Því meira því betra

Punktar

Birting skoðanakannana hefur áhrif á úrslit kosninga. Og hvað með það? Víða sé ég texta, þar sem menn lýsa áhyggjum af þessu. Ég deili þeim ekki. Allar fréttir hafa áhrif á úrslit kosninga. Þær mega gera það. Því meiri fréttir, þeim mun upplýstara er fólk. Eða getur verið það, ef það kærir sig um. Ekki veitir af, að fólk hafi aðgang að sem mestum og beztum upplýsingum. Óhætt er að treysta þeim, þegar gott samræmi er milli kannana samkeppnisaðila. Við höfum sem betur fer aðgang að úrvali kannana. Hugmyndir um að banna birtingu þeirra í nokkra daga fyrir kosningar eru paranoja taugaveiklaðra málsaðila.

Gáttaður á Framsókn

Punktar

Því meira sem ég hugsa málið því meira gáttaður verð ég á fylgi Framsóknar í könnunum. Einn höfuðpaura hrunsins undir forustu landsins mesta lygalaups og sjónhverfingamanns. Í heila sex áratugi hef ég ekki séð neitt þessu líkt. Framsókn ætti að vera með öllu fylgislaus. Þingmenn hennar styðja auðgreifa og einkum kvótagreifa. Fela fyrirhugaðar afskriftir af skuldum auðfólksins í búning hagsmuna heimilanna. Verulega ógeðfellt. En kjósendur falla unnvörpum fyrir falsinu. Þótt ég hafi oft talað illa um Íslendinga, hef ég vanmetið ótrúlega heimsku fólks í pólitík og fjármálum og skort þess á mannþekkingu.

Hugtakið fjórflokkur

Punktar

Fjórflokkurinn er ágætt hugtak, sem skýrir vel áratuga kyrrstöðu íslenzkra stjórnmála. Flokkarnir eru ekki alltaf þeir sömu, en þeir eru alltaf fjórir plús einn. Bófaflokkarnir tveir eru kjarni fjórflokksins og hafa að mestu ráðið landstjórn um áratugi. Eru nú meiri sérhagsmunaflokkar auðs og kvóta en nokkru sinni fyrr. Bjánaflokkarnir tveir eru svo stjórnarandstaðan í fjórflokknum. Flytja ágætar hugmyndir og tillögur, en hafa ekki bein í nefi til að knýja þær fram. Ekki einu sinni þegar þeir skipa ríkisstjórn. Vesöld þeirra svíður fólki sárast, þegar það er hrakið til liðs við nýju flokkana.

Nýflokkar á Alþingi

Punktar

Píratar snerta streng hjá mörgu ungu fólki, sem sumt mundi ella ekki mæta á kjörstað. Það er flott. Greinilegt er, að píratar starfa eins og flokkur og geta háð kosningabaráttu í nýmiðlum á veraldarvefnum. Framtíðin er þarna, hálsar góðir. Lýðræðisvaktin minnir frekar á klúbb miðaldra vitringa, sem allir þekkja að góðu einu. Eiga hins vegar erfitt með svo veraldlegan hlut sem rekstur kosningabaráttu. Voru seinir í gang og seinir að komast á flug. Ég tel þó, að Vaktin muni fyrir rest ná inn þingmönnum. Líka Dögun, þegar fleiri átta sig á, að loforð Framsóknar eru ósvífin sjónhverfing og lygi.

Klisjan löguð til

Punktar

Klisjan segir, að þú getir platað flesta einu sinni, en getir ekki alltaf gabbað alla. Höfundur klisjunnar segir okkur ekki, að hlutföllin í dæminu eru misjöfn. Eiginlega ætti klisjan að hljóða svona: “Þú getur platað flesta einu sinni og fæsta aldrei. Ef þú ert Sigmundur Davíð geturðu platað 30% fólksins 70% tímans.” Aldrei fyrr hef ég verið viðstaddur kosningabaráttu, þar sem heimska og fáfræði of margra kjósenda ber ofurliði tilraunir til túlkunar. Óánægjufylgi úr öðrum flokkum gerir ekkert gagn hjá Framsókn, gerir bara illt verra. Ætti heldur að sitja heima eða skila auðu. Framsókn er eitur.

Misjafnir systurflokkar

Punktar

Flokkurinn og Framsókn eru eins flokkar í efnahags- og peningamálum. Enda eru formenn þeirra silfurskeiðungar auðstéttanna og gæta hagsmuna greifanna. En í mikilvægu atriði eru þeir misjafnir og það skýrir sókn Framsóknar á kostnað Flokksins. Framsókn skilur þjóðrembu Íslendinga og kom sér fyrir í forustu gegn IceSave. Skilur líka heimsku Íslendinga og kom sér upp skyndifixi á skuldavanda húseigenda. Lofar landslýð peningi fyrir ekki neitt, það elska Íslendingar eins mikið og þeir elska þjóðrembuna. Kjósendur Flokksins kunna betur við sig í hópi, er þjónar rembu þeirra, heimsku og græðgi. Í Framsókn, sem kann þetta bezt.

Fjórsaga um ferilinn

Punktar

Sigmundur Davíð er lygnasti pólitíkusinn á markaði. Er fjórsaga um menntun sína til að reyna að ýkja hana og fegra. Á alþingisvef er ein útgáfa, önnur á Linked-in, sú þriðja á fésbókarsíðunni. Fjórða útgáfan var í viðtali í Mogganum, þar sem hann segist vera kominn að lokum í doktorsnámi. Sem hann stundaði aldrei. Telur sig ýmist vera stjórnmálafræðing, arkitekt eða skipulagshagfræðing, allt eftir þægindum hverju sinni. Stýrir flokki, sem á Alþingi berst af hörku gegn þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá, en þykist í áróðri styðja sömu þjóðareign í stjórnarskrá. Sigmundur Davíð gerði Framsókn að landsins mestu sjónhverfingu.

SjálfstæðisFramsókn

Punktar

Skil vel, að fylgismenn Sjálfstæðisflokksins flykkist í Framsókn. Nokkurn veginn sami flokkurinn með meiri þjóðrembu og stórkarlalegri kosningaloforðum. Framsókn er stóriðjuflokkur, sem vill virkja alls staðar. Um það eru til vitnis þingmenn hans. Framsókn er kvótagreifaflokkur, sem hafnar ákvæðum í stjórnarskrá um þjóðareign auðlinda. Um það eru til vitnis þingmenn hans. Þrátt fyrir loforð flokksins um annað voru þeir harðari á þessu en Sjálfstæðis. Yfirvofandi gerðir flokka sjást af málflutningi á Alþingi, ekki af loforðum. Engu máli skiptir, hvernig kjósendur raðast á þessa tvo flokka. Saman eru þeir SjálfstæðisFramsókn.

Hugdettur stórforstjóra

Punktar

Sé Frosti Sigurjónsson höfundur tillögu Framsóknar um hókus-pókus peningakerfi, minnir það á annan stórforstjóra. Slíkir hafa jafnan um sig hjörð sýkkófanta, sem segja þeim daglega, að hugdettur þeirra séu frábærar. Þeir fara sjálfir að trúa þessu. Til dæmis Hermann Guðmundsson, sem hrökk frá N1 eftir dúndrandi tap. Hann þóttist til dæmis ætla að kenna útgefendum, hvernig ætti að gefa út bækur. Gaf út nokkrar. Þær seldust ekki og upplaginu var ekið á haugana. Þótt menn séu forstjórar stórra fyrirtækja, þýðir það ekki, að taka beri í alvöru hugdettur þeirra. Jafnvel Frosti hjá DoHop getur ekki galdrað peninga með sjónhverfingum.

Málefnahalli kosningafunda

Punktar

Kosningafundir ríkissjónvarpsins snúast mest um leiðigjörn og gamaldags mál fjórflokksins. Lítið hefur þar enn verið fjallað um einkavæðingu spítala og skóla, einkavæðingu auðlinda, fiskveiðistjórnun. Nánast ekkert um uppkastið að stjórnarskrá. Það var þó stóra málið á kjörtímabilinu og felur í sér ótal umbætur af lýðræðislegum toga. Ekkert er minnst á umhverfisvernd, né heldur um stöðu bankanna í samfélaginu. Fjögurra ára gamalt bankahrun hefur enn ekki verið gert upp. Meðan pólitíkusar komast upp með að flagga nýrri útgáfu gamall loforða á borð við peningagjafir til húseigenda. Helzt til eigenda stórra einbýlishúsa.

Valitor-greifi aðlaður

Punktar

Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri er dæmigerður fyrir óstand íslenzkra fjármála. Hann var forstjóri Valitor árin, sem bófafélagið braut samkeppnislög ítrekað á umsvifamikinn hátt. Forstjóri síbrotafélagsins var verðlaunaður með bankastjórn Arion banka. Menn ættu að hafa þetta bakvið eyrun, þegar þeir blaðra um, að nú þurfi að hætta að glápa í baksýnisspegilinn. Við þurfum einmitt að BYRJA að sjá í hann. Sjálfstæðis og Framsókn munu ekki bæta stöðuna neitt. Þvert á móti munu þessir pólitísku bófaflokkar stöðva málaferli. Samfylkingin og Vinstri grænir munu ekkert gera hér eftir sem hingað til. Öllum fjórflokknum þarf að sópa burt.

Næstu tölur spennandi

Punktar

Ellefu listar eru í boði í öllum kjördæmum og fjórir að auki sums staðar. Áhugaverðari framboð en fjórflokkurinn, sem hefur sýnt og sannað, að hann hefur gengið sér til húðar. Þjónar ekki þjóðfélagi nútímans. Tveir stærstu flokkarnir ganga beinlínis erinda þröngra sérhagsmuna kvótagreifa og annarra auðgreifa. Nýju stjórnmálaflokkarnir endurspegla hugsanir samfélags dagsins miklu betur en þeir gömlu. Því miður hefur flestum nýflokkum gengið illa að tosa fylgið í könnunum upp í markverðar tölur. Síðasti séns til þess verður í könnunum eftir þessa helgi. Margir bíða því spenntir eftir næstu tölum.

Fésbók og framboð

Punktar

Vandræði pírata með suma frambjóðendur geta valdið flokknum þingmannafækkun. Segja okkur, að almennt þurfi að vanda betur til vals. Einkum skoða fortíðina vel, þótt þeir séu aftarlega á listum. Annars lenda flokkarnir í hremmingum rétt fyrir kosningar, þegar upplýsingum er lekið. Vandinn mun aukast allra næstu árin, ekki bara í pólitík, heldur líka í atvinnu. Sumt ungt fólk er gálaust og lætur sér líka að á fésbókinni birtist myndir af því í fyllerís-samkomum. Eða birtur vafasamur texti, sleginn í ölvímu á lyklaborð. Fyrirtæki kíkja í fésbókina, þegar nýtt fólk er ráðið í vinnu. Ungæðishátturinn hefnir sín.

Hanna Birna hrunin

Punktar

Niðurstaða sviptinga í Sjálfstæðisflokknum um formennsku er, að áður góð staða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hrundi. Hún er ekki lengur vonarpeningur flokks, sem leitar að sjálfum sér. Stuðningsmenn hennar stóðu fyrir könnun í Viðskiptablaðinu um Bjarna Benediktsson og afsögn hans. Það finnst mörgum vera hnífstunga í bak. Friðrik Friðriksson varð að segja af sér formennsku í kosningastjórn kjördæmisins. Hann og Hanna Birna eru pólitískt tengd í hópi með Kjartani Gunnarssyni fyrrum forstjóra flokksins. Langur tími mun líða, áður en flokkurinn sættir sig við Hönnu Birnu. Það verður kannski aldrei.

Heimskan er vanmetin

Punktar

Stundum hef ég verið skammaður fyrir að segja Íslendinga heimska. Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi frekar vanmetið heimskuna en ofmetið. Bendi bara á rosalegt fylgi sjónhverfingamanna Framsóknar. Raunar má einnig segja, að aldrei hafi pólitíkus liðið fyrir að ofmeta heimsku kjósenda. Það sannast nú á Sigmundi Davíð. Tillaga hans um, að skattgreiðendur og leigjendur greiði niður ofurskuldir fjögurhundruð fermetra heimila, rennur ljúflega um kvarnir kjósenda. Hálfur Sjálfstæðisflokkurinn hljóp til Framsóknar. Í blindri trú á, að hægt sé að galdra hundruð milljarða úr töfrahúfu að hætti ársins 2007.