Þriðja lögmál Jónasar

Punktar

Athyglisvert er, að Samfylkingin fer mun verr út úr kosningunum en Vinstri græn, missa meira en helming fylgisins. Skýringin gæti verið, að hjá Vinstri grænum lukkuðust formannaskipti, en ekki hjá Samfylkingunni. Athyglisvert er líka, að fylgi Pírata úr könnunum skilaði sér ekki í kjörklefum. Unga fólkið þar nennir að tjá sig, nennti ekki að kjósa. Það er nefnilega reginmunur á að tala og að gera. Þetta lögmál Jónasar nr.3 gildir líka um Framsókn. Þegar bjánarnir koma þangað með betlibaukinn og bíða eftir fossi peninga, þá kemur enginn foss. Það var bara loforð og þau hafa ætíð verið á föstu gengi, 0,00.

Bófar endurheimta ríkið

Punktar

Bófaflokkarnir tveir náðu ríkinu á sitt vald í kosningunum með 50% atkvæða og 60% þingmanna. Framsókn er þar sigurvegarinn. Bjánarnir halda hana munu dreifa peningum til sín. Taparar eru Samfylkingin og nýju flokkarnir, sem urðu til á grundvelli Búsáhaldabyltingar og ferils stjórnlagaráðs. Píratar ná einir inn þingmönnum. Skekkja kannana var önnur en ég vænti, ný framboð fengu undir spám. Dauð féllu um 15% atkvæða. Dauðar eru því hræringar í samfélaginu, sem hófust eftir hrunið. Aftur kominn hinn gamli tími helmingaskipta bófaflokka auðs, kvóta og aðstöðu. Kjósendur ákváðu það sjálfir í gær.

Spennandi bið eftir tölum

Punktar

Sjaldan hefur verið eins spennandi að bíða eftir kosningatölum. Meira en þriðjungur kjósenda hafði ekki gert upp hug sinn í gær. Þetta fólk hugsar vonandi öðruvísi en þursar, sem kusu snemma þá flokka, sem þeir hafa alltaf kosið í blindni. Nokkrir flokkar voru í gær á jaðri þess að ná inn þremur mönnum hver og ná vonandi allir inn í dag. Haldið þið ekki, að munur væri að hafa svo sem tólf þingmenn af nýjum listum? Altjend er ljóst, að í því tilviki gætu bófaflokkar Sjálfstæðis og Framsóknar ekki myndað ríkisstjórn. Í þágu kvótagreifanna og auðstéttanna, forréttinda og pilsfaldakapítalisma.

Skældar kannanir

Punktar

Skoðanakannanir reynast meira eða minna skældar að þessu sinni. Aðferðafræði gamalla tíma hentar ekki nýjum kringumstæðum. Þegar ég skipulagði kannanir fyrir fjörutíu árum, höfðu allir heimasíma, enginn hafði gemsa eða skype. Og nú skoða enn ekki allir tölvupóst daglega. Þá var hægt að ætla, að óákveðnir kjósendur hefðu næstum sömu skoðanir og ákveðnir. Þá náðist í miklu stærri hluta úrtaks. Ég vildi ekki vera könnuður eða ritstjóri núna, þegar allt er í deiglu, framboð fjölmörg og þriðjungur gefur ekki upp hug sinn. Býst við, að sumar tölur, er koma upp úr kössunum í nótt, muni koma mörgum í opna skjöldu. Fínasta mál.

Lýðræði hindrar eftirmál

Punktar

Lýðræði er ágæt aðferð til að leysa deilumál án hættulegra eftirmála. Kosið er og niðurstaðan gildir. Meirihlutinn ræður. Lýðræði er hins vegar ekki aðferð við að bæta samfélagið. Meirihlutinn stígur nefnilega ekki í vitið. Eins og sjá má af, að nærri hálf þjóðin styður Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn, höfunda hörmunga hennar. Fólk trúir stefnuskrám, jafnvel loforðum! Það trúir á framgöngu höfðingja, þótt siðblindingjar geti leikið hvaða hlutverk sem er. Í öðrum aðferðum við að stjórna þjóðfélaginu eru líka gallar. Kostur lýðræðis er, að þar ímyndar þú þér, að þú ráðir einhverju.

Dauf kosningabarátta

Punktar

Kosningasjónvarp sinnir skyldunni vel. Ver mörgum klukkustundum í alls kyns uppistand. Pólitíkusar koma fram og fá að haga sér eins og fólk, ekki eins og þeir hafa gert í þingsal. Ný framboð hafa fengið að sýna sig. Allt er það gott, en slagsíðan er þó á loforðum. Minna talað um gerðir og þannig sleppa gömlu flokkarnir billega. Að öðru leyti eru kosningarnar daufar. Sáralítið er um auglýsingar, hvort sem ég lít í blað, sjónvarp eða biðskýli. Formönnum er ekki hampað eins og síðast, líklega skammast sumir flokkar sín fyrir þá. Jafnvel bloggið er dauft. Væri ekki fésbók, mætti halda alla vera á Kanarí.

Kannanir þróast notalega

Punktar

Þróun skoðanakannana síðustu daga hefur verið notaleg. Fylgi bófaflokkanna tveggja dalar í takt. Með sama framhaldi verða Sjálfstæðis og Framsókn búin að glata stjórnarmeirihlutanum, þegar birtir af degi. Versta hugsanlega útkoman er meirihluti þingmanna hjá bófaflokkum silfurskeiðunga, sem berjast fyrir bættum hag auðstétta á kostnað almennings. Kannanir síðustu daga sýna, að sú niðurstaða er ekki sjálfgefin. Skipting þeirra, sem ákveða sig núna, er önnur en skipting þeirra, sem áður voru ákveðnir. Enn á þriðjungur okkar eftir að ákveða sig og þeir geta hindrað yfirtöku bófaflokka á samfélaginu.

Dauða fylgið fundið

Punktar

Las um daginn, að dauða fylgið muni færa hinum ríku völdin í landinu. Það er rétt, en dauða fylgið er annað en það, sem menn halda. Dauða fylgið er það fylgi, sem greitt er Samfylkingunni, Vinstri grænum og Betri framtíð. Við vitum af reynslunni, að þingmenn þessara flokka munu ekki standa gegn græðgi flokka auðsins. Munu áfram lyppast niður eins og þeir hafa gert síðustu ár. Meiri von er í nýjum framboðum. Sum þeirra munu fá þingmenn og önnur ekki. Samt fellur ekkert af þessum atkvæðum eins dautt og atkvæði greidd þeim, sem þykjast gæta hagsmuna fólksins, en gera það ekki. Við höfum bitru reynsluna.

Framsókn rotaðist

Punktar

Þetta er náðarhöggið hugsaði ég, þegar ég opnaði Fréttablað dagsins. Þarna rotaðist Framsókn og getur ekki reddað sér á einum degi. Blaðið kannaði stóru gjöfina Framsóknar og fann, að hún felur í sér tuttugu milljarða skatt á landsbyggðina. Á landsbyggðina! Blaðið talaði við Frosta, sem brá svo, að hann viðurkenndi í fyrirsögn að hafa ekki skoðað dreifingu fjárins. Svona er þetta með forstjórana, sem trúa, að þeir séu sjálfir svo ofsalega sniðugir. Hókus-pókus hans var úr fókus. Fréttin er skotheld. Nú er Framsókn loksins komin á flótta og fylgið lak af henni í dag. Illur fengur illa forgengur.

Kosningar auðfólksins

Punktar

Sigurvegarar kosninganna á laugardaginn verða hinir ríku. Er urðu ríkir á aðgangi að fjármagni og annarri fyrirgreiðslu, sem almenningi er ekki opin. Loforð Framsóknar og Sjálfstæðis snúast um flatar gjafir, sem lenda að mestu leyti hjá ríkum vinum silfurskeiðunga. Kúgaðir fátæklingar ættu að mótmæla kosningaloforðunum. Þau fela í sér hótun um tilfærslu tugmilljarða króna til yfirstéttar og höfuðborgarsvæðis. Aularnir skilja þetta ekki, heldur þramma í breiðfylkingum til örlaga sinna. Halda, að Framsókn og Sjálfstæðis muni galdra fram að nýju blessað árið 2007, þegar þjóðin djammaði á dýrum lánum.

Góð staða ríkisins

Punktar

Þótt sumt hafi farið illa á ferli ríkisstjórnarinnar, hefur hún gert fjármál ríkisins heilbrigð að nýju. Hagnaður er af rekstri ríkisins aldrei þessu vant, þótt flest vestræn ríki búi við halla. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur reiknað þetta. Þegar fjármagnsliðir eru reiknaðir inn, kemur út 1% halli hér, en 7% í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þetta sýnir, sem sífellt er að koma betur í ljós, að vinstri stjórnir eru sparsamari en hægri stjórnir. Það er líka gott, að vinstri stjórnin hér búi í haginn fyrir verðandi sukk hægri stjórnar undir forustu Framsóknarflokksins, sem lofar fólki gullregni.

Dagur gullfiskanna

Punktar

Laugardagurinn næsti er dagur gullfiskanna. Þá streyma þeir á kjörstað og nærri annar hver mun kjósa kvalara sína. Gullfiskar setja X við flokka, sem gæta hagsmuna auðsins og handhafa hans. Velja formenn, sem fæddir eru með silfurskeið í munni og vita ekkert um líf og vandamál venjulegs fólks. Svo gleymnir eru Íslendingar, að bófar stjórnmálanna geta endurnýtt loforð sín á fjögurra ára fresti. Gullfiskarnir eru þá fyrir löngu búnir að gleyma. Heyra bara, hverjir lofa mestu brauði og mestum leikjum. Nú lofa þeir kræfustu að láta skuldir fólks hverfa með hókus pókus. Það er gaman að vera gullfiskur.

Eyðing atkvæðaseðils

Punktar

Glæpsamleg heimska er að kjósa yfir sig Sjálfstæðis og Framsókn aðeins fimm árum eftir hrun. En líka er vont að kjósa Samfylkinguna og Vinstri græn. Það er eins og að kasta atkvæðinu í ruslatunnu. Höfum reynslu af því. Þessir ræflar hafa ekki bein í nefi til að standast frekju og yfirgang bófaflokka, sem telja það vera rétt sinn að ráða öllu. Þess vegna sviku Samfylkingin og Vinstri græn stjórnarskrána og þjóðareign auðlinda. Betra er að kjósa nýja flokka en þá, sem við vitum að eru gagnslausir. Taktísk atkvæðagreiðsla af ótta við of rýrt fylgi nýflokka er næsti bær við eyðileggingu atkvæðisins.

Próflausi Hriflu-Jónas

Punktar

Jónas frá Hriflu fór til útlanda í skóla, en tók engin próf. Ekki ómerkari pólitíkus fyrir að vera próflaus. Enda flaggaði hann aldrei námi sínu, taldi sig bara vera að auka lífsreynsluna. Sigmundur Davíð fer öðru vísi að. Ótal sinnum hefur hann stært sig af námi erlendis, þótt hann hafi aldrei tekið þar nein próf, ekki kennarapróf, ekki meistarapróf, ekki doktorspróf. Hefur sveipað sig ýmsum titlum, sem hann hefur ekki rétt til að bera. Segist hafa verið í undirbúningi doktorsnáms án þess að hafa um það tilskilin vottorð. Öfugt við Jónas frá Hriflu vill Sigmundur Davíð sýnast meiri en hann er.

Tröllin eiga múginn

Punktar

Er bara inni í mínum helli eins og flestir aðrir. Heyri umferðarhávaða af pólitík, sumpart í bloggi, en mest á fésbók. Finn þar ekki þennan hófaslátt Framsóknar, sem kannanir boða okkur. Heyri bara í fólki, sem er reitt og sárt út í mállausan múginn, sem vill færa okkur tröllastjórn Sjálfstæðis og Framsóknar. Fyrir mér er samfélagið klofið í tvær þjóðir, sem ekki þekkjast. Fjölmenni hópurinn kýs meirihluta í þágu hagsmuna auðs og græðgi. Gegn þeim múgi dugar hvorki stuðningur við svikula stjórnarflokka né margs konar góð nýframboð. Fyrir mér eru einhver tröll þarna úti að hertaka þjóðfélagið.