Ein ljósasta lýsingin á göllum og nauðsynlegum endurbótum skattakerfisins kom nýlega fram í blaðaviótali við Ólaf Nilsson, fyrrum skattrannsóknastjóra.
Þar kom fram, aö verðbólgan hefur gert skattakerfið ranglátt með því að valda gróða af óverðtryggðu lánsfé, sem notað er til eignahreyfinga.
Þar kom fram, að stjórnmálamenn hafa gert skattakerfið ranglátt með því að samþykkja lög um margvíslegar undanþágur frá skattlagningu.
Þar kom fram, að samsuða atvinnurekstrar og einkaneyzlu atvinnurekenda hefur gert skattakerfið ranglátt, því að taprekstur fyrirtækja hefur verið notaður tll að losna við skatta af einkaneyzlu.
Eina mikilvæga atriðið, sem vantar í upptalningu Ólafs, er, að skattskýrslan ein út af fyrir sig er ekki nógu gott tæki til að mæla tekjur manna í þjóðfélagi, þar sem ýmis kaup og sala, einkum á vinnu og þjónustu, eru stunduð á óskjalfestan hátt.
Ólafur Nilsson setur í viðtalinu fram ýmsar tillögur til endurbóta, sem yfirleitt er unnt að taka undir og þingmenn ættu að kynna sér, ef þeir hyggjast nú framkvæma gömul loforð um réttlátara skattakerfi.
Ólafur vill sameina tekjuskatt og útsvar sem brúttóskatt. Hann vill fella niður ýmsa frádráttarliði, svo sem vegna fasteigna og vaxta og vegna útivinnu giftra kvenna. Í stað hins síðastnefnda vill hann láta koma barnafrádrátt tll að vega upp á móti kostnaði við barnagæzlu. Öll þessi atriði mundu auka skattajöfnuð manna.
Ólafur vill aðgreina atvinnurekendur og fyrirtæki þeirra við tekjuskattsútreikning. Sú tillaga er í rauninni enn sjálfsagðari en tillagan um afnám frádráttar.
Ólafur vill nota fyrningarákvæði til óbeinnar skattlagningar á söluhagnaði. En einnig mætti geta þess, að mögulegt er að verðtryggja fjárskuldbindingar og skattleggja þá þann söluhagnað, sem er umfram verðbólgu.
Ýmis fleiri atriði koma fram í máli Ólafs. Hann er andvígur sérsköttun hjóna. Hann er einnig andvígur því, að tekjuskatti verði breytt í söluskatt. Og hann telur núverandi eignaskatt mjög ranglátan, vegna þess að mat ýmissa tegunda eigna sé mjög mismunandi og að sparifé sé vantalið. Í sambandi við það síðasttalda vill hann, að allt sparifé í bönkum sé skráð á nafn.
Víð tillögur Ólafs er unnt að bæta einni veigamikillí tillögu, sem vantar í safn hans. Hún byggist á þeirri skoðun, að skattakerfið verði aldrei svo eínfalt og skattskýrslan aldrei svo algildur mælikvarði, að sæmilegu réttlæti verði náð. Hún byggist á þeirri skoðun, að ákveðnir menn muni alltaf finna leiðir til að borga of litla skatta í samanburði við nágrannann.
Tillagan er sú, að skattstofur fái heimild og aðstöðu til að meta lífsgæðaaðstöðu manna, eins og hún kemur fram í íbúðum þeirra, húsbúnaði, bílaeign, skemmtunum og ferðalögum og noti þetta mat til að fylla þá mynd, sem skattskýrslan gefur. Á bak við ákveðinn lífsstíl hljóta að liggja ákveðnar tekjur, þótt þær komi ekki fram á skattskýrslu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið