Ráðherrasiðleysi

Greinar

Siðleysi landsfeðranna hefur sætt harðri gagnrýni í Dagblaðinu að undanförnu. Nú hefur enn lengzt syndaregistur eins þeirra, Halldórs E. Sigurðssonar vegamálaráðherra.

Þrír sóttu um starf rekstrarstjóra vegagerðarinnar á Austurlandi. Tveir þeirra voru verkstjórar vegagerðarinnar, en einn rafvirki og framsóknarmaður, sem ekki hafði nálægt vegagerð komið.

Umdæmisverkstjórinn á Austurlandi mælti með öðrum verkstjóranum í starfið. Í samræmi við það óskaði vegamálastjóri eftir staðfestingu á skipun hans. Ráðherra skipaði hins vegar rafvirkjann og flokksbróður sinn.

Mikil reiði er á Austfjörðum vegna þessa siðleysis. Sú reiði nær jafnt til framsóknarmanna sem annarra. Það stendur þeim líka næst að hafa landsföðurinn ofan af siðleysinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið