Reindalsheiði

Frá botni Fáskrúðsfjarðar um Reindalsheiði til Gilsár í Norðurdal í Breiðdal.

Fjölfarið var um heiðina fyrr á öldum og enn eru glögg merki um götuslóðann. Milli Áfangahjalla og Bröttubrekku er heiðin vörðuð 42 vörðum. Um tíðina hafa ýmsar vegabætur fyrir hross verið gerðar á leiðinni.

Byrjum við þjóðveg 96 í botni Fáskrúðsfjarðar. Förum heimreið vestur að Tungu og áfram vestur Tungudal sunnan við Tunguröð og norðan við Hjálmakamb. Förum í sneiðingum suður Bröttubrekku norðan við Svartagil og síðan um Dokk og Steinahjalla upp á Reindalsheiði í 880 metra hæð. Förum milli tveggja varða í háskarðinu. Þar eru fjöllin Njáll og Bera að austanverðu og Heiðarhnjúkur að vestanverðu. Síðan förum við suður og niður á Áfangahjalla. Þaðan suður Áfangahjallabrekku og Drangsbrekku, um Heiðarbrýr og Heiðarmýrar. Framhjá Einstakamel og suður Fossárdal og að lokum suður Gilsárdal niður að Gilsá.

16,0 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stöðvarskarð, Stafdalur, Stuðlaskarð, Fagradalsskarð, Launárskarð, Jórvíkurskarð, Dísastaðahjalli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort