Af nýútkominni skýrslu Þjóðhagsstofnunar um efnahagshorfur Íslendinga á þessu ári má ráða, að hin efnahagslega endurreisn Vesturlanda muni ekki ná til Íslands, þrátt fyrir ört batnandi viðskiptakjör okkar gagnvart útlöndum.
Árleg greiðslubyrði Íslendinga af erlendum skuldum, sem nam um 11% af útflutningstekjum árin 1970-l974, hefur nú magnazt svo á einungis tveimur árum, að hún verður 18-19% á þessu ári. Þjóðhagsstofnunin bætir því kaldhæónislega við, að greiðslubyrðin “gæti enn farið vaxandi á næstu árum”. Komandi kynslóðir verða þannig í sívaxandi mæli að súpa seyðið af fjármálaléttúð og óreiðu núverandi ríkisstjórnar.
Árið 1976 verður að vísu ekki eins hroðalegt og árið 1975 var, en þjóðarhag er áfram stefnt niður á við. Þjóðhagsstofnunin spáir því, að viðskiptahallinn muni nema um 18 milljörðum króna á árinu, – auðvitað greiddur með erlendum lánum.
Skýringin á því, að Íslendingar hafa sokkið dýpra í efnahagserfiðleika en nágrannaþjóðirnar og sitja eftir í feninu, meðan aðrir eru farnir að rétta við, er sú, að ríkisstjórnin hefur ekki haft neina stjórn á fjármálum sínum. Um þetta eru augljósar tölur í skýrslu Þjóðhagsstofnunar.
Í fyrra urðu þjóðarútgjöld að minnka um ?%. Ríkið taldi sig ekki geta tekið neinn þátt í þeim samdrætti og jók umfang ríkisrekstrarins um 2% og fjárfestingarmagn sitt um 10%. Þetta þýddi, að atvinnuvegirnir urðu að draga saman fjárfestingu um 21% og að almenningur varð að minnka einkaneyzlu sína um 11% og íbúðabyggingar um 8%.
Einnig á þessu ári forðast ríkið sparnað. Umfang ríkisrekstrarins stendur í stað, þótt þjóðarútgjöld verði að minnka um ?%. Atvinnuvegirnir verða enn að taka bölið á sig að fullu og draga saman fjárfestinguna um 10%. Það er ekki von, að atvinnulífið geti staðið með blóma, þegar þannig er stjórnað. RÍkisstjórnin kann að hafa mikla ást á sósíalisma, en fyrr má nú rota en dauðrota.
“Útflutningsáætlun sjávarútvegs og stjórn fiskveiða verður að reisa á áliti fiskifræðinga á veiðiþoli fiskstofna …” segir í skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Samt ætla stjórnvöld að leyfa langtum meiri veiðar en fiskifræðingar telja ráðlegt. Og í skýrslunni er alls ekki gert ráð fyrir afleiðingum þess, að þorskurinn hverfi skyndilega eins og síldin, sem fiskifræðingar eru farnir að telja líklegt við óbreyttar aðstæður.
Þjóðhagsstofnunin telur engan vafa á, að langvinnur viðskiptahalli muni leiða til atvinnuleysis og efnahagslegs ósjálfstæðis. Hið síðarnefnda er þegar komið fram, þar sem Bandaríkin hafa af pólitískum ástæðum sprautað gífurlegu lánsfé til ríkisins á síðustu misserum.
Ráðherrar tala um reisn og stolt, þegar minnzt er á kostnaðarmál varnarliðsins. En hvar er reisn þeirra og stolt, þegar þeir sóa f.ármunum þjóðarinnar gegndarlaust og gera þjóðina að lánsfjárnýlendu Bandaríkjanna?
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
