Sigluneshlíðar

Frá Hreggstöðum í Haukabergsvaðli með ströndinni til Móbergs á Rauðasandi.

Leiðin er víða erfið, ófær hestum. Gæta verður sjávarfalla til að vera um háfjöru við Stálhlein. Erfið og brött leið er fyrir ofan hleinina. Þessa leið má aðeins fara með kunnugum.

Mikil útgerð var fyrrum á Siglunesi. Bjarni Þórðarson útvegsbóndi var forgöngumaður þilskipaútgerðar. Á Sjöundá voru framin morð vorið 1802. Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir bjuggu þá á hálfri jörðinni og á móti þeim Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir og höfðu þau flutzt þangað vorið 1801. Fljótlega eftir komu Jóns og Steinunnar byrjaði samdráttur hennar og Bjarna og mun samkomulag á heimilinu hafa verið afar slæmt um veturinn. 1. apríl hvarf Jón og var talið að hann hefði hrapað fyrir björg, en morðin komust upp, þegar lík Jóns rak á land á Bjarnanesi við Bæjarvaðal um sumarið.

Byrjum á vegi um Haukabergsvaðal á Barðaströnd við Hreggstaði. Förum eftir jeppaslóða suðsuðvestur ströndina að Siglunesi. Förum áfram vestur með ströndinni um Ytranes og yfir Siglá í Hellisvík. Þaðan vestur um Sigluneshlíðar undir Mávaskor. Þar er Fossárdalur með undirlendi á bökkunum, heitir þar Húsatún. Síðan förum við til vesturs undir Stálfjalli, framan við klettabríkurnar Kögur og Galtarbrík og síðan um Stálhlein. Þaðan vestur í Skor og síðan norðvestur og upp brattar skriður um Skorarhlíðar upp fyrir Söðul og um Hvammshlíð til Sjöundár. Þaðan norður að Melanesi á Rauðasandi og loks norður að Móbergi.

18,0 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta
Mjög bratt

Nálægar leiðir: Hreggstaðadalur, Rauðisandur, Strandaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jóhann Svavarsson