Benedikt Gröndal forsætis- og utanríkisráðherra hefur of lengi tregðazt gegn kröfum manna um, að hann komi á fót formlegum samráðum íslenzku stjórnmálaflokkanna um framvindu deilunnar við Norðmenn um Jan Mayen.
Þetta milliríkjamal er svo viðkvæmt og alvarlegt, að það má alls ekki liggja í láginni vikum og jafnvel mánuðum saman, meðan að völdum situr ríkisstjórn, sem ekkert segist mega gera, er máli skipti.
Það er meira að segja nauðsynlegt fyrir Benedikt sjálfan, að Jan Mayen málið blandist ekki við kosningabaráttuna, heldur standi allir flokkar saman um einn málstað Íslands ofar innbyrðis átökum.
Benedikt á að vita, að hann er grunaður um linkind í Jan Mayen deilunni. Hann getur bezt varizt slíkum grun með því að fela málið í hendur hópi stjórnmálamanna úr öllum flokkum.
Við getum ekki treyst því, að Norðmenn bíði endalaust með frekari aðgerðir. Þeir hafa að minnsta kosti skotið sér undan því að staðfesta, að þeir hafi fallizt á leikhlé á stjórnarkrepputímanum á Íslandi.
Við megum líka fastlega búast við, að myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar verði miklum erfiðleikum bundin. Hún getur dregizt vikum og mánuðum saman meðan leiðtogarnir reyna að finna illskásta samstarfskostinn.
Þolinmæði Norðmanna kann að bresta fyrr eða síðar. Við verðum að vera tilbúnir að mæta hugsanlegum einhliða yfirlýsingum þeirra um réttarstöðu þeirra eða um fyrirhugaðar aðgerðir á landi eða í sjó við Jan Mayen.
Eitt mikilvægasta verkefni Jan Mayen hópsins, sem Benedikt Gröndal verður nauðsynlega að skipa strax, er að meta nýjar og athyglisverðar upplýsingar úr íslenzkum stjórnarskjölum frá þriðja tug aldarinnar.
Fyrst er að nefna, að Jón Magnússon forsætisráðherra tilkynnti norskum stjórnvöldum, að ríkisstjórn Íslands áskilji íslenzkum ríkisborgurum jafnan rétt á Jan Mayen við borgara hvaða annars ríkis, sem er.
Síðan tilkynnti Jón Þorláksson forsætisráðherra norskum stjórnvöldum, að Ísland sé næsti nágranni Jan Mayen, sem sé á islenzku hafsvæði og tengist íslenzkum efnahagsmunum. Og ennfremur, að Ísland áskilji sér jafnan rétt til nýtingar á hagsmunum tengdum hinni umdeildu eyju.
Þetta var á þeim árum, er Jan Mayen var ennþá einskis manns land og Norðmenn voru að koma sér þar upp veðurathugunarstöð. Ítakakröfur íslenzkra stjórnvalda eru meira að segja eldri en hinna norsku.
Það er sjálfsagt fyrir okkur að ítreka nú þegar tilkynningar hinna framsýnu forsætisráðherra okkar á þriðja tug aldarinnar. Þar með værum við búnir að taka í málinu frumkvæði, sem mundi gera Norðmönnum erfitt fyrir.
Síðan þurfa sérfróðir menn að meta lagalegt gildi hinna gömlu tilkynninga, er þar bætast við fyrri rök okkar, byggð á gildandi hafrétti og stöðu mála á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Að þessu þurfa stjórnmálaflokkarnir að starfa sameiginlega og af dugnaði. Við höfum ekki efni á leikhléi í deilunni um Jan Mayen út af stjórnarkreppum á Íslandi. Við höfum svo gífurlegra hagsmuna að gæta á Jan Mayen og við Jan Mayen.
Forsætisráðherra þarf því þegar að efna til formlegra samráða um næstu skref Íslands í framvindu deilunnar um Jan Mayen.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið