Ríkið leiðréttir sig.

Greinar

Í opnu og frjálsu þjóðfélagi á að ríkja góður samgangur milli almennings og yfirvalda. Valdamenn verða að hlusta á vandamál almennings og skilja þau, en ekki loka sig inni í fílabeinsturni með örfáa ráðgjafa í kringum sig, sem smjaðra upp á við og sýna hroka niður á við.

Frjáls dagblöð geta verið hentugur milliliður á þessari leið milli almennings og stjórnvalda. Í slíkum blöðum á almenningur að geta fengið inni með vandamál sin, stór og smá, og óskir sinar, hvort sem þær eru sanngjarnar eða ekki.

Nýlega upplýsti Dagblaðið, að mistök hefðu sennilega verið gerð í útreikningi verðbóta á skyldusparnað. Hafði mikill fjöldi fólks á aldrinum 10-25 ára orðið fyrir miklu tjóni vegna útreiknings, sem hvorki var í samræmi við tilgang löggjafans né í samræmi við hefðbundnar aðferðir við útreikning vísitölubóta.

Skýrði Dagblaðið frá greinargerð, sem dr. Pétur B. Blöndal tryggingafræðingur hafði samið út af máli þessu. Benti Pétur þar á, að löggjafinn hefði ætlazt til, að höfuðstóll skyldusparnaðar og vextir af honum væru verðtryggðir með kaupvísitölu. Taldi Pétur, að ungmenni, sem hefði lagt 10.000 krónur í skyldusparnað 7. marz l969, ætti að fá út rúmar 55.000 krónur 5. september í ár, en ekki rúmar 27.000 krónur, eins og Veðdeildin hafði reiknað.

Veðdeildin reiknaði vísitöluuppbótina aðeins einu sinni á ári. Hún lagði uppbótina inn á sérstakan reikning án vaxta og vísitölu og miðaði þar að auki við lægstu upphæð á hverju tólf mánaða tímabili.

Frá þessu var skýrt í Dagblaðinu 17. september í ár. Félagsmálaráðuneytið var fljótt að taka við sér. Hinn 28. september skýrði Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri frá því í viðtali við Dagblaðið, að sérfróðir menn í ráðuneytinu og Selabankanum væru að kanna, hvort Veðdeildin hefði farið rangt að í þessum efnum.

Meðal þeirra, sem Gunnar Thoroddsen félagsmálaráðherra leitaði álits hjá í þessu máli, var Gaukur Jörundsson prófessor og taldi hann aðferðir Veðdeildar ekki réttar. Hinn 24. september skýrði Dagblaðið svo frá því, að Gunnar Thoroddsen hefði ákveðið, að bæta þyrfti hag eigenda sparimerkja.

Þá hafði verið ákveðið, að verðtrygging skyldusparnaðar yrði að minnsta kosti svo mikil, að reiknuð yrði verðbót fjórum sinnum á ári í stað eins. Aðeins er eftir að ganga endanlega frá málinu. Mega ungmenni þau, sem skylduð hafa verið til að spara fyrir Veðdeildina, því reikna með, að sparnaðurinn haldi verðgildi sinu.

Af þessu má sjá, að yfirvöld hafa brugðizt vel og drengilega við þessu vandamáli. Það er ekki svo lítið afrek að viðurkenna, að mistök geti hafa átt sér stað í hinu opinbera kerfi, og að leysa vandamálið án þess að dómstólar þurfi að neyða ríkið til þess. Af þessu má einnig sjá, að stjórnvöld geta verið snör í snúningum, þegar vakin er athygli þeirra á misskilningi í kerfinu. Í þessu máli hlustuðu valdamenn á vandamál almennings og skildu þau.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið