Þjóðin mun falla á prófi

Punktar

Á laugardaginn fer þjóðin í próf. Þar kolfellur hún sem fyrr. Hún á það svar eitt við svikum Samfylkingar og Vinstri grænna að fara úr öskunni í eldinn. Hún ætlar að kjósa meirihluta flokkanna tveggja, sem eiga mestan þátt í að koma þjóðinni á hausinn í hruni árið 2008. Helmingaskiptastjórnin gamalkunna blasir við, stjórn hinna efnuðustu með hagsmuni auðsins í forgangi. Lækkar skatta á því liði og hækkar skatta fátæklinga á móti og dregur úr velferð. Það eru ekki nýjar fréttir, hefur alltaf verið svona. En gullfiskaminni meirihluta kjósenda nær ekki heila viku til baka, hvað þá heilt kjörtímabil.

Allt á fullt – ekkert stopp

Punktar

“Brjálæði er að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur og vænta annarrar niðurstöðu.” Gott spakmæli, þótt ekki sé eftir Albert Einstein eins og sumir telja. Íslendingar eru mikið fyrir að endurtaka sig. Við höfum sára reynslu af ofkeyrslu í atvinnu og lántökum. Með tilheyrandi verðbólgu og að lokum með hruni. Nýjasta dæmið um slíkt er frá 2008. Nú eru Sjálfstæðisflokkur og Framsókn enn að bjóða sama “allt á fullt og ekkert stopp”. Lofa að sáldra yfir þjóðina peningum, sem ekki eru til. Allir skulu grilla bara og græða. Vonin mun þó ekki rætast, heldur er sama, gamla hörmungin bara endurtekin.

Fjórði hver sér ljósið

Punktar

Fjórflokkurinn er skipaður tveimur bófaflokkum og tveimur bjánaflokkum. Að kjósa bófaflokkana er fráleitt, en einnig vont að kjósa bjánaflokkana. Þeir skúruðu að vísu eftir hrunið, komu upp hagvexti og fullri atvinnu, komu svo og ríkisbúskapnum í jafnvægi. Eigi að síður sló hjarta bjánanna í takt við allan fjórflokkinn. Klúðruðu nýju skipulagi íbúðaskulda, þjóðareign auðlinda og nýrri stjórnarskrá. Allt reyndist þetta þykjusta án innihalds. Af ýmsum slíkum ástæðum hefur fjöldi kjósenda yfirgefið bjánaflokkana og styður ný framboð af ýmsu tagi. Nægir þó ekki, aðeins fjórði hver kjósandi sér ljósið.

Framsókn er vandinn

Punktar

Meðan Framsókn var í 10% fylgi var hægt að láta sér önnur vandamál í léttu rúmi liggja. En ástæða er til að hafa áhyggjur, þegar hún slær upp í 30% fylgi í könnunum. Þetta er spilltasti flokkur landsins með stórkarlalegustu loforðin upp í erminni. Og með forustu, sem fær kalt vatn til að renna milli skinns og hörunds. Ofan á loforð um glás af peningum fyrir almenning eru herforingjar hans farnir að tala um notkun ofbeldistækja, haglabyssur og kylfur. Þetta er ekki í lagi og verst er, að almenningur sér það ekki. Af gamalkunnu auðnuleysi mun hann láta teyma sig á asnaeyrum inn í kjörklefann.

Lýsing á litrófinu

Punktar

Stutt lýsing á pólitíska litrófinu: Sjálfstæðisflokkurinn: Bófaflokkur, sem annast hagsmuni kvótagreifa og annarra auðgreifa, lækkar skatta á auðmenn. Framsókn: Þjóðrembdur og lyginn bófaflokkur, annast hagsmuni kvótagreifa, rústar ríkisfjármálum. Samfylkingin: Undir stjórn hægri sjálfstæðismanns, sem eflir stjórn bófa á bönkunum. Vinstri grænir: Reisa stóriðju á Húsavík og annast hagsmuni Samherja, þegar á reynir. Björt framtíð: Tveir siðprúðir þingmenn vilja verða ráðherrar. Burt með þetta fúla lið. Kjósið einhvern af nýju flokkunum. Þeir gefa von, sem hvergi finnst í fjórflokki og varadekki.

Ferðalangur úr hrægammasjóði

Punktar

Frosti Sigurjónsson hvarf í kyrrþey úr stjórn vogunarsjóðsins Arctica, sem varð umdeildur upp úr hruni. Fannst viku síðar í efsta sæti á nyrðri lista Framsóknar í Reykjavík. Vogunarsjóðir þessir, sem keyptu eignir fyrir slikk eftir hrunið, eru af Framsókn nefndir “hrægammasjóðir”. Víða um vefinn heimta frammarar, að eignir þessara sjóða verði þjóðnýttar og þeir reknir öfugir úr landi. Þetta eru auðvitað ýkt viðbrögð fólks, sem varð fyrir tjóni í hruninu. Framsókn mun auðvitað ekki verða við þessum kröfum, þegar Frosti úr “hrægammasjóðnum” er orðinn fjármálaráðherra eftir yfirvofandi kosningar.

 

Kylfur og haglabyssur

Punktar

Látum vera, þótt Framsókn gangi allra flokka lengst í sölumennsku snákaolíu. Látum vera, að Framsókn lofi fólki gulli og grænum skógum. Ekkert nýtt. En dokum við, þegar helztu frambjóðendur flokksins grípa til óviðurkvæmilegra hótana. Hvað á Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við, þegar hann segir, að bezt sé að beita kylfunni? Og hvernig dettur Frosta Sigurjónssyni í Arctica í hug að segjast eiga haglabyssu heima? Og hvers vegna tekur Eygló Harðardóttir undir óðra manna rugl? Er eitthvað ekki í lagi hjá Framsókn? Hví eru þeir foringjarnir farnir að tala eins og Framsókn sé “Blut und Boden” flokkur?

 

Aldursgreinið vörðurnar

Punktar

Þjóðleiðir göngumanna og reiðmanna eru víðtækustu fornminjar landsins. Eru margar varðaðar og vörðurnar því með merkustu fornminjum okkar. Mosavöxnum steinum var hlaðið í vörðurnar og við það breytist mosinn, þannig að hægt er að aldursgreina hleðsluna. Flestar vörður voru endurhlaðnar, svo að þar má væntanlega finna hleðslusteina frá ýmsum tímum. Fróðlegt væri að komast að, frá hvaða tíma elztu hleðslusteinarnir eru. Til dæmis í vörðum á þekktum þjóðleiðum, svo sem á sögufrægri Biskupaleið um Ódáðahraun. Kannski er hún frá kaþólskum tíma. Þetta væri verðugt verkefni fyrir fornleifafræðing.

Lygin – ekki menntunin

Punktar

Umræðan um meinta menntun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar snýst um lygina, en ekki um gildi menntunar. Mér finnst eins og mörgum öðrum varhugavert að fá forsætisráðherra, sem er fjórsaga um menntun sína. Getur ekki einu sinni logið einfalt og skipulega um hana, heldur hrekst úr einni lygi í aðra. Við sjáum beint samband milli þessa og sjónhverfinga Framsóknarformanns um að kasta hundruðum milljarða í peningaþyrsta einstaklinga. Fremsti sölumaður snákaolíu í landinu lýgur bæði um menntun sína og fyrirhugaðar gerðir sínar sem forsætisráðherra. Því miður hafa hinir peningaþyrstu slökkt á heilanum.

Sérstæðir vísindamenn

Punktar

Ein margra lyga stjórnarandstöðunnar í kosningabaráttunni er, að vísindamenn hafi raðað virkjunarkostum í svonefndri Rammaáætlun. Þeir voru pólitíkusar, Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður frá Sjálfstæðisflokki, Elín R. Líndal varaþingmaður frá Framsóknarflokki, Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri frá Samfylkingunni og Hjörleifur Kvaran hjá Orkuveitunni. Enginn þeirra getur flokkast sem vísindamaður. Flokkurinn og Framsókn vilja hverfa aftur að sérstæðum tillögum þessa fólks. Enda var rammaáætlunin, sem frá þeim kom, nánast bara óskalisti orkufyrirtækja fyrir hrun. Úrelt plagg einskis virði.

Undrandi útlendingar

Punktar

Egill Helgason vekur athygli á, að erlendir blaðamenn eru hissa á óvinsældum ríkisstjórnar Íslands. Þeim finnst hún hafa “staðið sig vel – með lítið atvinnuleysi, lítinn ríkissjóðshalla og nokkurn efnahagsbata.” Rétt er það miðað við venjuleg viðmið á vesturlöndum, menn skoða atvinnu, ríkishalla og hagvöxt. En fleira hangir á spýtunni. Stuðningsfólki ríkisstjórnarinnar var lofað aðgerðum í stjórnarskrá, afskriftum húsnæðislána og upplýsingafrelsi, sem runnu út í sandinn. Á alþingi gáfust stjórnarsinnar upp fyrir taumlausri frekju bófaflokkanna. En að mestu byggjast óvinsældirnar á heimsku kjósenda.

Stjórnarskráin dauðvona

Punktar

Þegar kosið var um helztu atriði nýrrar stjórnarskrár, greiddi annar hver kjósandi atkvæði. Mikill meirihluti þeirra studdi stjórnarskrána, margir tugir þúsunda manna og kvenna. Hvar er allt þetta fólk núna, þegar óvinir nýrrar stjórnarskrár virðast hafa upp undir 60% atkvæða? Hvers vegna mælist fylgi Lýðræðisvaktar í könnunum bara upp á örfá þúsund kjósendur? Ættu að vera nokkrir tugi þúsunda. Menn segja, að stjórnarskráin sé neðarlega á áhugalista margra, sem studdu hana í þjóðaratkvæðinu. En fyrr má nú rota en dauðrota. Fari svo, sem horfir, er ný stjórnarskrá hreinlega dauðans matur.

Þáttaskil í verðmætamati

Punktar

Fallinn er meirihluti fyrir eyðileggingu náttúruverðmæta vegna orkuvera og fleiri stóriðjuvera. Helmingur þjóðarinnar er samkvæmt könnunum andvígur virkjun Bjarnarflags. Og helmingur þjóðarinnar er andvígur fleiri álverum en þegar hafa verið reist. Aðeins þriðjungur styður virkjun Bjarnarflags og aðeins þriðjungur styður fleiri álver. Veruleg breyting á þjóðarviljanum, sem rímar að vísu illa við stuðning meirihlutans við flokka stórvirkjana og stóriðju, verðbólguflokkana tvo. Ljóst er þó, að senn má búast við harðnandi styrjöld milli stuðnings og andstöðu við stórvirkjanir og stóriðju.

Burt með fimmta gírinn

Punktar

Nýr forstjóri greiningardeildar Arion banka er jafngalinn og fyrirrennarinn, sem frægur var í hruni. Sú nýja vill, að atvinnulífið fari úr fyrsta gír í svokallaðan fimmta gír. Hún er dæmi um bankabjána, sem hefur ekkert lært af hruninu. Atvinnulífið er í góðum gír, sem sést af lágum atvinnuleysis-tölum. Allt óráðshjal um gífurlega innspýtingu verkefna er ávísun á fjölbreytt böl. Efst þar á blaði er verðbólga og skuldsetning. Líka óþolinmóðir samningar um stóriðju á grunni gjafaverðs á orku frá alltof skuldsettum orkuverum. Höfum fengið upp í kok af slíku. Og fengið nóg af óðs manns hjali um fimmta gír.

Hinir seku eru fundnir

Punktar

Einkennilegt þetta fólk, sem ráfar fram og aftur milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Varla eru þeir sauðir, er geta fært sig milli flokka, sem áður töldu sig höfuðandstæðinga í pólitík. Þetta er fólk í fýlu, sem veit ekki, hvað það á að gera í málinu. Rúmast í þröngum kassa hægra megin við miðju. Telur sig ekki geta kosið til vinstri, enda er þar fátt um fína drætti. Enn síður getur það meðtekið nýjar skoðanir, sem fara á skjön við gamla hægri-vinstri tvívídd. Þetta ráfandi lið pólitískra analfabeta í vanhæfri fýlu ber þyngstu sök á, að þjóðin spólar í hjólfari úreltra stjórnmála hrunverjanna.