Dauðaleit að lausn

Punktar

Vandinn við loforð Framsóknar er, að ekki er hægt að efna það. Ekki er bara erfitt að efna það, heldur er líka erfitt að ljúga sig út úr því. Sigmundur Davíð gefur kost á öðrum aðferðum við millifærslu, en pólitískir viðmælendur hans finna enga lausn heldur. Það er botn íslenzks lýðræðis, þegar kjósendur hafa samþykkt loforð, sem engin leið er að efna. Þótt voðalegir útlendingar, sem af hagkvæmnisástæðum eru kallaðir hrægammar, vilji slá af kröfum, verða ekki til peningar. Ofurskuldir verða bara minni. Einfaldara er að hámarka ruglið, láta Frosta prenta verðlausa seðla villt og galið og senda okkur?

Söltum Evrópuaðild

Punktar

Ég hef alltaf verið stækur Evrópusinni, vildi beint í sambandið, burtséð frá viðræðum um hina og þessa kafla. Taldi það beztu leiðina undan áþján lélegra pólitíkusa og kontórista á Íslandi. Tel regluverk Evrópu vera það bezta, sem við höndlum af nútímanum. Hins vegar tel ég óráð að ganga í bandalagið núna. Það horfist í augu við mistök í evru, Schengen, Maastricht og stjórnarskrá. Sambandið þarf að læra af reynslu, breyta þessum plöggum og semja peninga- og bankasamning. Áður en það getur tekið við fleiri ríkjum. Heppilegt er, að viðræðurnar við Evrópu verði saltaðar og við þýðum áfram evrópskt regluverk.

Bjarni maríneraður

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fer ágætlega í viðræður um nýja ríkisstjórn. Aflar sér upplýsinga um, hvað sé fast í hendi einstakra flokka. Og hvaða flokkar séu líklegir til að þola helztu mál Framsóknar, einkum skuldamál heimilanna. Hins vegar gengur þetta afar hægt hjá honum. Hálfan annan dag að komast að atriðum, sem hægt er að fá botn í á einum formiðdegi. Líklega er hann að marínera viðmælendurna í leiðinni. Greinilegt er, að kringum Bjarna Benediktsson urðu menn strax taugaveiklaðir. Enda orðnir ruglaðir í ríminu af langvinnum valdaskorti. Með hverjum deginum verður Bjarni meðfærilegri.

Gylfi hótar þjóðarsátt

Punktar

Ég fær kvíðaherping í magann, þegar ég sé umba stóriðju, Gylfa Arnbjörnsson verkalýðsrekanda, í sjónvarpi. Í gær var hann að hóta enn einni þjóðarsátt um hagsmuni stórfyrirtækja. Hvaðan hefur hann þetta áhugamál? Ekki frá fólki í verkalýðshreyfingunni, það er mér ljóst. Að venju talar Gylfi fyrir hönd og málstað atvinnurekenda, sem vilja frið fyrir launakröfum. Hleypur með þetta í sjónvarpið án þess að spyrja neinn í verkalýðshreyfingunni. Þar með staðfestir Gylfi, að verkalýðshreyfingin hefur engan eigin vilja. Endurómar bara það, sem vinirnir í vinnuveitendasambandinu og lífeyrissjóðunum vilja.

Haldið aftur af glæfrum

Punktar

Vonandi setja pólitíkusar Sigmundi Davíð það skilyrði, að skattgreiðendur verði ekki látnir borga sjónhverfingar hans. Og ekki heldur með milligöngu Íbúðalánasjóðs. Pólitíkusarnir fallist á afskriftir af lánum bara á kostnað svokallaðra hrægammasjóða, ekki á kostnað innlendra aðila. Þannig er hægt að hemja tjónið af loforðinu. Annars fer allt á hlið og allir tapa, mest þeir, sem ganga til samstarfs við formann Framsóknar. Sigmundur Davíð hefur bara fjórðungs fylgi; maður verður að vona, að samstarfið haldi aftur af glæfrum hans. Kostur við samstjórnir er, að þær auka líkur á raunsærri málsmeðferð.

