Siðblindan blífur

Greinar

Margir muna enn eftir fallega uppsettri grein í Morgunblaðinu í fyrra eftir stýrimann nokkurn, sem var að kvarta yfir því, að ráðherrar hefðu ekki vinnufrið fyrir gagnrýni. Krafðist hann opinberra aðgerða gegn þeim fjölmiðlum, sem ekki sýndu yfirvaldinu tilhlýðilega dýrkun.

Þessa dagana hefur Jón Sigurðsson, dálkahöfundur Tímans, tekið að sér að vera brjóstvörn kerfisins gegn gagnrýni úr fjölmiðlum. Hann skýrir gagnrýnina á þann hátt, að þar séu á ferðinni Glistruppar að naga rætur lýðræðisins sér til pólitísks og fjárhagslegs ávinnings.

Ennfremur virðist hann hafa þá einkennilegu hugmynd, að frásögn Schütz hins þýzka af niðurstöðu Geirfinnsmálsins hafi hreinsað Framsóknarflokkinn og ráðamenn hans af áburði um siðblindu. Verður þó ekki séð, að gagnrýni manna á ráðamenn Framsóknarflokksins komi Geirfinnsmálinu neitt við.

Þetta bendir til þess, að ráðamenn Framsóknarflokksins hafi ákveðið að taka ekki hið minnsta mark á gagnrýninni, sem þeir hafa sætt, heldur sigla áfram á fullri ferð í sömu siðblindu og fyrirgreiðslu og fyrri daginn. Ráðningin í embætti forstjóra sölunefndar varnarliðseigna er ágætt dæmi um þessa forherðingu.

Sumum finnst án efa vel við hæfi, að sá maður, sem staðið hefur í mestum skítverkum á prenti á undanförnum árum í formi persónulegra árása á síðum Tímans, skuli vera gerður að skransala varnarliðsins. En burtséð frá því er þetta hrein flokkspólitísk ráðning í hefðbundnum íslenzkum stíl.

Alfreð Þorsteinsson var ekki einu sinni á skrá utanríkisráðuneytisins um 34 umsækjendur. Það var Einar Ágústsson utanríkisráðherra, sem geymdi hana persónulega í pússi sínu. Vafalaust telur hann slík vinnubrögð eðlileg, á sama hátt og hann telur eðlilegt að leyna nöfnum umsækjenda, þar sem um “utanríkismál” sé að ræða!

Fleiri ráðamenn Framsóknarflokksins eiga erfitt með að fóta sig um þessar mundir. Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra ritaði nýlega grein í Tímann til varnar þeirri íslenzku hefð, að ráðherrar og alþingismenn séu að sníkja bankavíxla fyrir kjósendur sína. Þótti honum slíkt jafnsjálfsagt og Einari Ágústssyni þótti að gera Batta rauða smágreiða. Hlýtur slík fyrirgreiðsla þó að rýra möguleika hinna, sem ekki fara pólitískar leiðir til að ná sér í lán.

Dæmin um slíka siðblindu hafa hrannazt upp. Ráðherra kaupir hús með hagstæðum annúitetskjörum af viðsemjanda sínum um verð á raforku til Ísals. Ráðherra hefur leynisjóð í ráðuneyti sínu, sem nota má til að stuðla að húsabraski flokks síns. Ráðherrar eru í símanum út og suður til að hafa afskipti af framvindu dómsmála.

Tveir löggæzlumenn eru hundeltir vegna gruns um að hafa farið rétt út fyrir ramma laganna. Á sama tíma er dómsmálakerfið ófáanlegt til að sinna alvarlegum glæfrum, sem fjölmiðlar hafa skrifað um. Og bankarnir loka almennum lánveitingum, meðan flokksgæðingarnir mata krókinn.

Engan Glistrup þarf til að segja slíkt þjóðfélag sjúkt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið