Selvogsgata

Reykjanes, Þjóðleiðir

Frá Hafnarfirði til Vogsósa í Selvogi.

Gömul þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Um tíma líka notuð til brennisteinsflutninga frá Námuhvammi í Brennisteinsfjöllum. Námurnar eru um tvo kílómetra frá Tvívörðum á leiðinni hjá Litla-Kóngsfelli. Leiðin er stundum kennd við Kerlingarskarð, sem er vestasta skarðið af Grindarskörðum og það eina, sem er hestfært. Þegar upp skarðið kemur eru fleiri leiðir en sú, sem hér er lýst, niður að öðrum bæjum í Selvogi. Þegar þessi leið var farin úr Selvogi til Reykjavíkur, var það kallað að fara suður, þótt raunar sé leiðin í hánorður. Til baka var kallað að fara austur í Selvog. Leiðin er illa vörðuð, en er samt greinileg enn. Þótt hún sé orðin fáfarin af járnuðum hestum, sem eru færari en fólk í mjúkum skóm í að viðhalda fornum götum. Sem eru fornminjar.

Förum frá Kaldárseli beint í austur fyrir norðan Helgafell og Valahnjúka. Beygjum síðan til suðausturs um Þríhnjúkahraun og Tvíbollahraun og yfir þjóðveg 417. Eftir það beygjum við meira til suðurs og höldum framhjá Grindarskörðum í austri og síðan bratt upp í Kerlingarskarð, þar sem við náum 460 metra hæð. Úr skarðinu förum við fyrst suðaustur um Draugahlíðar og vestan við Stórkonugjá og Litla-Kóngsfell. Þaðan eru hliðarleiðir um Hlíðarveg og Stakkavíkurveg til Hlíðarvatns. En við förum suðsuðaustur um Grafning og síðan Stóra-Leirdal, vestan við Eystri-Hvalhnjúk. Næst um Hvalskarð austan Vestri-Hvalhnjúks og niður Litla-Leirdal og um Hlíðardal vestan Urðarfells niður Katlabrekkur í Katlahraun. Þar beygjum við til suðvesturs á sléttunni í beina stefnu á Vogsósa.

26,2 km
Rey kjavík-Reykjanes

Nálægar leiðir: Hlíðavegur, Stakkavík, Helgafell, Undirhlíðar, Vatnsleysuströnd.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins