Reginslagur í Framsókn

Punktar

Spennan verður þrúgandi þessa viku fram að flokksþingi Framsóknar um helgina. Sigurður Ingi hefur boðið sig fram til formanns gegn Sigmundi Davíð, í óþökk mikils meirihluta þingmanna flokksins. Hann fór í gær af þingflokksfundi eftir klukkustund. Lýsti þannig frati á undirmálslið þingmanna flokksins. Þeir duttu óvart inn fyrir þremur árum í kjölsog Sigmundar Davíðs. Eftir rugl Sigmundar er flokkurinn fylgislaus á lokavikunum fyrir kosningarnar. Styrkur Sigurðar er í flokksfélögunum utan Norðausturlands. Hann virkar eins og formaður í samanburði við heimsfrægan spraðurbassa. Nái hann kjöri, verður Framsókn normal að nýju.