Þykjast ekki skilja ensku

Punktar

Pólitískir bófar virðast almennt halda fram, að þeir skilji ekki spurningar á ensku. Þannig skildi Sigmundur Davíð ekki spurningu SVT og Ólafur Ragnar skildi ekki spurningu CNN. Hafa þó dvalið langdvölum í enskumælandi löndum. Sigmundur Davíð sagði af sér af þessu tilefni, en Ólafur Ragnar situr límdur við stólinn. „Do you have any offshore accounts? Does your wife have any offshore accounts? Is there anything that’s going to be discovered about you and your family?“ Tengdaforeldrar eru „family in law“ á ensku. Svar Ólafs var afdráttarlaust: “No, No, No, No, No, that is not going to be the case.” Auðvitað var hann að ljúga. Klaufalega eins og Sigmundur.

Nú verður leðjuslagur

Punktar

Alþjóðlega viðurkenndur persónugervingur hrunsins hyggst fara í leðjuslag við klappstýru hrunsins. Þar verður fjallað um „skítlegt eðli“ og annað að hætti örvasa jálka hefðbundinna stjórnmála. Þeir tveir kunna að bíta frá sér. Það verður eitthvað. Á sama tíma geta Guðni Th. og Andri Snær stundað uppbyggilega kosningabaráttu nær okkar öld. Báðir forsetalegir, meðan hinir eru leðjupiltar. Eins og er virðist Davíð munu hafa Ólaf Ragnar undir í baráttu um eitt af tapsætum kosninganna. Væri frábær bræðrabylta. En því miður er ekki góð reynsla af íslenzkum kjósendum. Elska sína „sterku menn“ og eru til alls vísir.

Davíð sturlar pólitíkina

Punktar

Það kórónar sturlun íslenzkra þjóðmála að persónugervingur hrunsins bjóði sig fram til forseta Íslands. Maðurinn, sem framkallaði eftirlitsleysi með bönkum, þegar hann var forsætisráðherra. Maðurinn, sem skóf allan gjaldeyri innan úr Seðlabankanum daginn fyrir hrunið. Maðurinn, sem Time Magazine skilgreindi sem einn 25 helztu gerenda alþjóðakreppunnar 2008. Davíð Oddsson vill nú þar á ofan  verða forseti Íslands. Í samkeppni við annan gaur af svipuðum toga siðblindu og samvizkuleysis. Þar hittir andskotinn ömmu sína, ég man ekki, hvor þeirra notaði orðið „skítlegt eðli“ um hugarfar hins. Nú býð ég ekki í kjósendur vora.

Lýsing TIME

Allt eins og áður var

Punktar

Átta árum frá hruni, hefur ekki enn verið stoppað í lagagöt. Að einhverju leyti taka lög á þeim þjófnaði, sem kallast umboðssvik. Felur í sér, að stjórar taka að sér að skafa innan fyrirtæki sín, til dæmis banka, til dæmis fyrir eigendur eða ráðherra. Stærsti umboðssvikarinn er auðvitað Davíð, sem skóf Seðlabankann að innan; hefur ekki enn verið kærður. Kennitöluflakk tíðkast óbreytt, skuldir skildar eftir á gamalli kennitölu og lánsfé flutt yfir á nýja kennitölu. Enn er talað um ýmis skattsvik sem skattasniðgöngu eins og reglur séu hindranir, sem sveigja beri fyrir. Dorrit bófi gerði reglur um búsetu að víðfrægum skrípaleik.

Ekki félagslegt úrræði

Punktar

Margir píratar hafa áhyggjur af opnu pírataspjalli sínu, þar sem óviðkomandi tröll og einæðingar fríka út. Telja það slæma kynningu á málstað pírata. Aðrir segja ópíratalegt að ritskoða efni. Mér finnst vera skylda sérhvers eiganda fésbókarveggs að ritstýra honum. Rugludallar geta hamast á eigin veggjum. Öðrum er ekki skylt að ljá þeim vinsælan hátalara. Mér reyndist vel að strika þar út þrjú tröll og tvo einæðinga. Þannig varð pírataspjallið mér nothæft. Eigendum þess ber að ritstýra því á einfaldan og auðskýranlegan hátt. Það er ekkert píratalegt við að hossa fíflum. Pírataspjallið er ekki félagslegt úrræði.

Hægri frjálshyggja

Punktar

Ríki, eftirlit og skattar eru vörn hinna veiku gegn hinum sterku, sem ryðjast fram í græðgi. Velferð er ætlað að jafna leikinn, gefa fátækum kost á heilsu og menntun til jafns við aðra. Fái hinir sterku færi á að velja velferð eftir sínu höfði, tekur frekjan völdin. Brauðmolar sáldrast ekki af borðum hinna sterku. Þeir búa til velferð fyrir sig, fyrirtæki sín, skattaskjól sín, aflandseyjar sínar. Klófesta til dæmis veðsetjanlega eign á auðlindum heillar þjóðar. Græða líka á gengisrokki krónu. Frjálshyggja óbeitar á ríki, eftirliti og sköttum er ekki bara ósönnuð tilgáta, heldur beinlínis sjúkdómur, sem heitir siðblinda.

Bófavinur á Bessastöðum

Punktar

Nærri hálf þjóðin gerir sér ekki rellu út af, að Ólafur Ragnar Grímsson forseti sé frambjóðandi bófanna. Var foringi útrásarinnar, þegar ævintýramenn reyndu að telja útlendingum trú um, að þeir væru galdramenn. Elskar að umgangast greifa, er vaða í spillingu, svo sem prinsa á Arabíuskaga og forseta í Mið-Asíu. Reynir að bregða fæti fyrir stjórnarskrá, sem mundi gera kjósendum kleift að ná tökum á brengluðu ástandi landsins. Hindraði Sigmund Davíð í að fella ríkisstjórnina. Nái hann endurkjöri, mun hann gæta hagsmuna íslenzkra auðgreifa og bregða fæti fyrir nýja stjórnarskrá. Með bófavini á Bessastöðum verður engin hundahreinsun.

Víða verða Ögmundar

Punktar

Taki umbótaöfl saman höndum eftir kosningar, verður meirihlutinn veikur. Við fáum þriggja flokka stjórn, sumpart með volgum stuðningi við nýja stjórnarskrá. Píratar eru þeir einu, sem hafa lýst eindregnum stuðningi við hana. Annað hvort í því formi, sem hún kom frá Stjórnlagaráði. Eða í því formi, sem hún var hjá Stjórnskipunarnefnd alþingis undir lok síðasta kjörtímabils 2013. Meðal pírata á þingi verða Ögmundar, sem ímynda sér, að hægt sé að reka samræðustjórnmál við bófa. Meðal vinstri þingmanna verða líka einhverjir Ögmundar með sérskoðanir. Ögmundar allra stjórnarflokka munu tefja stjórnarskrána og raska ferli hennar.

Allsherjar andverðleikar

Punktar

Hálf þjóðin lét sér fátt um finnast, þegar birt var viðamikil skýrsla um hrun þjóðarfjármála. Elskaði séríslenzka spillingu, sem olli fjármálahruni Íslands. Þegar aðhaldsaðgerðir vinstri stjórnar reyndust beizkar, vildi hálf þjóðin óð og uppvæg fá bófana sína til baka. Hálf þjóðin yppir nú öxlum, þegar dæminu er lokað með uppljóstrunum um tvenns konar veruleika á Íslandi. Veruleika krónu og fátækar annars vegar og gjaldeyris og ofurauðs hins vegar. Þessi fúli helmingur þjóðarinnar felur í sér andverðleikafólkið, er ítrekað tryggir okkur valdasjúkt andverðleikafólk til forustu. Látum vanhæfu kjósendurna heyra, að við vitum.

Guðni er gamla Ísland

Punktar

Sagði í gær, að Andri Snær mætti hugleiða að víkja fyrir Guðna. Þá væru meiri líkur á nauðsynlegu falli Ólafs Ragnars. Snýst þó bara öðrum þræði um að fella þaulsetinn forseta. Snýst frekar um að kjósa nýjan. Hafði fyrirvara á, að ég vissi of lítið um stöðu Guðna. Eftir framboðsræðuna efast ég meira um hann en áður. Olli mér vonbrigðum. Er ekki nýja Ísland eins og Andri Snær. Bara snyrt útgáfa af ónýta Íslandi. Talar eins og hann virði lítils stjórnarskrárferil síðustu sjö ára. Eins og nú þurfi enn að byrja á núlli. Það er útilokað. Ferlið er að baki og nú duga ekki fleiri undanbrögð. Við þurfum stjórnarskrána STRAX.

Samansaumaðir auðgreifar

Punktar

Dorrit Moussaieff fékk forgang með smáskeinu sína fram yfir fótbrotið barn á bráðadeild Landspítalans. Vill hins vegar ekki borga sjálf eina krónu í þetta heilbrigðiskerfi. Vill raunar hvergi borga neina krónu. Ein af auðfólkinu, sem kemst í Bretlandi upp með að vera „utan lögheimilis“. Ein af siðblindingjum heimsins og brosir ljúft eins og þeir. Er gift forseta, sem þykist ekki vita, hvar í heiminum hún á heima. Sem þykist ekki vita, hvernig hún umgengst lög og reglur. Þar hæfir skel kjafti. Hálf þjóðin elskar að hafa svona höfðingja yfir sér. Harmar samt ljúfsárt í draumum sínum, að komast ekki sjálf í spillinguna.

Okkar ástkæra spilling

Punktar

Íslendingar vilja láta vanhæft fólk stjórna sér. 40% kjósenda vilja hafa bófa á þingi og í ríkisstjórn. 45% vilja hafa bófa á Bessastöðum. Þjóðin elskar sterka menn, sem segja bara no-no-no-no-no í stað þess að segja satt. Því meira sem bófarnir misnota aðstöðu sína, þeim mun traustari er fylgiskjarninn, 28% hjá Sjálfstæðis og 11% hjá Framsókn. Baldur McQueen kallar þetta eftirspurn eftir spillingu. Ég vil bæta við, að þetta er ást á spillingu, þrá í að komast í hana sjálf. Íslendingar eru óhæfir kjósendur, þótt sumir kunni sitthvað fyrir sér í listum og menntum. Þegar útlandið hlær að Ólafi, er það að hlæja að bjálfaþjóð.

Þráaðist lengi við

Punktar

Panamaskjölin sýna fjölbreytt eignarhald fjölskyldu Bjarna Benediktssonar á fyrirtækjum í skattaskjólum víða um heim. STUNDIN birtir í dag yfirlit. Félög þessi voru á Brezku jómfrúareyjunum, Seychelles-eyju, Kýpur og í Lúxemborg. Við sjáum í nýju ljósi treg viðbrögð fjármálaráðherrans við fyrstu fréttum af svona gögnum. Fyrst sagði hann fráleitt að kaupa gögn af „einhverjum huldumönnum“. Síðan þráaðist hann við að svara bréfum Skattrannsóknastjóra og setti loksins skilyrði, sem ekki var hægt að nýta. Eftir þrýsting Skattrannsóknastjóra og almenningsálitsins féllst hann eftir dúk og disk á, að embættið keypti gögnin.

Hatar fólkið í landinu

Punktar

Þátttaka sjúklinga í heilsukostnaði er komin út í þvílíkar öfgar, að 40% fólks frestar að leita til læknis. Hlutfallið hefur snarhækkað úr 30% árið 1998 í 41% árið 2015. Enn vill ríkisstjórnin auka þennan kostnað með nýju lagafrumvarpi. Í stað þess að fylgja norrænum þjóðum stefnum við í hina áttina. Stefnum í eymd og volæði stéttskiptu Bandaríkjanna. Á Norðurlöndum er reynt að minnka þessa greiðsluþátttöku og afnema hana, en hér þarf að veita auðgreifum ný fríðindi á kostnað almennings. Hugsið ykkur, hversu mörg börn og gamalmenni eru innifalin í þessari rosalegu prósentu, 40%. Ríkisstjórn bófanna hatar fólkið í landinu.

Kyssa sárasta vöndinn

Punktar

Efast má um vitsmuni Íslendinga. Andverðleikar ríða húsum, í pólitík, embættum og bönkum. Sigmundur Davíð skandalíseraði í viðtali við Sven Bergman á SVT og varð að segja af sér. Ólafur Ragnar skandalíseraði í viðtali við Christiane Amanpour í CNN. Nú verður hann að hætta við að hætta við að hætta við embættið. Hvor um sig gat farið varlegar í fullyrðingar sínar. Ólafur Ragnar gat sagt „Mér vitanlega hefur …“, en gerði ekki. Dólgar eru vanir að geta striksað um berrassaðir og fullyrt hvað sem er. Kjósendur eru sauðir, kyssa enn þann vönd, sem sárast beit. Leita skjóls þá þeim, sem einbeittast ræna öllum þjóðarauði.