Bankarnir hafa sameinazt allir sem einn um að draga úr þjónustu við almenning. Þeir loka öllum afgreiðslum sínum klukkan fjögur alla daga nema fimmtudaga, þegar haft er opið milli klukkan fimm og sex.
Þetta er stórfelld breyting. Áður voru mörg útibúin opin til klukkan sex. Raunar er ekki langt síðan unnt var að komast í bankaútibú til klukkan hálfsjö alla virka daga. Í þá daga stóðu bankarnir sig vel.
Verzlunarbankinn var þá svo stoltur af þjónustu sinni, að hann auglýsti grimmt að jafnan væri einhver afgreiðsla bankans opin frá klukkan tíu að morgni til hálfsjö að kvöldi. Þetta stolt hefur bankinn nú étið ofan í sig.
Þjónusta er almenningi mikilvæg á tímabilinu frá klukkan fjögur til sjö. Þá eru flestir á leið úr vinnu og hafa aðstöðu til að sinna erindum sínum. Enda er þetta annasamasti verzlunartími dagsins.
Almenningur hefur ekki góða aðstöðu til að notfæra sér bankaþjónustu fyrir klukkan fjögur. Margir eru bundnir í vinnu sinni og geta ekki brugðið sér frá eftir þörfum. Einnig gerir eðli margra starfa slíkar frátafir erfiðar.
Flestir fá laun sín greidd í ávísunum og þurfa að leggja leið sína í banka. Þeir, sem fá útborgað á föstudögum, hafa tæpast efni á að bíða til næsta fimmtudags til að skipta ávísun í peninga.
Síðan yfirfærist vandinn að hluta til yfir á atvinnureksturinn. Þar mun ráðamönnum reynast erfitt að standa gegn því, að starfsmenn komist í banka á vinnutíma. Auðvitað leiðir þetta til aukins los á vinnubrögðum.
Bankarnir baka almenningi og atvinnulífi þessi vandræði til þess að draga úr launagreiðslum sínum. Það er ekki haldbær afsökun, því að þeir gætu náð sama markmiði með öðrum skipulagsbreytingum.
Til dæmis mætti stytta afgreiðslutíma hvers útibús án þess að stytta þann hluta hans, sem var eftir klukkan fjögur. Slík breyting hefði komið mun síður við almenning en hin samræmda aðgerð.
Það hefði verið sök sér, ef einhverjir bankar, sem lítinn áhuga hafa á viðskiptum við almenning, hefðu lokað dyrum sínum, en aðrir bankar, sem þjónusta vilja fólk, hefðu haldið óbreyttum afgreiðslutíma.
En þetta eru samantekin ráð allra bankanna. Þetta er “samsæri gegn almenningi”, svo að notað sé orðaval bandarískra laga gegn einokun og hringamyndun.
Ef slíkt samsæri gegn almenningi hefði verið framið í Bandaríkjunum, sætu bankastjórar á bak við lás og slá. En við búum á Íslandi, án laga gegn einokun og hringamyndun. Þess vegna fá bankastjórarnir að ganga lausir.
Raunar er athyglisvert, að tiltölulega vægt frumvarp til laga um verzlunarhætti, einokun og hringamyndun hefur verið að velkjast um alþingi allt frá dögum viðreisnarstjórnar án þess að ná fram að ganga.
Þess vegna mega bankarnir ofsækja almenning með þeim hætti, sem hér hefur verið fjallað um. En það, sem er lagalega heimilt, þarf ekki að vera siðferðilega heimilt.
Bankarnir eru brotlegir frá siðferðilegu sjónarmiði. Full ástæða er til að fordæma harðlega hinn snögga samdrátt í þjónustu þeirra. Stytting afgreiðslutímans er fjandsamleg almenningi. Hún er samsæri gegn almenningi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið