Mislukkað bragð lagatækna

Punktar

Tveir lagatæknar endurtaka leikinn úr Baugsmálinu. Þá töfðu verjendur málið eins lengi og framast var unnt. Heimtuðu síðan mildari dóm út af töfunum. Dómari sá að þessu sinni við gamalkunnu bragði Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall. Þeir sögðu sig frá AlThani-máli Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar Kaupþingsstjóra. Dómarinn neitaði að taka afsögnina gilda og heldur málinu áfram án frekari tafa. Gestur hefur mikla reynslu af töfum úr Baugsmálinu og mun vafalaust reyna ný brögð til að tefja fyrir framgangi réttvísinnar. Síðan verða tafir verjenda notaðar til að heimta mildari dóm.

Einfaldar fylgissveiflur

Punktar

Fróðlegt graf í Fréttablaðinu sýnir færslu fylgis milli flokka. Sýnir vel, að mikill hluti fylgisaukningar Framsóknar kemur frá Sjálfstæðisflokknum og fer ekkert annað, nema þá til baka. Sýnir líka, að Björt framtíð dregur frá Samfylkingu og Píratar frá Vinstri grænum. Aðrar hreyfingar eru óverulegar. Að baki er sú staðreynd, að fylgi við nýja stjórnarskrá og aukið gegnsæi er einkum hjá fyrri kjósendum Samfylkingar og Vinstri grænna. Hægra fólk hefur takmarkaðan áhuga á slíku. Önnur könnun leiddi um helgina í ljós, að flestir kjósendur hafa áhuga á íbúðaskuldum fólks, heilbrigðismálum og atvinnumálum.

Árásin á heimilin

Punktar

Erfitt verður fyrir Sjálfstæðisflokkinn að reka kosningastefnu, sem felur í sér augljósa árás á heimili landsins. Niðurskurður velferðar af völdum hrunsins er orðinn nægur. Þurfum ekki hrunflokk til að magna hann enn frekar. Ennfremur er skattstig hátekjumanna og stórfyrirtækja skammarlega lágt í vestrænum samanburði. Þurfum ekki hrunflokk til að lækka þetta lága skattstig. Vitum, að það verður á kostnað smælingja. Svigrúm skortir til að predika villtustu drauma Hannesar Hólmsteins og Davíðs Oddssonar um paradís kvótagreifa og slíkra Tortólagreifa. Flestum er ljóst, að græðgisstefnan er löngu sprungin.

 

Vændi er flókið

Punktar

Erlendar rannsóknir sýna, að vændi er flóknara en okkur er sagt. Til er götuvændi, húsavændi og símavændi. Vændi heimafólks og aðfluttra. Vændi á vegum mansala og bófaflokka, vændi á vegum alfonsa og svo sjálfstætt vændi. Fyrir stríð var sjálfstætt vændi í heimahúsum langalgengasta form vændis á meginlandi Evrópu. Í seinni tíð hafa umsvif bófa aukizt, vegna glæpavæðingar hugtaksins vændi. Enn er þó staðan sú, að vændi er mest stundað af fólki, sem rekur sig sjálft til að þéna pening. Aðgerðir gegn vændi mega ekki skaða hagsmuni sjálfstæðra kynlífssala. Um þetta var fjallað í seríunni “Höllinni”.

Helferð þjóðarinnar

Punktar

Um þriðjungur kjósenda hefur lært eitthvað af hruninu og leitar í von til nýrra stjórnmálaflokka. Flóttafólkið úr Sjálfstæðisflokknum hefur ekkert lært. Enda fær það sér einnar nætur stað í Framsókn, sem er enn spilltari en þess eigin flokkur. Slíkt fólk sér ekki, að rætur vandræða þjóðarinnar er að finna í langvinnum helmingaskiptum Framsóknar og Flokksins. Sér ekki, að þessi vandræði mögnuðust í gerræði Davíðs Oddssonar. Áttar sig ekki á, að hér vantar helztu forsendur lýðræðis, gegnsæi og ábyrgð. Svipuð meinloka réð eins furðulegri helferð vinstri stjórnarinnar út af borði pólitískra áhrifa.

Flóttafólkið kemur aftur

Punktar

Flóttafólkið úr Sjálfstæðisflokknum er ekki á leið til vinstri og enn síður á leið út úr boxi fjórflokks. Slíkar hugsanir væru þessu fólki óbærilegar. Íhaldsfólk, húsbóndahollt og ekki gefið fyrir sjálfstæðar hugsanir. Leiðist hjalið um að græða á daginn og grilla á kvöldin og hafnar heimspekinni um, að græðgin sé góð. Vill fá gamla flokkinn sinn aftur eins og hann var fyrir yfirtöku hrunverja og glæframanna, kvótagreifa og spekúlanta. Langferðin til Framsóknar er lengsta pólitíska þrautaganga, sem það getur hugsað sér. Kemur til baka, þegar það telur sér trú um, að allt sé orðið eins og það áður var.

Framsókn skuldar heimilunum

Punktar

Fyrir kosningarnar 2003 lofaði Framsókn 90% húsnæðislánum og stóð aldrei þessu vant við loforðið. Afleiðingin var, að fólk byggði eða keypti langt um efni fram og lenti svo í vandræðum í hruninu. Þannig ber Framsókn þunga ábyrgð á ástandinu, sem hún ætlar nú að velta yfir á ótilgreindan aðila. Sá aðili er stundum kallaður hrægammasjóðir, stundum lífeyrissjóðir, en er í raun skattgreiðandinn. Miklu nær er, að Framsókn borgi sjálf tjónið af gömlu kosningaloforði sínu. Sem hún var enn að grobbast af á heimasíðu sinni um páskana. Ofur-skuldsetning fólks er bein afleiðing Framsóknarflokksins.

 

Ræðugreifi 1146 mínútna

Punktar

Sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í innblásnum skattframtölum er ræðugreifi. Á nýafstöðnu þingi flutti Ásbjörn Óttarsson hundraðogellefu ræður og gerði þrjúhundruð athugasemdir. Í þetta notaði hann 1146 mínútur, nítján stundir. Ekki er vitað, hversu mörg orðin voru, en hitt er ljóst, að ekkert þeirra er minnisstætt. Það heitir á íslenzku að vera froðusnakkur. Málþóf Flokksins og Framsóknar á alþingi fólst í að tala endalaust um, að tala þurfi um mál. En alls ekki í að tala um hin sömu mál. Rynni froðan eins linnulaust úr öðrum þingmönnum í Flokknum og Framsókn, dygðu ekki 24 tímar á hverjum sólarhring.

Árni Páll verði lánaður

Punktar

Páll Vilhjálmsson evrópuvinur birti í morgun sniðuga hugmynd. Hún gæti leyst fjölbreyttan vanda systurflokkanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á einu bretti. Flokkurinn fái Árna Pál Árnason lánaðan sem formann og losni um leið við Bjarna Benediktsson hrunverja. Flokkarnir verði sameinaðir undir stefnu Árna Páls, sem vill gæta hagsmuna banka og bankstera. Hinn flokkurinn leggi hagsmuni kvótagreifa og auðmanna í púkkið. Og við höfum fengið þennan líka frábæra flokk alþjóðlegrar fjármagnshyggju. “Leyfum auðnum að sáldrast niður til aumingjanna”, gæti verið slagorðið. Og “Auðstétt standi með auðstétt”.

Fékk að leiðrétta sig

Punktar

Sigríður Dögg Auðunsdóttir gekk eins langt og blaðamenn mega gera til að gæta hagsmuna viðmælanda síns. Hún sendi Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ekki aðeins til skoðunar beinar tilvitnanir í orð hans, heldur einnig óbeinar tilvitnanir. Þar sem ég þekki til, mega blaðamenn ekki senda viðmælendum annan texta í grein. Þeir geta þannig endurskoðað eigin orð, en ekki tekið stjórn á greininni. Breytingar Sigmundar Davíðs voru teknar inn. Líklega telur hann, að þetta eigi að vera eins og í gamla daga. Þá sömdu pólitískir himnafeður eins og Eysteinn Jónsson sjálfir spurningar blaðamanna.

Andvana kjósendur ráfa

Punktar

Ekkert breytist, þótt hálfur Sjálfstæðisflokkurinn flytjist yfir í Framsókn. Þetta eru sérhagsmunaflokkar og Framsókn er frekar þrengri, ef eitthvað er. Flokkarnir voru báðir á þingi andvígir þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn gætir hagsmuna kvótagreifa og auðstéttarinnar gegn þjóðinni. Framsókn gætir hagsmuna hluta kvótagreifa og hluta auðstéttarinnar gegn þjóðinni. Tillögur Sjálfstæðisflokksins um skattalækkun snúast bara um skattalækkun þeirra bezt settu með fækkun skattþrepa. Þjóðin hefur ekki hið minnsta gagn af ráfi andvana kjósenda milli tveggja valinkunnra bófaflokka.

Sigurvissan hefndi sín

Punktar

Misjöfn gæfa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þessa dagana stafar af óhófi í sjálfstrausti Flokksins fram eftir vetri. Hann var viss um stjórnarforustu sína eftir kosningar og hirti ekki nóg um að blekkja kjósendur. Sagði ekki bara hreint út, að hann væri andvígur þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá. Það sagði Framsókn raunar líka á þingi, en lofaði samt þjóðareign auðlinda í kosningastefnuskrá. Það borgar sig að vera loðinn og opinn í alla enda. En Sjálfstæðisflokkurinn heimtar líka lægri skatta á þá, sem hafa breiðust bök, hátekjufólkið og stórfyrirtækin. Fyrir slíku er ekki hljómgrunnur kjósenda.

Yndisleg skoðanakönnun

Punktar

Ljúft væri, ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi 18% atkvæða í kosningunum eins og Fréttablaðið segir í dag. Syndir hans eru svo þungar, að hann á skilið að hverfa af skákborði stjórnmálanna. Einnig væri frábært, ef Framsókn fengi nærri hreinan meirihluta, því að þjóðin á ekki betra skilið. Hún hefur ætíð hagað sér pólitískt eins og fáviti og gerir það enn. Samt er fullt af nýjum framboðum með frambærilegra fólki en gamli fjórflokkurinn og varadekk hans bjóða. Samkvæmt tölum Fréttablaðsins koma Píratar að þingmönnum. Það færir okkur þó von um, að sumir geti hugsað út fyrir svartan kassa fjórflokksins.

Komast upp með þvætting

Punktar

Svonefndir málefnaumræðuþættir sjónvarps vegna kosninganna eru gott dæmi um uppgjöf fjölmiðla gagnvart þvættingi stjórnmálaflokka. Þeir eiga auðvitað að dæmast eftir gerðum sínum fremur en orðum, sem eru afar ódýr. Eins og aðrir hagsmunaaðilar fá flokkarnir að lýsa sér með fögrum orðum, sem eiga ekkert skylt við veruleikann. Framsókn lofar þjóðareign auðlinda eftir kosningar, en berst samt hart á þingi gegn þjóðareign auðlinda. Þegar stjórnmálaflokkar slá fram bulli um stefnu sína, eiga blaðamenn að geta spurt þá, hverju sæti, að orð og gerðir fari ekki saman. Enginn á að komast upp með tóman þvætting.

Skúbb aldarinnar

Punktar

Skúbb aldarinnar er birting lista heimsins mestu skattsvikara og stórþjófa, svo og upphæðirnar, sem þeir hafa stungið undan. Þetta eru meiri fréttir en tölvupóstar bandarískrar utanríkisþjónustu. Að baki lekans er Alþjóðasamband rannsóknablaðamanna, ICIJ. Birting verður næstu daga í Guardian, Washington Post, BBC og Le Monde. Á listunum eru flestir greifanna, sem bera ábyrgð á sjóðþurrð heimsviðskipta og tilheyrandi kreppum. Við bíðum frétta af nöfnum Íslendinga í hinum fríða hópi. Í framhaldinu neyðast vestrænar ríkisstjórnir til alþjóðlegrar herferðar gegn skattaskjólum, skattsvikum og stórþjófum.