Taparinn vill respekt

Punktar

Bjarni Benediktsson á bágt. Hefur í tvígang teflt Sjálfstæðisflokknum í verstu kosningaúrslit sögunnar. Flokkur, sem áður sló ítrekað yfir 40%, er nú að festast í um það bil 25%. Í því felst ósigur. Fyrr í vetur fylltist æðstaráð flokksins hroka og sigurvissu, sem lýsti sér síðan í sérstæðum landsfundi og skrautlegum ályktunum. Bjarni var of hlýðinn bílstjóranum í aftursætinu. Davíð Oddsson stjórnaði ferð hans út í einstrenging. Nú lætur Bjarni sem hann sé móðgaður, því að Sigmundur Davíð hagar myndun stjórnar með ró að hætti sigurvegarans. Taparinn þykist eiga skilið meiri respekt.

Dagur verkalýðsrekenda

Punktar

Dagur verkalýðsrekenda er í dag. Hátíð verkalýðsdeildar atvinnurekenda er haldin í skugga græningja, sem benda á úrkynjun Alþýðusambandsins. Þar er rekin verðbólgustefna með kröfum um að skrúfa upp hagkerfið með illkynja hagvexti. Einkum með meiri stóriðju, sem verkalýðsdeildin elskar eins mikið og hún hatar umhverfisvernd. Hugtakið hagvöxtur er þó bara bull utan um ekki neitt. Því meira sem tveir aðilar selja hvor öðrum oftar sömu vöruna, því meira eykst svonefndur hagvöxtur. Alþýðusamband Gylfa Arnbjörnssonar vinnur með auðgreifum í stjórnum lífeyrissjóða. Hirti þar upp lífsskoðanir þeirra.

Þokutjáning formanns

Punktar

Að svo miklu leyti sem Árni Páll Árnason hefur skoðanir eru þær ættaðar úr bankageira Sjálfstæðisflokksins. Samanber feril hans sem bankaráðherra. Að öðru leyti er hann illskiljanlegur, líkist þar Degi Eggertssyni. Því lengur, sem þeir tala, því minna skil ég. Þannig er sumt Samfylkingarfólk, virðist hugsa í hringi. Í ræðum þess leiðir eitt af öðru, en rökrétta beinagrind vantar. Kannski afleiðing svonefndra samræðustjórnmála, samtal við sjálfan sig. Þótt fleira sé að í flokknum en Árni Páll einn, þá er þokutjáningin hluti vandans. Getur ekki tjáð sig þannig, að fólk segi: Já, einmitt, rétt.

Formaður brosir hringinn

Punktar

Mikilli hreinsun er að mestu lokið hjá Vinstri grænum. Framsóknarmennirnir leiðinlegu eru flestir horfnir. Eftir situr hvanngrænt fólk í fylgispekt við Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur pólitíska teflon-húð og brosir hringinn. Eiginlega eru engir eftir til vandræða nema gamlingjar fjórflokksins,  Ögmundur og Steingrímur, sem ættu að vera fyrir löngu hættir. Eða flúnir í Framsókn með Vaðlaheiðargöng, Húsavíkurver og ást á kvótagreifum. Endir hins pólitíska ferils varð einkar snautlegur hjá Steingrími, þegar menn fóru að ruglast á honum og Möllernum. Þar fyrir utan er flokkurinn orðinn heillegur.

Vikulegi klofningurinn

Punktar

Smám saman heyrast hálfar og heilar fréttir af sundrun Dögunar. Einn segir Andreu Ólafsdóttur hafa hafnað framboði Þorvalda Gylfasonar og viljað stýra öllu. Andrea segir Lýð Árnason hafa klofið Lýðræðisvaktina út úr flokknum. Flokkur heimilanna sé líka klofningur, bæði framboð byggð á eins manns egó. Friðrik Þór Guðmundsson segir Pírata líka vera klofning úr Dögun. Allt er þetta mjög forvitnilegt. Hvernig verður flokkur til, hvernig sogast menn að starfinu og af hverju klofnar flokkurinn vikulega kruss og þvers. Er ekki að tala um að finna sökudólg, heldur bara heyra um sérstæð samskipti fólks.

Bjarni og heita kartaflan

Punktar

Framsókn er heit kartafla í hendi Bjarna Benediktssonar. Á hann að taka séns á sjónhverfingum Sigmundar Davíðs og Frosta? Hvernig getur Bjarni haldið á heitu kartöflunni í ríkisstjórn? Er hægt að búa til nýja sjónhverfingu og segja fávitum flokkanna, að hún sé tillaga Framsóknar? Þótt hún sé það ekki, heldur bara nýr hókus-pókus. Framsókn lofaði miklu og fékk fávitafylgi út á loforð. Varla dugir að kasta því ferli bak við sig. Eitthvað verður að gera, sem felur í sér bókstaf tillögu Framsóknar. en ekki innihald. Því er Bjarni Benediktsson ekki öfundsverður af samstarfi um framkvæmd loforða Framsóknar.

Fólk forðast huglausa

Punktar

Stjórnarflokkarnir gömlu geta sjálfum sér kennt um fylgishrunið. Smám saman glataði meirihlutinn meirihlutanum. Varð að reiða sig á stuðning annarra til að ná málum fram, til dæmis fjárlögum. Jafnframt glötuðu einstakir þingmenn kjarki til að stjórna, einkum forseti Alþingis og innanríkisráðherra. Það er sama, hvor málstaðurinn var réttur í endurteknu málþófi. Fólkið sá ráðamenn, sem létu reka í lífsins ólgusjó. Með eitt markmið að hanga í sessi til enda kjörtímabilsins. Mörg helztu framfaramál þeirra dagaði uppi, þegar þau mættu froðu í málþófi. Kjósendur forðast stjórnendur, sem þora ekki að stjórna.

 

Reiðir grettu sig

Punktar

Kosningabaráttan var að mestu háð í sjónvarpi, í fjölmennu uppistandi að hætti sjónvarpsþáttarins Borgen. Sjónvarp er kaldur miðill, þar sem fólk má ekki skipta skapi eins og gerðist í einu tilviki í Borgen. Mjög fróðlegur þáttur um framkomu. Slíkt gengur á útifundum og á prenti, ekki í sjónvarpi. Reiðir menn með grettur fæla frá sér. Þannig töpuðu ýmsir flokkar heimila og stjórnarskrár. Fulltrúar þeirra kunnu ekki þau almannatengsli að stilla skap sitt á skjánum. Enda náði ekkert þessara framboða neinum fulltrúa á alþingi. Fylgisleysi þeirra var svo yfirþyrmandi, að málefni þeirra eru steindauð.

Undarleg afskiptasemi

Punktar

Forseti Íslands getur ekki bundið hendur nýrrar ríkisstjórnar með kröfu um aukinn meirihluta. Orð hans um víðara traust eiga sér enga stoð í lögum. Ríkisstjórn styðst við meirihluta Alþingis, punktur. Ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda ríkisstjórn, þarf hún ekki að taka upp einhver mál annarra flokka til að fá aukið traust. Það er á valdi þingmeirihluta hennar eins að ákveða, hversu mikið er hlustað á minnihlutann. Ólafur Ragnar Grímsson er enginn úrskurðaraðili um slíkt. Ástæða er að vara við ítrekuðum flugeldasýningum hans í afskiptasemi af eðlilegu ferli löggjafarvaldsins.

Þar vantar normalt fólk

Punktar

Vandi Bankasýslu ríkisins er ekki, að hún fylgist með bankabófum, heldur að hún lítur ekki eftir þeim. Sami vandi og Fjármálaeftirlitsins. Stofnanir þessar eru gegnsýrðar hugsunum bankabófa. Lausnin er ekki að afnema þær, heldur skipta um hugarfar í þeim. Setja þar inn siðfræðinga og heimspekinga, sem hafna rugli manna eins og Gunnars Helga Hálfdanarsonar. Bankasýslan og Fjármálaeftirlitið hafa misst inn hreinræktaða bankabófa sem bankastjóra og bankaráðsmenn. Bankavandi okkar er, að ríkisstjórninni láðist að skipta út í bönkunum, sem settu okkur á hausinn. Mistókst að setja þar inn normalt fólk