Hér á landi hefur ríkt fólk ekki safnazt saman í sérstökum hverfum. Í Bandaríkjunum hins vegar býr það í víggirtum hverfum með vopnuðum vörðum til að halda plebbunum í burtu. Í Rússlandi eru þarfir nýríkra meiri. Þeir hafa í nágrenni Moskvu skipulagt heila 30.000 manna borg, Rublyovo, þar sem reistar verða miklar villur. Allar eru þær með aðgangi að skurðum, er liggja út í Moskvuá, sem umlykur borgina á þrjá vegu. Byggingarstíllinn á að sögn BBC að minna á Prag og Amsterdam. Milljarðamæringum hefur fjölgað meira í Rússlandi en í öðrum löndum og eru þar mafíósar fremstir í flokki.
