Pólitísk rúst Reykjavíkurlistans

Greinar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi framboða í Reykjavík er tímabær. Hún sýnir í hnotskurn erfiðleika arftaka R-listans, þar sem Samfylkingin ein mælist með frambærilegt fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar á góðri siglingu með 54% fylgi meðal borgarbúa og níu fulltrúa af fimmtán.

Framsóknarflokkurinn mælist ekki með teljandi fylgi og engan borgarfulltrúa. Það er auðvitað sanngjarnt miðað við feril flokksins í málum, sem varða borgina. Frá upphafi hefur flokkurinn talið sig gæta hagsmuna dreifbýlis gegn lýðnum á mölinni, einkum gegn ofurvaldi Reykjavíkur í þjóðfélaginu.

Varla er hægt að telja 5% fylgi Framsóknar mælikvarða á störf hans innan R-listans. Í andarslitrum listans var Framsókn eini flokkurinn sem reyndi að bera klæði á vopnin. Útkoman sýnir, að kjósendur hafa ekki verðlaunað flokkinn fyrir jákvæða afstöðu til framhaldslífs Reykjavíkurlistans.

Frjálslyndir mælast með enn minna fylgi, 2%. Þar með ætti að vera fallin eina markverða tilraun flokksins til að hasla sér völl í sveitarstjórnum landsins. Ólafur F. Magnússon aflar ekki flokknum neins fylgis umfram harðasta grunnfylgi hans í skoðanakönnunum á landsvísu. Nema síður sé.

Útkoma vinstri grænna er fremur dauf, þótt könnunin gefi þeim 9% fylgi og einn fulltrúa. Það er ekki gott vegarnesti flokks, sem hefur ítrekað mælst með tveggja stafa tölu í skoðanakönnunum á landsvísu. Kannski eru sumir að refsa vinstri grænum fyrir að sprengja Reykjavíkurlistann.

Það er nýtt mynztur, að Reykjavíkurlistinn sé úr sögunni og allir flokkar bjóði fram út af fyrir sig. Sú kosningabarátta hefst með þessari skoðanakönnun, sem sýnir glæsilegt forskot Sjálfstæðisflokksins og eindreginn meirihluta í borginni. Það þýðir, að baráttan mun snúast um Sjálfstæðisflokkinn.

Gallinn við könnunina er, að rúmur þriðjungur kjósenda tekur ekki afstöðu. Í þeim hópi eru vafalaust þeir fjölmennir, sem voru búnir að gefast upp á R-listanum og eru ekki reiðubúnir að fyrirgefa aðstandendum hans umbúðalaust. Arfaflokkar listans eiga því nokkra möguleika á að sækja þangað fylgi.

Niðurstaðan er, að sviðsljósið hefur færzt af erfingjum hins þreytta Reykjavíkurlista yfir á Sjálfstæðisflokksins, sem hefur lengi verið fjarri ábyrgð á mistökum borgarstjórnar.

DV