, þurftu ekki gangskiptingar og komust því upp með lélega ásetu, sem síðar var ranglega kölluð gamla bændaásetan.

Hægatölt er að því leyti frábrugðið öðru tölti, að 1/24 hluta úr sekúndu er hesturinn með þrjá fætur samtímis á jörð, án þess að það hafi áhrif á taktinn. Þetta er svonefndur þrístuðningur, sem hverfur, þegar hraðar er riðið.

Rangt er að ríða tölt með því að lyfta hestinum að framan. Við það verður yfirlínan ýkt og bakið fatt, eins og sést á myndum frá töltsóttartímanum. Höfuðið á ekki að koma upp að framan, heldur vera nær lóðréttri stöðu en láréttri.

Fótaburður var ekki stórmál í gamla daga, en er núna orðið aðalatriði. Það er fótaburðarsóttin. Menn kaupa hágenga hesta, þótt þeir séu bæði ljótir og ganglitlir. Ég er sammála framtíðarspá Ágústs. Draga mun úr taumlausri fótaburðardýrkun.

Mýktin hefur vikið
fyrir fálmandi tölti

Ágúst Sigurðsson:

Tölt komst í tízku fyrir sjö áratugum samkvæmt skrifum Theódórs Arnbjörnssonar. Búnaðarfélagið skilgreindi tölt sem ræktunarmarkmið fyrir fimm áratugum. Kvikmyndir frá sjötta áratugum sýna settlega reið á hægatölti og mun minni fótlyftu, en nú er farin að tíðkast. Stöku hestur sést á milliferð, en enginn á yfirferð. Aðalatriðið þá var, að gangurinn færi vel með knapann. Töltskalinn frá 1970 leggur áherzlu á, að gangurinn sé mjúkur og rúmur og takturinn hreinn. Á síðustu árum hefur áherzlan á mýkt látið undan síga fyrir áherzlu á fálmandi hreyfingar.

Ég spái, að framtíðin feli í sér frábæra töltara, sem geti líka allt hitt. Minna verði einblínt á framfótahreyfingar og heildarmyndin fái meiri athygli. Meira verði tekið eftir mýkt og hreyfingafimi. Í senn verði lögð áherzla á hægatölt og mikið rými.

Ágúst ræddi einnig athugun á því, hverjir hafa verið helztu áhrifavaldar tölts meðal stóðhesta gegnum tíðina og er fjallað um þann kafla erindisins á næstu blaðsíðu.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 5.tbl. 2003