Nægur tími á alþingi

Punktar

Alþingi hefur svo mikinn tíma til ráðstöfunar, að það hafði tíma til að taka frí í dag. Þótt tugir mála séu á dagskrá og stjórnarskráin frosin í miðjum klíðum. Þótt umbi Sjálfstæðisflokksins í Samfylkingunni segi tímann ekki nægan fyrir stjórnarskrá. Þótt málþófsmenn Flokksins vilji ræða í hundruð klukkustunda um, að fara þurfi að ræða stjórnarskrá. En ræða bara annað, svo sem um fundarstjórn forseta. Ekki veit ég, hvort þeir kjósendur hugsa, sem ramba ráðvilltir milli Flokksins og Framsóknar. Horfa aldrei í sjónvarpi á skrípaleik Flokksins og Framsóknar á verklausu alþingi. En þetta vilja þeir.

Halldór er með það

Punktar

Halldór Baldursson skopteiknari er bezti rýnirinn. Ber saman bankastjóra ársins 2007 og pólitíkusa ársins 2013: “2007: Við lánum einhverjum gullkálfi alla peningana, sem við eigum ekki, gegn því, að hann kaupi hlutabréfin okkar. Þau hækka geðveikt og allir græða svo mikið, að vinurinn þarf ekki einu sinni að endurgreiða lánið.” “2013: Við borgum skuldir heimilanna með peningum, sem eru ekki til. Þá eykst neysla almennings svo mikið, að hagvöxtur rýkur upp. Ríkissjóður græðir geðveikt og enginn þarf að borga skatta. Reisum sjúkrahús fyrir afganginn” Ruglið 2013 er sama og árið 2007.

Eigin ógæfu smiður

Veitingar

Andartaks veiklun olli því, að ég fór á Buddha í hádegi í gær. Borgaði 1800 krónur, svipað og ég geri á beztu stöðum. Át hvítpóleruð hrísgrjón og núðlur úr hvítahveiti, svínabita djúpsteikta í eggjadeigi og kjúklingabita á floti í sterkri karrísósu. Líklega 1800 kaloríur og í gæðum langt að baki staða, sem ég sæki. Ekki beinlínis vont og ég slafraði þessu í mig, enda ofæta. Þyngdist um 600 grömm. Með sama áframhaldi yrði ég aftur 125 kíló á árinu. Fer því í hóflegt aðhald, það sem eftir er vikunnar. Hér eftir passa ég að borða bara á beztu stöðum. Í dag í Höfninni, á föstudaginn á Friðriki V.

Stærsti vaxtarbroddurinn

Punktar

Internetið er stærsti vaxtarbroddur atvinnulífs heimsins og farsíminn er þar ekki síðasta orðið. Mikilvægt er, að Stóri bróðir, hvort sem hann heitir Ögmundur eða eitthvað annað, fari ekki að reyna að miðstýra veraldarvefnum. Betra er, að það fái að þroskast áfram án þess að safna valdi á fáa staði. Hlutverk ríkisins á að vera að greiða fyrir virkri aðild Íslands að þessari þróun. Til dæmis með greiðu og ódýru net sambandi austur og vestur um haf. Hlutverk ríkisins er þjóðvegakerfi á láði, lofti, legi og neti, en ekki innihald flutninga. Framtíðina sjáum við ekki, en hún verður spennandi.

Íslenzk mistök lærdómsrík

Punktar

Rétt er að reyna að vernda litlar innistæður í bönkum á Kýpur. Þær eru ekki vandinn. Ekki frekar en almenningur er vandinn. Böl Kýpverja er það sama og Íslendinga árið 2008. Stjórnvöld hafa hleypt bönkunum í margfalda stærð þjóðarbúsins, leyft þeim að soga inn erlent lánsfé. Hér var allt sparifé verndað, sem reyndist vera röng ákvörðun Geirs Haarde. Aðeins hefði átt að vernda litlar upphæðir. Nú er verið að reyna slíkt á Kýpur. Því miður vinnur tíminn ekki með lausn. Rússar reyndu auðvitað að ná út fé sínu. Bönkunum á Kýpur hefur því verið lokað. Vonandi lærir Evrópa betur af mistökum Geirs.

Tveir kostir góðir

Punktar

Ef ég set efnahagsmál á oddinn, hallast ég að Pírötum. Þeir hafa bezta sýn á framtíð íslenzks atvinnulífs. Mér er ljóst, að tekjur verða því hærri sem lengra er farið frá frumframleiðslu. Internetið er atvinnugreinin, sem mun gefa hæstar meðaltekjur, enda er það varla byrjað enn. Ef ég set hins vegar lýðræðið á oddinn, hallast ég að Lýðræðisvaktinni. Þar eru flestir þeirra, sem voru í stjórnlagaráði. Þeir sýndu þar, að þeir gátu bæði eflt lýðræði og komizt að sameiginlegri niðurstöðu. Ég er ekki sammála því öllu. En okkur vantar sáttapólitík lýðræðis í stað illa innrætts rifrildis um sérhagsmuni.

Sömu Nígeríubréfin

Punktar

Nígeríubréf Flokksins eru ekki traustari en Nígeríubréf Framsóknar. Þau eru bara sett fram í felulitum. Framsókn vil gefa okkur 240 milljarða fyrir að kjósa sig. Sjálfstæðið vill gefa okkur 60 milljarða á ári í fjögur ár fyrir að kjósa sig, sem gerir samtals 240 milljarða. Allt er þetta á okkar eigin kostnað, hvort sem Íbúðalánasjóður eða lífeyrissjóðir eru millistöðin á leið tjónsins. Báðir flokkarnir vita, að enginn hefur nokkru sinni tapað á að lofa sem beztum sjónhverfingum. Kjósendur eru eins og aðrir Íslendingar, sem fá Nígeríubréf. Þeim finnst þessi góðviljuðu bréf vera ákaflega freistandi.

Þetta er bara plott

Punktar

Greiði alþingi ekki atkvæði um nýja stjórnarskrá, felur það í sér svik við gefin loforð. Sumir kjósendur vilja gjarna vita, hvaða þingmenn þetta séu, sem hindra framgang málsins. Líklegast er þögult samkomulag á þingi um að hlífa þingmönnum við vitneskju fólks. Ábyrgðin færist þá yfir á alþingi í heild. Þá verður það kosningamál að berjast gegn endurkjöri allra, sem nú sitja á alþingi. Alvarlegt er að setja í gang yfirgripsmikið ferli nýrrar stjórnarskrár og fallast svo hendur, þegar til kastanna kemur. Þingmenn mega alls ekki geta falið sig bak við plott Árna Páls um enga atkvæðagreiðslu.

Lífseigur spuni

Punktar

Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður endurtekur spunann um, að málþóf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hindri framgang stjórnarskrárinnar. Segja þó lög um alþingi, hvernig málþóf verði stöðvað og gengið til atkvæða. Forseti alþingis getur ákveðið það eða níu þingmenn. Oddný var ekki spurð um þetta í útvarpinu, enda eru fréttamenn hættir að brjóta málin til mergjar. Málþóf hindrar ekki afgreiðslu, heldur svik nýs formanns Samfylkingarinnar við loforð um framgang stjórnarskrárinnar. Nauðsynlegt er að greiða atkvæði, svo að kjósendur fái að vita, hvaða þingmenn munu bregðast stjórnarskránni.

Kafað í prósenturnar

Punktar

Kannanir segja okkur, að fimmflokkurinn skelfilegi fá alla þingmenn á næsta kjörtímabili. Staðan er ekki svona slæm. Gallup gefur beztu upplýsingarnar um dreifingu úrtaksins. Aðeins sex af hverjum tíu svara spyrlunum. Af þeim, sem svara, nefna aðeins átta af hverjum tíu einhvern flokk. Af þessari rest eru aðeins átta af hverjum tíu, sem nefna hinn hræðilega fimmflokk bófa og bjána. Fréttin úr nýjum könnunum byggist því á svörum fjögurra af hverjum tíu kjósendum. Gefur okkur bjartsýni til að vona, að nýju flokkarnir eigi góðan séns. Hafa margir ekki birt framboð enn og eiga eftir að kynna sig.

Slátrar líka Samfylkingunni

Punktar

Árni Páll Árnason feilaði, þegar hann reyndi að beita klækjum til að slátra stjórnarskránni. Á stuttri formannstíð hans hefur fylgi flokksins hrunið. Þingflokkurinn er klofinn vegna mistaka hans. Fylgið mun áfram rýrna, þegar flökkufylgi flokksins frá 2009 fattar, að Árni Páll sveik stjórnarskrána. Og áttar sig á, að hann er umbi Sjálfstæðisflokksins í Samfylkingunni. Að hann er að undirbúa stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Að vísu er stjórnarskráin ekki fremsta hitamál allra. Samt mun hún vera þung á metunum í kosningunum í apríllok, þegar Samfylkingunni verður slátrað.

 

Fullt hús bófa og bjána

Punktar

Fjórflokkurinn eða fimmflokkurinn er skelfilegur. Þar eru bófaflokkar tveir á framfæri kvótagreifa og pilsfaldagreifa. Annar þeirra tvöfaldar fylgi sitt út á Nígeríubréf með tilboði til fávísra kjósenda. Svo eru þar bjánaflokkar tveir, sem hafa svikið þjóðina tvöfalt. Í fyrsta lagi með því að sigla stjórnarskránni í strand. Og í öðru lagi með því að reyna að troða afsali þjóðarauðlindarinnar í hendur kvótagreifa í tuttugu ár. Fimmti flokkurinn fer í stjórnarsæng með hverjum, sem býður. Samkvæmt könnunum fær þessi fimmflokkur ALLA þingmenn næsta kjörtímabils, fullt hús. Þjóðin virðist galin.

Píratar góður kostur

Punktar

Píratar hófu undirbúning kosninganna af krafti. Framboð eru komin í ljós og stuðningsfólk flokksins virkt á fésbók og í öðrum nýmiðlum. Þarna er ungt fólk, sem skilur nýmiðla og getur beitt sér framhjá hefðbundnum fjölmiðlum. Get vel hugsað mér að kjósa pírata, einkum þar sem Birgitta Jónsdóttir er í framboði í mínu kjördæmi. Ég á að vísu eftir að sjá, hvernig Lýðræðisvaktin stjórnarskrármanna fer af stað. Og hverjir verða þar í framboði. Hef trú á Þorvaldi Gylfasyni og öðrum þeim félögum. Þau eru enn varla farnir að mælast í skoðanakönnunum. En það lagast vonandi, þegar þau loksins komast í gang.

Flótti víða brostinn á

Punktar

Margir flýja Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana. Flýja Moggann, kvótagreifana, fjárglæfra-formanninn og málþófsmenn hans, ályktanir landsfundar að hætti ameríska teboðsins. Skrítið samt, að flóttaliðið þorir varla að fara lengra en yfir í Framsókn. Hafa um margt annað að velja, svo sem Hægri græna og Samfylkinguna undir formennsku frambjóðanda Flokksins. Ég get hins vegar vel skilið, að kratar í Samfylkingunni flýi í mótmælaskyni undan Árna Páli Árnasyni yfir í Bjarta framtíð. Get líka skilið, að fólk flýi vinstri græna yfir í vinstri smáflokka. Í Dögun, Pírata eða jafnvel enn nýrri framboð þar.

Undir fölsku flaggi

Punktar

Við höfum lengi vitað, að Flokkurinn og Framsókn eru andvíg frumvarpinu að stjórnarskrá. Fara ekkert í felur með afstöðuna. Samfylkingin þykist hins vegar styðja frumvarpið, en berst gegn því að tjaldabaki. Stefna hennar er að salta málið án atkvæðagreiðslu til að fela svik þingmanna. Þess vegna er lögum um alþingi ekki beitt gegn málþófi. Sama er að segja um Vinstri græna, þótt þar séu svikin við þjóðaratkvæðið ekki eins megn. Ekki tekst að smala saman níu þingmönnum til að styðja þjóðaratkvæðið með því að leggja fram dagskrártillögu. Fimmflokkurinn mun hindra atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.