Hvorki landsfeður né leyniþjónustur lesa dagblöð. Betra er talið að láta njósnara semja eftirsóttar jáskýrslur, sem falla að hugmyndafræði yfirvalda. Þannig hélt Olmert, að Hezbolla yrði sigrað á nokkrum dögum. Þannig héldu Bush og Blair, að gereyðingarvopn væru í Írak. Þannig heldur Bush, að allt gangi vel í Írak. Þannig hélt Bush, að Talíban væri útdautt í Afganistan. Til skamms tíma hafði CIA aldrei heyrt um klerkana, sem nú hafa tekið völd í Sómalíu. Í CIA velta menn enn fyrir sér, hver hafi tapað Úsbekistan. Þeir hefðu frekar átt að lesa dagblöðin en skýrslur njósnara sinna.
