Samstaðan er bezt

Greinar

Allir stjórnmálaflokkarnir urðu sammála um það í utanríkismálanefnd alþingis í gær að vísa á bug tillögu Breta um, að alþjóðleg nefnd úrskurði, hver eigi sök á árekstrum, sem verða milli varðskipa og brezkra herskipa.

Rökin fyrir þessari afstöðu komu skýrt fram í blaðaviðtali við Jóhann Hafstein, formann Sjálfstæðisflokksins, í gær. Hann sagði: “Það á að mínu áliti að vera algjörlega á valdi íslenzkra stjórnvalda að meta það, hvort hugsanlegur árekstur milli framangreindra aðila á miðunum við Ísland gefi tilefni til slita stjórnmálasambands af Íslands hálfu. Yrði þá byggt á skýrslum eftir sjópróf og fyrir sjódómi. Íslendingar hafa ætíð gefið gagnaðila kost á því, að fulltrúar hans mæti fyrir sjódómi hér á landi, þegar því er að skipta til þess að túlka sinn málstað”.

Ríkisstjórnin gerði rétt, þegar hún bar tillögu Breta undir utanríkismálanefnd, áður en hún tók sjálf afstöðu í málinu. Það gerði henni kleift að hlusta, á sjónarmið stjórnarandstöðunnar og byggja stefnu sína á sameiginlegu þjóðaráliti. Í jafn viðkvæmu máli og jafn miklu þjóðarbaráttu- máli og landhelgismálinu er ríkisstjórninni nauðsynlegt að mæla fyrir munn þjóðarinnar allrar.

Ákvörðunin um útfærslu landhelginnar í 50 mílur var tekin á þennan hátt. Utanríkismálanefnd alþingis náði algerri samstöðu um að leggja slíka tillögu fyrir alþingi og hún hlaut samþykki allra 60 þingmanna alþingis. Síðan hefur þjóðin sem heild staðið saman um 50 mílurnar.

Tillaga sjálfstæðismanna um 200 mílna landhelgi á næsta ári stríðir ekki gegn 50 mílna landhelginni. Sjálfstæðismenn hafa alltaf haldið landgrunnskenningunni á lofti. Og þeir telja nú, að ástandið í heiminum hafi breytzt svo gífurlega undanfarið ár, að skrefið upp í 200 mílur megi stíga þegar á næsta ári. Það er velgengni 200 mílna stefnunnar á undirbúningsfundum hafréttarráðstefnunnar, sem hefur mest áhrif á þessa skoðun sjálfstæðismanna.

Mjög æskilegt væri, að utanríkismálanefnd héldi sérstakan fund til að ræða möguleika 200 mílna stefnunnar. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar fengju þá tækifæri til að hlusta á röksemdir sjálfstæðismanna. Á slíkum viðræðum mætti byggja þjóðarsamstöðu um 200 mílurnar, ef stjórnarsinnar láta ekki flokkapólitík rugla sig.

Því miður hefur utanríkismálanefnd ekki alltaf verið höfð með í ráðum. Ef stjórnin hefði borið undir hana í tæka tíð hugmyndir sínar um skilyrt

slit stjórnmálasambands við Breta, hefði hún getað kinnroðalaust lagfært ályktun sína um það efni og þar af leiðandi haft betra svigrúm til að taka ákvörðun um slitin eftir efnum og ástæðum.

Slík ráðgjöf af hálfu utanríkismálanefndar hefði verið ríkisstjórninni hættulaus, því að Jóhann Hafstein hefur lýst því yfir, að svo kunni að fara, “að við gætum ekki hugsað okkur, heiðurs okkar vegna, að hafa ein eða nein samskipti við Breta, nema þeir bæti ráð sitt”.

Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra hefur ákveðið að þrengja mjög möguleikann á að koma sjúkum brezkum sjómönnum til íslenzkra hafna og það gegn opinberlega yfirlýstri andstöðu ráðherra Frjálslyndra. Utanríkismálanefnd var ekki látin fjalla um málið.

Ákvörðun Ólafs stríðir gegn siðgæðisvitund mikils fjölda Íslendinga og var óþarft brot á þjóðarsamstöðunni í landhelgismálinu. Utanríkismálanefnd hefði getað komið Í veg fyrir þau mistök, ef hún væri með í ráðum.

Jónas Kristjánsson

Vísir