Ríkisstjórn skattsvika

Greinar

“Á árinu 1978 skal lagður sérstakur tekjuskattur á þá skattaðila, sem vegna aðstöðuleysis eða af misskildum heiðarleika töldu fram tekjur á skattárinu 1977 umfram þau mörk, sem greinir hér á eftir. Þeir skattaðilar, sem höfðu tekjur umfram þessi mörk, en sviku undan skatti, þurfa ekki að hafa áhyggjur af hinum sérstaka tekjuskatti.”

Þannig hefði kaflinn um aukinn tekjuskatt í nýju skattalögunum átt að byrja, að mati Sveins Jónssonar, aðstoðarbankastjóra Seðlabankans, sem ritaði grein um þetta efni í Morgunblaðið á þriðjudaginn.

Svipuð sjónarmið komu fram í leiðara Dagblaðsins á mánudaginn: “Ríkisstjórnin hefði unnið mun þarfara. verk, ef hún hefði reynt að koma lögum yfir hin breiðu bök, sem tekst að koma tekjum sínum framhjá skatti. Þar eru gífurlegir möguleikar á auknum skatttekjum ríkisins, sanngjarnari en auknar álögur á þá, sem gefa nauðugir eða viljugir upp allar sínar tekjur.”

Sveinn Jónsson segir frá nýlegri áætlun í Noregi, sem bendir til, að 10-11% þjóðartekna séu svikin undan skatti þar í landi, þrátt fyrir öflugt skattaeftirlit. Ef sama hlutfall væri hér á landi og gert væri ráð fyrir, að verulegur hluti hinna skattsviknu tekna ætti að lenda í hæstu skattprósentu, má gera ráð fyrir 15-20 milljarða tekjutjóni í skattheimtu.

Því miður valda verðbólga og aðrar séríslenzkar aðstæður því, að gera má ráð fyrir meiri skattsvikum hér en í Noregi. Og hin nýju skattalög hvetja mjög til aukinnar hugkvæmni skattgreiðenda á því sviði. Samanlögð tekjuskattprósenta að viðbættum skyldusparnaði er nefnilega komin upp undir 70%!

Ríkisstjórnin virðist haldin þeirri nauðungarhugsun, að þeir, sem greiða háa tekjuskatta, séu vondu mennirnir í þjóðfélaginu. Hún hróflar hins vegar ekki við verðbólgubröskurunum, sem koma tekjum sínum undan skatti vegna eymdar íslenzkra skattalaga. Þetta skilst, þegar athugað er, að flestir verðbólgubraskarar dafna í skjóli þeirrar aðstöðu, sem stjórnmálaflokkarnir hafa í lánastofnunum.

Í hópi vonda fólksins að mati stjórnarinnar eru hjón, sem bæði vinna úti til að koma undir sig fótunum. Þar er fólk, sem vinnur óhóflega langan vinnudag í sama skyni. Þar er fólk, sem hefur lagt hart að sér við öflun starfsreynslu og menntunar. Einkum og sér í lagi er um að ræða launafólk, sem ekki getur ráðskazt með bókhald tekna sinna.

Þetta launafólk er auðvitað hátekjufólk, sem á að borga meiri skatta en lágtekjufólk, til dæmis 35% af tekjum, meðan lágtekjufólk borgi minna og helzt ekki neitt. Hins vegar mætti ríkisstjórnin gjarnan ná 70% af. tekjum verðbólgubraskaranna, skjólstæðinga hennar sjálfrar.

Í máli þessu endurspeglast rótgróin spilling íslenzkra stjórnmála. Verðbólgubraskararnir, sem breyta lánum í verðfasta steypu og endurgreiða síðan í verðrýrðum krónum og búa sér þannig til skattlausar tekjur, starfa í skjóli stjórnmálaflokkanna og sumpart meira að segja á vegum þeirra. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Engan þarf því að undra, þótt stjórnarflokkunum svíði gagnrýni Sveins og hefji á hendur honum herferð persónuníðs í flokksblöðunum. Í gær fjölluðu fjórar greinar Tímans og Þjóðviljans um vonzku hans.

Í kurteisustu greininni var kvartað um, að Sveinn hafi ekki komið með tillögur til úrbóta. En skyldi ríkisstjórnin þora að fela honum slíkar tillögur? Ætli hún verndi ekki heldur braskarana.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið