Remúlaði og rabarbari

Veitingar

Fersk rauðspretta dagsins (2300 krónur) var ljúflega elduð á Víkinni, borin fram með þráðarkartöflum og mjúkri og mildri eggjasósu af remúlaði-ætt og rabarbarasultu, herramannsmatur. Tveir fiskréttir dagsins fást í hádeginu og ýmsar tertur allan daginn. Kaffistofan er á jarðhæð sjóminjasafnsins Víkinnar við Grandagarð, með rosastórum gluggum út að gömlu höfninni í Reykjavík og með mörgum borðum á bryggjunni fyrir utan. Þar hvíla varðskipið Óðinn og dráttarbáturinn Magni í hárri elli. Veitingasalurinn er langur, hár og kuldalegur, alltof stór, yrði notalega þéttari með lausu skilrúmi um salinn miðjan. Ekki sakaði að fá sessur í stóla og faglegar innréttingar, þetta minnir á gamaldags mötuneyti. En eldhúsið er í fínu lagi.