Siðferðisbrestur.

Greinar

Siðferðisbrestir virðast furðu algengir hjá stjórnmálaforingjum þjóðarinnar. Upplýsingar síðustu mánaða benda til þess, að margir þeirra séu ekki mikils trausts verðir. Sumir þeirra kunna að meira eða minna leyti að vera hafðir fyrir rangri sök, en í flestum tilvikum virðast gögnin gegn þeim vera óyggjandi.

Athyglin hefur einkum beinzt að ráðherrum Framsóknarflokksins. Halldór E. Sigurðsson er gagnrýndur fyrir húsakaup, Einar Ágústsson fyrir lántöku, Ólafur Jóhannesson fyrir stuðning við Klúbbmenn og Vilhjálmur Hjálmarsson er gagnrýndur fyrir mál, sem ekki er fjárhagslegs eðlis, en nógu alvarlegt samt, mál Braga Jósepssonar.

Aðrir stjórnmálaforingjar hafa einnig sætt ámæli. Lúðvík Jósepsson er gagnrýndur fyrir skattleysi, Matthías Á. Mathiesen fyrir bílainnflutning, Steingrímur Hermannsson fyrir benzínnotkun, Gylfi Þ. Gíslason fyrir lántöku sína og nokkurra annarra prófessora, svo og Matthías Bjarnason fyrir húsasölu á Ísafirði.

Öll þessi gagnrýni hefur verið studd gögnum. Önnur gagnrýni hefur komið fram án þess að vera studd sterkum líkum. Menn munu vafalaust leggja misjafnt mat á gögn og gagnaleysi, láta flokksbræður sína njóta efasemda en sakfella pólitíska andstæðinga á svipuðum líkum eins og jafnan hefur gerzt í pólitík á Íslandi.

Stjórnmálaforingjarnir eiga að vera viðkvæmir fyrir þessari gagnrýni, líka þeirri, sem virðist vera ósanngjörn. Þeir, sem virðast hafðir fyrir rangri sök, eiga skilyrðislaust að óska eftir rannsókn. Hinir, sem standa andspænis sterkum gögnum um siðferðisbrest, eiga ekki aðeins að biðja um rannsókn, heldur víkja einnig úr starfi á meðan.

Starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum mundu bregðast við á þann hátt. En hér tekur því miður enginn stjórnmálamaður afleiðingum gerða sinna. Þeir hrópa bara: Ég er ofsóttur. Og hvert flokksblað fyrir sig hrópar: Hinir eru ekkert betri.

Sennilega eru það samantekin ráð stjórnmálaflokkanna að láta dagblöð sín gera þessi mál að farsa. Mest ber á þessu í slagsmálum Tímans og Þjóðviljans um Halldór og Lúðvík. Þetta pólitíska moldviðri getur endað með því, að almenningur viti ekki lengur, hvað snýr upp og hvað niður, en stjórnmálamennirnir sleppi með skrekkinn.

Þrátt fyrir moldviðrið er nauðsynlegt, að stjórnmálamennirnir sæti aðhaldi, ekki aðeins svipuðu aðhaldi og í sumar, heldur enn sterkara aðhaldi. Stefnan á að vera sú, að leiðtogar þjóðarinnar séu nokkurn veginn vammlausir og hafi mun meira siðferðisþrek en gerist og gengur Í þjóðfélaginu.

Ef til vill eru stjórnmálaforingjar of illa launaðir. Þeir eiga raunar að hafa nógu miklar tekjur með eðlilegum hætti, svo að minni hætta sé á freistingum af því tagi. Umbætur á þessu sviði gætu líka leitt til þess, að meira framboð hæfra og valinkunna manna yrði til starfa að stjórnmálum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið