Rauðhólar

Frá Hrauntanga á Öxarfjarðarheiði að Efri-Hólum í Núpasveit.

Eyðibýlið Hrauntangi er á miðri Öxarfjarðarheiði og er þaðan jafnlangt til allra átta, til Garðs í Þistilfirði, Efri-Hóla í Núpasveit og Sandfellshaga í Öxarfirði. Býlið er rétt austur af Kvíum, sérkennilegri hrauntröð með hraundröngum, sem verða strax á vegi okkar. Jón Trausti rithöfundur átti um skeið í æsku heima í Hrauntanga. Rauðhólar eru gígar, sem hafa gubbað upp 200 ferkílómetrum af hrauni. Þeir eru norðurendi lengstu gossprungu á Íslandi. Við fylgjum Rauðhólahrauni næstum alla leiðina. Á þessari leið eiga engir jeppar að geta verið á ferð.

Förum frá hestarétt hjá fjallaskálanum á eyðibýlinu Heiðarmúla norðvestur um mýrar að eyðibýlinu Hrauntanga og þaðan til norðurs Rauðhólahraun að vesturenda Arnarstaðavatns. Þar sveigjum við til vesturs og förum norðan við Rauðhóla og norðvestur eftir Rauðhólahrauni að Kálfafjöllum. Fylgjum fjöllunum áfram norðvestur um Kálfaborgir og síðan um Hildarselshraun að Efri-Hólum í Núpasveit.

18,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Öxarfjarðarheiði: N66 10.209 W16 03.852.

Nálægir ferlar: Þverárhyrna, Öxarfjarðarheiði, Djúpárbotnar.
Nálægar leiðir: Biskupsás, Urðir, Hólaheiði, Hólsstígur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson