Dómarar hlífa fínimönnum

Punktar

Enn eitt dæmið um, að dómarar eru ekki starfi sínu vaxnir. Líta mildum augum á glæpi fínimanna, en stinga rónum inn fyrir bjórþjófnað. Nýjasta aðferðin við að hlífa fínimönnum er að láta málskostnað þeirra falla á ríkissjóð, þótt þeir séu dæmdir sekir. Þannig sluppu stjórar Glitnis vel í dag, Lárus Welding græddi fimm milljónir og Guðmundur Hjaltason fjórar. Þeir sluppu að mestu með skilorð, þótt bjórþjófar geri það ekki. Dómarar telja líka, að hver stolinn milljarður fínimanna jafngildi hverjum þúsundkalli hjá rónum, sem stela sér til drykkjar. Íslenzkir dómarar eru með afbrigðum stéttvísir.

Engar stjörnur á Íslandi

Veitingar

Samkvæmt Michelin er Japan matgæðingaland heimsins númer eitt með 32 þriggja stjörnu veitingahús. Næst kemur Frakkland með 25 þriggja stjörnu staði. Svo koma Bandaríkin langt á eftir með 11 þriggja stjörnu hús og Þýzkaland með 10 þriggja stjörnu staði. Af þessu leiðir, að Tokyo er matarhöfuðborg heimsins með 16 þriggja stjörnu veitingahús. Síðan kemur París með 10 þriggja stjörnu hús. Nokkrar minna þekktar borgir hafa tiltölulega mörg þriggja stjörnu hús; Kyoto í Japan með sjö, Bruges í Belgíu og San Sebastian á Spáni með þrjú hvort og Baiersbronn í Þýzkalandi með tvö. Engar stjörnur eru á Íslandi.

Rifrildi háskólakennara

Punktar

Væri ég fjárgæzlumaður á borð við Birgi Þór Runólfsson, mundi ég láta lítið fyrir mér fara í nokkur ár. Vont er að þurfa að láta bankana afskrifa hálfan milljarð hjá fyrirtæki sínu. Einkum er spurning, hvort rétt sé að gefa okkur og Seðlabankanum kredduföst ráð í hagfræði meðan afskriftirnar eru í fersku minni. Nærri daglega birtast strangtrúuð frjálshyggja Birgis Þórs á Eyjunni. Þar er allt dregið upp svart og hvítt, enginn veruleiki kemst þar að. Þar fyrir utan er athyglisvert, að kennarar við Háskóla Íslands eru framarlega í röð æstustu þrasara á veraldarvefnum. Er það þetta, sem kallast súpergaggó?

Hverfult fylgi ráfar

Punktar

Eins og fleiri sakna ég kjósenda Framsóknar meðal þeirra, sem ég þekki, og sakna þeirra líka í bloggi og fésbók. Einhvers staðar hlýtur rosafylgið að fela sig, það getur ekki allt ráfað úti á túni. Virðast vera kjósendur, sem láta lítið fyrir sér fara. Sennilega er stærsti hlutinn sjálfstæðismenn, sem eru ósáttir við gamla flokkinn sinn, skrítin málefni hans og áherzlur. Fara beina leið til baka, þegar Flokkurinn gefur kost á því. Þannig má líta á ofurfylgi Framsóknar sem lánsfylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Þjóðina skiptir hins vegar engu hvorn bófaflokkinn þessir kjósendur styðja hverju sinni.

Þeir nýju fá rödd

Punktar

Af þjóðarpúlsinum sé ég, að tvö af nýju framboðunum eru að byrja að hreyfast upp. Því miður er púlsinn tekinn samfellt yfir heilan mánuð, svo að hluti af upplýsingunum er of gamall. Nær illa páskasveiflunni, vanmetur hana. Píratar og Lýðræðisvaktin fá örugglega þingmenn og enn er von bæði í Hægri grænum og Dögun. Önnur ný framboð eru vonlítil enn sem komið er. Stjórnarflokkarnir eru sem fyrr í botni og Framsókn rakar fylgi frá Flokknum. Flest bendir til helmingaskiptastjórnar öldnu bófaflokkanna undir forustu silfurskeiðunganna. Nýju flokkarnir fá bara rödd á Alþingi, en engin völd. Svona er þjóðin bara.

Umræða um Nígeríubréf

Punktar

Góð var sjónvarpsumræða flokksformanna í gærkvöldi. Formenn nýju flokkanna komu yfirleitt vel fyrir. Vonandi hraðar fundurinn fylgisaukningu þeirra, sem var að byrja að taka við sér um páskana. Að öðru leyti fór umræðan fyrir ofan garð og neðan. Fólk heyrði þó, hvernig menn segjast munu galdra kanínur upp úr hatti fyrir heimilin. Meiningin er að framleiða hundruð milljarða með sjónhverfingum að hætti Framsóknar. Hinir flokkarnir hafa uppgötvað, að mest fylgi fæst með því að gefa út slík Nígeríubréf. Fátt gleður marga kjósendur meira en að fá send slík bréf, þótt bitur reynsla eigi að segja þeim annað.

 

Grænan flokk vantar

Punktar

Okkur vantar grænan flokk, sem ver landið og þjóðina fyrir ofstæki stóriðju, Landsvirkjunar, HS Orku og kjördæmapots. Fráfarandi formaður vinstri grænna gengur fram fyrir skjöldu að knýja fram ríkisstyrk til stóriðju á Húsavík. Í meðlag Steingríms eiga að fara þrír og hálfur milljarðar skattgreiðenda. Án tillits til áhrifa orkuvers í Bjarnarflagi á Mývatn og á verðgildi vatnsins sem miðstöðvar ferðaþjónustu. Þetta er svo vitlaust og vanhugsað, að jaðrar við geðveiki. Vinstri grænir eru því ekki grænir fremur en aðrir flokkar hér á landi. Við þurfum flokk, sem berst fyrir nýju umhverfismati við Mývatn.

Étum brauð og eigum það

Punktar

Í þjóðfélagi fáráðlinga er sniðugt að leysa mál með því að afnema eignarétt vondra eigenda. Því er hampað orðunum vogunarsjóður og hrægammasjóður. Til að sýna fram á, að rétt sé að leysa skuldavanda á kostnað þeirra. Skrítið er, að hinir sömu snjöllu sjónhverfingamenn flagga einnig hugmyndum um að efla hagvöxt, soga hingað erlent lánsfé. Til að reisa orkuver fyrir stóriðju við Húsavík og Keflavík, til að bora göng í Vaðlaheiði, til að reisa spítala í Reykjavík. Spyrja má, hvort erlent lánsfé fáist í kjölfar eignaupptöku. Þá muldra þeir um lífeyrissjóðina, telja rétt að hirða líka eignir sjóðfélaga.

Ríkir gegn fátækum

Punktar

“Flestir af þeim sem stjórna okkur eru sjálfhverfir fábjánar. … Við erum einfaldlega að upplifa efnahagslegan hernað ríkra gegn fátækum.” Segir einn þekktasti blaðamaður Guardian um áform ríkisstjórnar Breta. Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir hyggjast lækka skatta á hátekjufólki og spara á móti velferð á borð við húsaleigubætur og velferðarbætur. Í stíl við harða stefnu hægri hugmyndafræðinga á Vesturlöndum. Þetta mun koma sterkt til álita hér, þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn taka völdin í vor. Fæddir með silfurskeið í munni halda formenn, að auður hátekjufólks sáldrist niður til fátækra.

Kaloríusnautt lúxusfæði

Veitingar

Var oft í Frakklandi á níunda tug síðustu aldar. Skrifaði meira að segja bók um hótel og matarhús í París. Hrifnastur af Alain Senderens á Archestrate, síðar á Lucas Carton, með nýja útfærslu á franskri hefð. Var víðar í Frans, kom þrisvar til Poul Bocuse í Collonges, þótti lítið til koma. Meira vit var í Marc Haeberlin í Illhausern og einkum í Roger Vergé í myllunni í Mougins. Þetta voru broddar nýfrönsku matreiðslunnar. Lengst gekk Michel Guérard í Eugénie-les-Bains, sem stofnaði Cuisine minceur með hóflegum kaloríum. Bók hans: “La Grande Cuisine minceur” var frábær bylting í nútíma mateiðslu.

Kurteisi betri en bandalag

Punktar

Kosningabandalag nýflokka er síðbúin hugmynd, þegar kosning utankjörstaðar er þegar hafin. Hún getur strandað á sérvizku kjörstjórna hér og þar, sem taka hóflegt mark á leiðbeiningum ráðuneytis. Vissara er fyrir nýflokkana að halda sínu striki, hver undir sínu merki. Vinna á þeim grundvelli, sem þegar er mótaður. Ekkert hindrar nýflokkana í að gæta hófs í innbyrðis átökum í kosningabaráttu. Sameiginlegur óvinur er fjórflokkurinn, sem heldur þjóðinni í gíslingu. Almenn kurteisi í garð hver annars í aðdraganda kosninganna er heppilegra leiðarljós nýflokka. Gefur þeim annað yfirbragð en fjórflokksins.

Uppþot við Mývatn?

Punktar

Svokallað mat á umhverfisáhrifum var marklaust á valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Framleitt af starfsmönnum Landsvirkjunar og öðrum, sem voru þóknanlegir. Væri það neikvætt, komu framsóknarkerlingar til skjalanna, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Þær völtuðu bara yfir matið, svo einfalt var það. Vegna þessarar fortíðar er marklaust að nota tíu ára gamalt umhverfismat á orkuveri í Bjarnarflagi við Mývatn. Þar þarf nýtt mat, sem er óháð Landsvirkjun og óháð ráðherra hverju sinni. Hugmynd Harðar Arnarsonar forstjóra um notkun tíu ára gamals mats er fráleit og mun valda uppþotum.

Þrælaþjóðin

Punktar

“Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgáng af meiri kurteisi en Íslendíngar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendíngar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól.” Orð Halldórs Laxness hæfa vel, þegar íslenzkir kjósendur láta sig stjórnarskrá engu varða, hunza pólitískt gegnsæi og kalla gerspillta hrunverja til valda.

 

Kosningabandalag

Punktar

Sumir hafa efasemdir um, að pennastrik virki vel í stórpólitískum málum. Nú síðast er deilt um aðferðir við að láta hluta af íbúðaskuldum hverfa bara si svona. Var helzta ástæða þess, að sumt stjórnlagaráðsfólk og gegnsæisfólk taldi sig ekki geta verið í Dögun. Stofnaði annars vegar Lýðræðisvaktina og hins vegar Pírata. Lýðræðisvaktin og Píratar gætu hugsanlega sameinast. En ég held, að kosningabandalag við Dögun liggi ekki í augum uppi. Andstaða við skítamix kosningabandalaga rís ekki á of fyrirferðarmiklum persónum, heldur á ágreiningi um lykilmál. Betra er, að sérhvert sjónarmið sitji að sínu.

Allt er eins og ævinlega

Punktar

Ekkert hefur gerzt í þessu landi, hér varð ekkert hrun. Stjórnarskráin er gleymd og grafin. Niðurgreiðsla skattgreiðenda til stóriðju hafin að nýju. Kvótagreifar eiga þjóðarauðlindina sem fyrr. Hrossakaup og kjördæmapot eru í blóma. Einkavinavæðing bankanna verður endurtekin. Kjósendur ætla að ákveða, að hér færist allt aftur í gamla stílinn. Enga nýja flokka takk, segir fólk, gamla góða Framsókn er nógu góð fyrir mig. Fjórflokkurinn stígur menúettinn, sem stiginn hefur verið um áratugi. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur taka við stjórninni í vor. Allt verður þá eins og ævinlega hefur hér verið.