Sameinumst um 200 mílur

Greinar

Þjóðareining um 200 mílna fiskveiðilögsögu á nú að taka við af þjóðareiningunni um 50 mílna lögsöguna vegna þess að ástandið í heiminum hefur breytzt á þann veg, að mjög góðar horfur eru á, að 200 mílna fiskveiðilögsaga verði bráðlega að alþjóðalögum.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta mál, til dæmis hér í leiðurum Vísis. Þessi umræða hefur farið ákaflega í taugar Þjóðviljamanna, eins og nýlegur leiðari þess blaðs sýnir. Um þann leiðara hefur Morgunblaðið réttilega sagt: ,,Allt eru það upphrópanir og haturskennd, pólitísk froða”. Og Morgunblaðið spyr jafn réttilega: ,,Hvers vegna jafngildir ósk um 200 mílna fiskveiðilögsögu rofi á þjóðareiningu?”

Skoðanir Vísis hafa fyrir misskilning verið teknar óstinnt upp í Tímanum. Vísir hefur hvorki vænt ráðherra Framsóknarflokksins né Tímamenn um óheilindi í 200 mílna málinu. Í leiðurum Vísis hefur greinilega verið sagt, að gagnrýni blaðsins beinist gegn Lúðvík Jósepssyni ráðherra og Þjóðviljanum.

Þegar Vísir hvetur til samstöðu um 200 mílna fiskveiðilögsögu,er blaðið ekki að lasta það, sem búið er að gera í 50 mílna málinu. Blaðið er ekki heldur að halda því fram, að við eigum að hætta að verja 50 mílna landhelgina. Vísir hefur þvert á móti margsagt undanfarna daga, að við eigum að halda áfram að reyna að verja landhelgina og halda áfram að ræða við Breta og Þjóðverja.

En Vísir hefur bent á, að þær breytingar hafa gerzt á alþjóðavettvangi, sem valda því, að okkur er í hag að leggja aukna áherslu á nýjar baráttuaðferðir. Um 85ríki í heiminum eru fylgjandi 200 mílna fiskveiðilögsögu og með hóflegri bjartsýni má ætla, að slík lögsaga nái tilskildum tveimur þriðju atkvæða á hafréttarráðstefnunni á næsta ári.

Staða okkar í 50 mílna málinu er sú, að okkur hefur enn ekki tekizt að knýja hana fram. Bretar og Þjóðverjar veiða áfram eins og ekkert hafi í skorizt og virðast reiðubúnir til að taka á sig ýmis óþægindi vegna þess. Jafnframt hefur lítið sem ekkert miðað í samkomulagsátt í viðræðunum við Breta og Þjóðverja. Það má því fastlega búast við, að 50 mílna fiskveiðilögsagan verði enn ekki komin til framkvæmda, þegar hafréttarráðstefnan ákveður, að 200 mílna fiskveiðilögsaga verði hér eftir alþjóðleg regla.

Rökrétt afleiðing af matinu á þessari stöðu er, að við eigum að beina kröftum okkar sem mest að framgangi 200 mílna fiskveiðilögsögunnar. Við eigum að vinna af líf og sál að undirbúningi hafréttarráðstefnunnar og að fjölgun þeirra ríkja, sem ætla að styðja 200 mílna fiskveiðilögsögu. Og við eigum nú þegar að lýsa því yfir, að við tökum okkur 200 mílur um leið og hafréttarráðstefnan tekur ákvörðun um slíka fiskveiðilögsögu.

Um þessar mundir hlýtur því baráttan fyrir 50 mílna landhelgi að falla í skugga baráttunnar fyrir 200 mílna landhelgi, ef allt væri með felldu, ef Lúðvík Jósepsson þyrfti ekki að vera í pólitískum sjónhverfingaleik.

Við höfum ekki efni á annarlegum sjónarmiðum í landhelgismálinu. Við skulum því sameinast nú þegar um 200 mílna fiskveiðilögsögu.

Jónas Kristjánsson

Vísir