Heimskt eða viturt Excel

Punktar

Vissulega er forritið Excel hættulegt og hefur leit margan fræðinginn á villigötur. Reikningur hefur tilhneigingu til að skilja brýna þætti eftir utan dæmis. Athyglisverð eru þó atriði í niðurstöðum samráðavettvangs um aukna hagsæld. Þar kemur fram, að íslenzka grunnskólakerfið er óvenju dýrt. En skilar þó litlum árangri samkvæmt fjölþjóðlegum Pisa prófunum. Nefndin útskýrir misræmið þannig: Vinnutími kennara fer of mikið í skipulag og stjórn, en of lítið í kennslu, 34%. Á Norðurlöndum fer 40-50% vinnutímans í kennslu. Þessar tölur tala sínu máli og þeim verður ekki sópað af borðinu.

Geir barst ekki á

Punktar

Þegar ég var yngri, flaggaði yfirstéttin ekki auði sínum. Lífsstíll hennar var í grundvallaratriðum svipaður og annarra. Bjó jafnvel á hæð í tvíbýlis- og þríbýlishúsi. Geir Hallgrímsson barst ekki á, þótt ríkur væri. Síðan kom kenning Hannesar Hólmsteins: “Græðgi er góð”. Þá hófst geggjun, sem endaði með hruni á ofanverðu 2008. Eitthvað brast í höfðinu, nýríkir fóru að berast á, flagga auði. Þjóðin samþykkti. Svo langt gekk ruglið, að 40% þjóðarinnar lögðu á sig aktygin. Veittu tveim silfurskeiðungum brautargengi til að mynda stjórn í glæsilegum sumarhöllum ættanna. “Auðstétt með auðstétt” er málið.

 

Ég um mig frá mér til mín

Punktar

Hallgrímur Óskarsson samskiptafræðingur telur, að meira en áður sé um, að fólk hugsi mest um sjálft sig. Það er “ég um mig frá mér til mín” kynslóðin. Um hana er fjallað á nýjustu forsíðu Time, “Me-Me-Me” kynslóðin. Þetta fólk hugsar minna um heildina og meira um, hvað það hafi sjálft út úr hlutunum. Sjálfhverft fólk er mjög veikt fyrir innantómum loforðum, sem fela í sér eftirgjöf skulda. Þannig vann Framsókn þingkosningarnar. Vegna sjálfhverfu eru kjósendur ófærir um að gegna hlutverki sínu. Þeir hlaupa bara eftir þeim, sem leiða þjóðina “veginn til vítis”, sem “varðaður er góðum áformum.”

Verkefni handa doktorista

Punktar

Búinn að týna enskri bók um vísindi á alþýðumáli. Þar var meðal annars sagt, að vinstri handar vettlingur, sem færi kringum heiminn, kæmi til baka sem hægri handar vettlingur. Innhverfa yrði úthverfa, og svo framvegis. Þetta var einhver Einsteinsk skýring, sem ég skildi ekki. Hins vegar tel ég, að þetta geti átt við pólitíkina. Hægri maður, sem fer svo langt til hægri, að hann missir jarðsamband og þýtur umhverfis heiminn, kemur til baka sem vinstri maður. Og öfugt. Höfum við ekki dæmi um, að fólk færi sig af einum jaðri til þess eins að birtast aftur á hinum jaðrinum. Er það Einsteinskt?

Veruleikafirrt kauptilboð

Punktar

Tilboð í hlutabréf benda til, að margir hafi lítið lært af hruninu. Einkum standa eftirlitsaðilar sig illa. Leyfa mönnum leggja fram kauptilboð upp á milljarð króna, þótt ljóst sé, að þeir séu engir borgunarmenn. Er að verða eins og í aðdraganda hrunsins, þegar græðgin hljóp með braskarana í gönur.  Markaðsverð hlutabréfa endurspeglar veruleikafirringu þeirra. Hún mun fyrr eða síðar koma í kennitöluflakki niður á þjóðinni. Hér á landi eru menn svo áhættufíknir, að eftirlit þarf að vera óvenjulega strangt. Það er hlutverk eftirlits að hindra siðblinda fíkla í að hleypa öllu aftur í bál og brand.

Hættulegir verkfræðingar

Punktar

Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki burði til að hafa eftirlit með vatnsöryggi höfuðborgarsvæðisins. Olíutankurinn, sem datt úr þyrlunni, er dæmi um, að vinnuferli eru í ólagi. Orkuveitan hyggst stefna vatnsöryggi okkar í voða með lagningu raflínu yfir Heiðmörk. Lagning slíkrar línu veldur miklu raski. Reynsla er fyrir því, að þar á bæ er staðið glannalega að verkum. Og þar á ofan finnst verkfræðingum Orkuveitunnar í lagi að leggja risavaxin rör út og suður um orkuöflunarsvæði. Allur Reykjanesskagi er í hættu fyrir verkdólgum Orkuveitunnar og HS Orku, sem hafa sannað vanhæfni í umgengni við umhverfið.

Að poppa upp fjölmiðil

Fjölmiðlun

Alexander Hjort í framhaldsþættinum Borgen er dæmigerður fyrir markaðshyggju á kostnað ritstjórnar. Spennan milli hans og Torben Friis fréttastjóra er menúett, sem víða er stiginn á ritstjórnum. Í þættinum snerist það um, hvort Hjort mætti poppa upp umræðuþátt flokksformanna í sjónvarpi. Frægasta dæmið um dansinn var Mark Willes, sem varð útgáfustjóri Los Angeles Times. Hugðist auka söluna um hálfa milljón kaupenda með markaðshyggju. En tapaði hálfri milljón kaupenda. Siðleysið rústaði þessu áður fræga dagblaði. Sumt í Borgen snýst óbeint um spennu raunverulegs valdatafls og það eykur gildi þáttanna.

Tillaga að stjórnarsáttmála

Punktar

1. Vín selt í 24×7 búðum, svo silfurskeiðungar fái ætíð hvítvín með humri.
2. Skattprósenta flöt, svo silfurskeiðungar geti keypt meira hvítvín.
3. Niðurfærsla stórskulda, svo silfurskeiðungar geti keypt meiri humar.
4. Lækkuð renta á aflakvótum, svo silfurskeiðungar geti keypt atkvæði.
5. Meiri Moggastyrkir ríkisbankans, svo áróður silfurskeiðunga eflist.
6. Fleiri Macau-vafningar, svo silfurskeiðungar fái víðar humar og hvítvín.
7. Meiri Kögunar-einkavinavæðing, svo silfurskeiðungar fái fleiri sumarhús.

Hvítvín með humrinum

Punktar

“Hvítvín með humrinum” er orðið helzta slagorð Sjálfstæðisflokksins. Þótt umtalsverður fjöldi lepji dauðann úr skel, er ekki hægt að ætlast til að ættarlaukar bíði mánudags. Er búsáhaldabyltingin komst á skrið um áramótin 2008-2009, var helzta þingmál Flokksins að auka frelsi til vínsölu. Hugsjón þessi náði þá ekki fram að ganga, en nú er öldin önnur. Silfurskeiðungar eru að ræða stjórnarmyndun. Enn setur því ungliðahreyfing Flokksins frelsismálið mikla á dagskrá. Flestum þykir sjónarmiðið léttúðugt, miðað við erfiðleika almennings. Gott dæmi um, að tvær þjóðir búa í tveimur heimum í litlu landi.

Uppvakinn pilsfaldatími

Punktar

Kapítalismi eftir kennslubókinni hefur verið fjarri Íslandi alla mína tíð. Hér var og er svonefndur pilsfaldakapítalismi. Menn hefjast af forgangi á borð við einkavinavæðingu og ódýrt aðgengi að þjóðarauðlindum. Alls ekki af dugnaði eða verðleikum. Nær allur auður hér er stolinn í skjóli einokunar og fáokunar. Fámenni er slíkt, að hér þrífast bara eitt-þrjú fyrirtæki á hverju sviði og þau hafa samráð. Því er verðlag hamslaust. Gamla Ísland var smíðað af íhaldi og framsókn. Hástig var hrunblaðran, er græðgi pilsfalda-gæludýra rauk í hæstu hæðir. Nú eru tveir silfurskeiðungar að vekja upp gamla Ísland.

Okurvextir fyrir ræfla

Punktar

Enn erum við lágt skrifaðir í alþjóðlegum peningamálum. Orkuveitan þarf að borga 3,75% vexti ofan á fljótandi Libor-vexti til að fá lán hjá Goldman Sachs. Þurfti lánið til að fleyta sér milli afborgana. Afleiðingin af dansi hennar við gullkálfinn á Hellisheiði. Af dansinum stafar ekki bara mengun, heldur einnig stóraukið álag á orkukostnað þjóðarinnar. Stóriðjudraumar OR færðu ekki borgurunum velsæld, heldur aukinn kostnað af vöxtum og þjónustu. Nýir órar um stóriðju verða aðeins að veruleika í skjóli ofurvaxta erlendra hrægamma og milljarða innspýtingu ríkisins í boði Steingríms J. Sigfússonar.

Fyndið puð kjósenda

Fjölmiðlun

Fyndnast í kosningabaráttunni var áhugi fólks og fjölmiðla á stefnu flokka. Fólk, sem tók sig alvarlega, safnaði gögnum um loforð flokka og bar saman. Fjölmiðlar ýttu undir með hugvitsamlegum aðferðum við að samkeyra loforð flokka og væntingar kjósenda. Glæsilegir voru langir listar spurninga, sem áttu að skera úr um, hvar í flokki fólk ætti heima. Samt var allt þetta puð marklaust og tilgangslaust og allir máttu vita það, sem vita vildu. Aldrei er neitt samband milli orða og gerða. Loforð flokka eru einskis virði. Áhugi fólks og fjölmiðla á loforðum eru merki um alkunna pólitíska þjóðarheimsku.

Bíður eftir jólasveininum

Punktar

Við skulum ekki vera óþolinmóð. Sigmundur Davíð og Bjarni þurfa tíma. Vita ekki, hvernig þeir eiga að snúa sig út úr loforðunum. Sigmundur Davíð hefur auðvitað ekki hugmynd um, hvernig á að galdra þrjúhundruð milljarða út úr vondum köllum í útlandinu. Kjósendur hans stíga að vísu ekki í vitið, sem er til bóta. Þeir hafa samt vit á að brjálast, ef peningum fer ekki fljótt að rigna. Það er verulega erfitt að standa eins og álfur út úr hól með fangið fullt af loforðum, sem aldrei verða efnd. Hugsanlega er Sigmundur Davíð bara eins og hver annar kjósandi Framsóknar – að bíða eftir jólasveininum.

Þröngt um sjónhverfingar

Punktar

Stjórn ríkisfjármála er að þessu sinni erfiðari en oftast áður, því að ýktar sjónhverfingar eru úreltar. Ekki dugir að segjast ræna fé erlendra fjárfesta en láta samt ríkið borga skuldurum það, sem upp á vantar. Ríkið hefur ekki ráð á neinu og hefur heldur ekki ráð á að punga í Íbúðalánasjóð. Ríkið þarf að rétta af Landsspítalann og vernda velferðina, þótt Brynjar segi rétt að skera hana. Og ekki er svigrúm til að dreifa peningum yfir skuldara. Svigrúm er heldur ekkert til að lækka skattprósentu á hátekjufólki. Reynslan hefur hrakið síngjarna tilgátu um, að lægri prósenta leiði til hærri ríkistekna.

Kínversk umhverfisást Elkem

Punktar

Ekki kemur á óvart, að járnblendi Elkem á Grundartanga skori hæst í mengun orkufreks iðnaðar, komið í kínverska eigu. Í Kína er umhverfið lágt skrifað, svo og í fyrirtækjum, sem þeir reka erlendis. Raunar er Kína heimsins mesta bæli umhverfissóða, andstæða Japans, þar sem umhverfið er hátt skrifað. Ekki kemur á óvart, að Ólafur Ragnar Grímsson lofsyngur kínverska umhverfisást. Ferill forsetans er samfelld öfugmælavísa. Brennisteinsoxíð á Grundartanga er komið að þolmörkum. Stjórnendur fyrirtækisins fela sig fyrir blaðamönnum. Virðingarleysi þeirra fyrir náttúrunni er tífaldur Jón Gunnarsson þingmaður.