“Núna á síðustu misserum hafa átt sér stað ánægjulegar breytingar í neytendamálum á Íslandi,” sagði Svavar Gestsson viðskiptaráðherra nýlega í kveðju til Neytendasamtakanna. Síðan sagði hann:
“Ein ástæðan, og ef til vill ekki sú þýðingarminnsta, er sú, að ýmis dagblaðanna hafa tekið upp fastar neytendamálasíður, sem hafa orðið til þess að vekja fjölda fólks, fleiri en nokkru sinni fyrr, til umhugsunar um neytendamálefni.”
Lengst í þessu efni hefur gengið Dagblaðið, sem hefur um árabil birt daglega neytendasíðu. Þar hefur mikil áherzla verið lögð á verðkannanir, útgjaldakannanir og kannanir á matreiðslukostnaði. Fjöldi fólks hefur tekið þátt í þessum útreikningum.
Markmiðið er fyrst og fremst að afla neytendum verðskyns í verðbólgunni. Slíkt er einkar erfitt, þegar verðbreytingar eru örar. Mismunandi verð getur verið á sömu vöru í sömu búð, þótt álagning sé jafnan rétt. Er varan þá yfirleitt keypt til landsins á mismunandi tíma og á misjöfnu gengi.
Um þetta segir Svavar: “Svona þröskuldar mega hins vegar ekki verða til þess, að menn gefist upp. Ég held, að þessir þröskuldar verði í raun og veru að verða mönnum hvatning til þess að ganga enn rösklegar til verks en ella væri.”
Reynsla Dagblaðsins er sú, að neytendur geti þjálfað með sér verðskyn, þrátt fyrir verðbólguna. Hin ótalmörgu bréf, sem blaðinu hafa borizt út af athugunum á heimiliskostnaði, benda til þess, að margar fjölskyldur verði sér úti um umtalsverða lífskjarabót með útsjónarsemi í innkaupum.
Þetta nýja verðskyn þarf að virkja í frjálsum samtökum. Viðskiptaráðherrann segir réttilega í kveðju sinni, “að umtalsverður árangur verði aldrei, fyrr en upp hefur risið í landinu víðtæk og marktæk neytendahreyfing, hreyfing sem er svo sterk, að stjórnvöld verði að taka tillit til óska hennar og ábendinga.”
Neytendasamtökin hafa eflzt á undanförnum misserum. Stofnun ákaflega öflugrar deildar í Borgarnesi varð hvati stofnunar deildar á Akranesi. Í undirbúningi eru deildir á Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum og Norðfirði. Vonandi fylgja aðrir kaupstaðir og kauptún landsins í kjölfarið.
Svavar Gestsson segir líka: “Svona hreyfing þarf að komast af stað miklu víðar og ef það gerist, þá líður ekki langur tími þangað til neytendasamtök í landinu verða virkt afl í verzlunar- og viðskiptamálum öllum.”
Verðlags- og gæðaeftirlit er bezt komið í höndum neytenda og samtaka þeirra. Á þann hátt einan geta neytendur komið fram sem sterkur aðili að markaðinum á sama hátt og seljendur vöru og þjónustu. Tilraunir ríkisins til verðlagseftirlits ættu að beinast að stuðningi við rannsóknir og fræðslu Neytendasamtakanna.
Nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa séð þetta. Þar er víðast hvar lítið sem ekkert opinbert verðlagseftirlit, en neytendasamtök njóta aftur á móti mikils stuðnings hins opinbera. Þar eru opinberir styrkir 80% af tekjum samtakanna en hér aðeins 25%.
Neytendasamtökin skortir mikið fé til eigin rannsókna og til staðfæringar erlendra rannsókna, svo og til fræðslu og skipulagsmála. Útgáfumálin koma svo af sjálfu sér, því að samtökin hafa greiðan aðgang að Dagblaðinu og ýmsum öðrum fjölmiðlum. Nú síðast hafa samtökin samið við Vikuna um neytendafræðslu.
Ríkið þarf bara að margfalda fjárframlögin til neytendamála.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
