Upplausnin í þjóðfélaginu magnast viku eftir viku. Okkur berast í sífellu nýjar og nýjar upplýsingar um, að Róm sé að brenna. Jafnframt fjölgar stöðugt þrýstihópunum, sem skera upp herör til að ná sem mestu herfangi úr rústum efnahagslífsins.
Um daginn fengum við að vita, að þorskurinn færi þverrandi á Íslandsmiðum vegna gífurlegrar ofveiði og að fiskútgerðina yrði að draga saman til að bjarga fiskistofnunum.
Núna fyrir helgina fengum við að vita, að þjóðartekjumar muni á þessu ári rýrna um 9% eða meira en nokkru sinni síðan þjóðin fékk sjálfsforræði og að ekki eru horfur á bata að sinni.
Við vissum áður, að lífskjörin hafa stórversnað og að flestar mikilvægustu atvinnugreinarnar hanga á nástrái. Við vissum áður, að gjaldeyrisvarasjóðurinn var búinn að vera og að lánamöguleikar erlendis hafa rýrnað að marki.
Víð erum alltaf að fá nýjar og nýjar staðfestingar á, að Róm er að brenna.
Ríkisstjórnin steig hálft skref til úrbóta, er hún lagði fram fjárlagafrumvarp með verulegum niðurskurði á ýmsum sviðum. En hún steig ekki skrefið til fulls, því að frumvarpið gerir ráð fyrir 20% aukningu ríkisútgjalda á næsta ári. Og svo eiga þingmennirnir eftir að hlaða á frumvarpið margvíslegri og kostnaðarsamri óskhyggju sinni.
Þeir eru mjög fáir, sem hlusta á aðvörunarorð ríkisstjórnarinnar, enda hefur hún ekki gengið á undan með nægilega góðu fordæmi. Hún þorir ekki að hverfa frá smáskammtalækningunum yfir í hreinan uppskurð, sem einn getur snúið við hinu ömurlega efnahagsdæmi.
Í auraleysi ríkisins voru námsmenn skornir niður. Þeir risu upp á afturfæturna og höfðu raunar gild rök til síns máls. Allar horfur eru á, að ríkið gefist upp fyrir þeim og lofi fullum leiðréttingum, þótt það hafi engin efni á slíku.
Opinberir starfsmenn láta ófriðlega og heimta verkfallsrétt. Þeir hóta að beita ólöglelgum verkföllum til að knýja hann fram. Þeir eru sjálfsagt orðnir langþreyttir á lélegum lífskjörum og kunna að fá sitt fram. En vonandi kemur þá ekki í ljós, að skattgreiðendur telji þá bezt geymda í verkfalli.
Sjómenn hafa siglt í land, sáróánægðir með lágt fiskverð og sjóðagreiðslur framhjá hlutaskiptum. Klögumál þeirra eiga mikinn rétt á sér eins og margra annarra. Gallinn er sá, að sjálfir fulltrúar sjómanna bera með öðrum ábyrgð á því fiskverði, sem nýlega var sett, þannig að raunar hefði það staðið sjómönnum nær að koma á betra sambandi milli sín og fulltrúa sinna.
En flotinn er í höfn og menn æpa hver á annan. Enginn fyrirfinnst gullasninn, er geti leyst hina botnlausu fjárþörf á þessu sviði fremur en öðrum. Skattgreiðendur verða svo ekki flegnir fremur en orðið er, þegar Róm er brunnin.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið