Kerfið forheimskar fólkið

Punktar

Mary Luz Suarez Ortiz sjónvarpskokkur fær ekki ríkisborgararétt af dulinni ástæðu. Mál hennar hefur verið í fréttum í tvo sólarhringa án þess að okkur sé sagt frá ástæðunni. Kerfinu er nánast fyrirmunað að gefa upplýsingar. Annað dæmi er símtal Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde 6. október 2008, þegar hundrað milljarðar hurfu út í buskann. Búið er að fjalla um þetta í mörg ár, en kerfinu er fyrirmunað að gefa upplýsingar. Því er ekki skrítið, þótt þjóðin sé úti að aka í pólitík. Hún fær ekki að vita neitt um það, sem máli skiptir. Kerfið telur það vera hina mestu ósvinnu að uppfræða fólkið.

Ilmurinn af útlöndum

Punktar

Staða Íslendinga gagnvart umheiminum og Bruxelles sérstaklega er tvíeggjuð. Minnir mig á stöðu mína fyrir rúmum fimm áratugum gagnvart umheiminum og Þýzkalandi sérstaklega. Eftir stúdentspróf valdi ég milli þess að fara vel troðinn stíg í háskólanum eða finna ilminn af hinum stóru útlöndum. Ég valdi síðari kostinn og hef síðan ekki verið samur. Fattaði, að Ísland er ekki nafli alheimsins. Og að flestu er betur fyrir komið í útlöndum. Síðan hef ég verið Evrópusinni. Vil nota Evrópu til að losna úr þrælakistu innlendra yfirstéttarbófa. Sú þrælakista er skálkaskjól bófanna og heitir þjóðremba.

Stríðið gegn neytendum

Punktar

Á sama tíma og landbúnaðurinn gælir við hugmyndir um aukinn útflutning á kjöti hamast hann gegn innflutningi. Þar á bæ ímynda menn sér, að séríslenzk einstefna á þessu sviði gangi upp. Eftirlitsstofnun EFTA er þó farin að hafa afskipti og heimtar rök fyrir hinni íslenzku óskhyggju. Raunar er óskhyggjan ekki íslenzk, því hún andstæð hagsmunum neytenda, sem vilja og þurfa aukna fjölbreytni. En pólitíkusarnir hugsa aldrei um hagsmuni neytenda, bara um sérhagsmuni. Steingrímur J. Sigfússon segir, að við “tökum þetta stríð alveg til enda”. Hyggst berjast gegn neytendum alveg til enda. Það er dæmigert.

Inngróin leyndarhyggja

Punktar

Leyndarhyggja er versti vandi þjóðarinnar. Vanþekking hennar á gangverki þjóðfélagsins gerir henni ókleift að gegna skyldum frjálsborinna borgara. Hundrað milljarða símtal Davíðs og Geirs í hruninu er enn leyndó. Heilar stofnanir passa, að fólk fái ekkert markvert að frétta. Fremstar fara þar Persónuvernd bófa, sem bannar birtingu kennitalna. Og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem hafnar birtingu hvers kyns ríkisskjala. Allir bankar fela illvirki sín að baki bankaleyndar, jafnvel Seðlabankinn. Kontóristar ríkis og ríkisverndaðra stofnana telja öll opinber gögn vera sitt eigið prívatmál.

Hundrað milljarða símtal

Punktar

Stærsta einstaka tjón okkar í hruninu varð 6. október 2008. Þá töluðu Davíð Oddsson og Geir H. Haarde saman í síma. Umræðuefnið var veðlaust lán Davíðs seðlabankastjóra til Kaupþings upp á 500 milljónir evra eða 100 milljarða króna. Símtalið var tekið upp í Seðlabankanum. Alþingi hefur ítrekað reynt að komast yfir símtalið, en ekki fengið enn. Hlýtur það þó að segja mikla sögu um, hvor bófinn ber meiri ábyrgð á þessu stjarnfræðilega tjóni okkar. Lánið var veitt án veða og án pappíra eða skjala. Engar forsendur voru til fyrir slíkri óreiðu. Seðlabankinn varð gjaldþrota á kostnað skattgreiðenda.

Þorrinn verður langur

Punktar

Fyrir löngu hafði krónan gengi. Gátum farið með hana í banka og skipt fyrir evru. Blöðruhagkerfi Davíðs sprengdi himnaríkið í loft upp. Nú er krónan verðlaus, hefur ekkert gengi. Réttar sagt alls kyns gengi eins og á tíma bátagjaldeyris. Seðlabankinn skammtar evrur á ýmsu verði, á aldrei nægar, of margir bítast um þær. Slík verður staðan í mörg ár. Þurfum að taka upp evru, en höfum ekki burði, uppfyllum ekki skilyrðin. Verðum enn að þreyja þorrann, fara varlega í að lina höft. Á meðan fáum við lítið af lánum, hver lánar fávitum? Verðum að treysta á ferðaþjónustu, sem kostar litla fjárfestingu.

Hagvöxtur er blásin blaðra

Punktar

Hagstofan segir okkur, að fjárfesting í fyrra hafi verið svipuð og hún var árið 1997. Mörgum finnst 1,6% of lítið, hefðu viljað 3,4%. Miðuðu þá við Helguvík, Landspítala og Vaðlaheiði, sem hefur seinkað. Allt ríkisdrifnar framkvæmdir, sem sýna íslenzka kapítalismann í hnotskurn, ríkisdrifinn pilsfaldakapítalisma. Kostunarmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa alltaf lifað á pólitíkinni, en ekki á eigin verðleikum. Gjafakvóti útgerðar og uppgrip verktaka eru þar stærstu liðirnir. Þótt ríkisdrifnar framkvæmdir reiknist í hagtölum, er það marklaus hagvöxtur, blásið lofti í blöðrur.

Dramatísk pennastrik

Punktar

Framsóknarflokkurinn ber mesta pólitíska ábyrgð á því, sem hagsmunaaðilar kalla forsendubrest í skuldum heimila. Barðist fyrir 90% íbúðalánum, þótt vita mætti, að slíkt væri æðislega áhættusamt. Framsókn hefur ætíð verið fyrir dramatísk trix. Eins og þegar hún ætlaði að afnema fíkniefni með einu pennastriki. Minnir á Ögmund Jónasson, Stóra bróður í klámmála-ráðuneytinu. Dramatísk árátta Framsóknar magnaðist í innreið Kögunarbarnsins í formennsku flokksins. Nýja pennastrikið felst í afskrift skulda heimilanna. Á kostnað hverra? Auðvitað er trixið á kostnað skattgreiðenda, eins og önnur dramatík.

Dýrasti potarinn

Punktar

Hratt breytist fyrrum landsfaðir í ýkta mynd Kristjáns Möllers. Steingrímur J. Sigfússon er orðinn kjördæmapotari af dýrustu sort. Draumur Húsvíkinga um stóriðju í túngarðinum á að rætast. Til þess að svo megi verða þarft þú að borga hálfan fjórða milljarð. Það er rétt, skattgreiðendur eiga að punga út þessari upphæð. Stóriðjan verður nefnilega á kostnað almennings eins og þær hinar fyrri. Þetta verða styrkir í höfn og vegi, lagfæringu lóðar og einkum þó í svokallaða “innviði”. Þá verða þarna niðurgreiðslur á þjálfun og fleira fyrir bláfátæka stóriðju, sem skattgreiðendur borga auðvitað með glöðu geði.

Árni Páll laug bara

Punktar

Árni Páll Árnason laug einfaldlega, að ekki væri stuðningur á Alþingi við stjórnarskrárfrumvarp þjóðarinnar. Alls hafa 32 þingmenn lýst skriflega stuðningi sínum. Á þeim lista eru ekki Árni Páll sjálfur og heldur ekki Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, meðreiðarsveinn Árna í lyginni. Í leiðindamálið flæktust líka formennirnir Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson. Þau létu Árna Pál ljúga sig full. Með því að kasta þjóðarfrumvarpi, sem kom út úr lögmætu ferli, er alþingi í þann mund að fremja glæp gegn lýðræðinu. Tillaga Árna Páls um, að allt ferlið sé bara skrípó, er rakin ósvinna.

Hvar er allt fólkið?

Punktar

Hvar er þúsundið, sem tók þátt í þjóðfundinum 2009 um stjórnarskrá? Hvar eru þau hundraðogfimmtánþúsund, sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október? Hvar er sá eindregni meirihluti, sem vildi byggja nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs? Hvað hugsar allt þetta venjulega fólk um misþyrmingu Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og núna síðast Samfylkingarinnar á niðurstöðum þessa ferils? Fróðlegt væri að vita, hvort fólk lyppast almennt niður. Eins og pupullinn hefur jafnan gert hér á landi andspænis handaflinu. Eða hvort fólk rís upp til varna í kosningunum í vor.

Ofsóttir auðmenn

Punktar

Undarleg fyrirsögn í Fréttablaðinu um 260 manns, sem “borga mest allt sitt í auðlegðarskatt”. Næsti bær væri: “Vonda stjórnin ofsækir gamlingja út yfir gröf og dauða”. Sköttum var breytt árið 2009 á þann hátt, að fátækir borgi minna og auðugir borgi meira. Samt eru skattar á auðuga lægri hér en víðast á Vesturlöndum. Fjármagnstekjuskattur er lægri en vinnutekjuskattur, svo enn eru skattar hærri á venjulegu launafólki en á ofurtekjufólki. Undanfarinn áratug hafa þeir, sem betur mega sín, hagrætt sköttum í sína þágu. Á því varð örlítil breyting árið 2009, en ekki svo mikil, að jafnvægi hafi náðst.

Minnihlutinn sigraði

Punktar

Við sjáum nú, hvað mark Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn taka á uppgjöf Árna Pála Árnasonar. Alls ekki neitt. Framsókn dregur bara upp plagg frá Jóhannesi Nordal um eignarhald kvótagreifa á auðlindum hafsins. Sáttatón er þar hvergi að finna. Og umboðsmaður ógreiddra atkvæða hertekur ræðustól Alþingis að venju. Þetta eru bófar og flokkar þeirra bófaflokkar, sem ekki er hægt að semja við. Auðvitað bera Sjálfstæðið og Framsókn mesta ábyrgð, en hafa ekki meirihluta á alþingi. Þurftu aðstoð við ódæðið og fengu hana hjá Árna Páli. Hann var kvislingurinn, sem formlega slátraði stjórnarskránni.

Kosningamálið er klárt

Punktar

Stjórnarskráin verður stærsta kosningamálið í vor. Ekki tókst að koma fram lögmætum þjóðarvilja. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn eru því andvígir. Ekki verður byggt á uppkastinu, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðinu í vetur. Bófaflokkarnir hafa til þess stuðning umboðsmanns Sjálfstæðisflokksins í formennsku Samfylkingar. Kvislingurinn Árni Páll Árnason felldi skrána eins og raunar hefur lengi verið ljóst. Í kosningum þessa vors þarf þjóðin að hafna þremur stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingunni og Framsókn. Um nóg annað verður að velja eftir geðþótta sérhvers kjósanda.

Samkeyrt á kennitölum

Fjölmiðlun

Í Bandaríkjunum felst öflugasti þáttur rannsókna blaðamanna í að samkeyra gagnabanka á kennitölum. Hér er bannað að samkeyra gagnabanka á kennitölum. Lög um persónuvernd banna það. Í Bandaríkjunum er gegnsæi frá gamalli tíð talið vera góð vörn gegn glæpum. Hér styðja lög um Persónuvernd hins vegar glæpi. Í Bandaríkjunum eru fjölmiðlar beintengdir við opinbera gagnabanka á netinu. Í anddyri ríkisstofnana eru tölvur, þar sem fólk getur skoðað gagnabanka stofnunarinnar. Við erum svo sannarlega ljósárum á eftir öðrum í upplýsingaskyldu og gegnsæi. Fjögurra ára vinstri stjórn breytti þar engu.