Margs konar hrun

Punktar

Íslenzka hrunið 2008 var fyrst og fremst bankahrun. Það var 100% hrun, allir bankarnir hrundu, þar á meðal Seðlabankinn. Fleira hrundi, þótt ekki væri það 100%. Alvarlegast var 35% krónuhrun, er líklega mun versna. Afleiðing þess er meðal annars í gjaldeyrishöftum, sem kosta þjóðina stórfé og ekki er séð fyrir endann á. Fasteignaverð hrundi líka og er 30% lægra en fyrir hrun. Krónuhrunið og fasteignahrunið er verra en svonefndur forsendubrestur lána. Afleiðing alls þessa er pólitískt hrun. Fólk missti trú á stjórnmálamönnum. Bankar siðvæddust ekki. Krónan er áfram dauð. Því erum við enn í skítnum.

Gillz skrifaði ógeð

Punktar

Ég hef engan áhuga á, hvort Egill Gillz fer í trekant eða ekki, hef aldrei ritað um þessi dómsmál hans. Hins vegar hef ég um tíðina fylgzt með skrifum hans. Þau hafa verið óvenjulega ógeðfelld. Hann hefur ætíð komið mér fyrir sjónir sem óvenjulega þreytandi eintak. Ég er hissa á, að feður telji bækur hans hafa uppeldisgildi. Er hissa á, að hann sjái ekki að sér. Er hissa á, að hann trani sér fram opinberlega sem eins konar uppeldispostuli. Mest eg þó hissa á, að fávitar í Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ fái hann til að stýra samkomu. Mér finnst það bera vott um alvarlega brenglun í hugarfari þeirra.

Virðing alþingis

Punktar

Forseti alþingis getur ekki þvingað þingmann til að fylgja hefðbundnum ávarpsorðum. Mér væri fyrirmunað að kalla þingmenn háttvirta og ráðherra hæstvirta. Það væri yfirgengileg hræsni og ég stunda ekki hræsni. Skil vel, að þingmenn pírata vilji ekki ávarpa bófa á svo tilgerðarlegan hátt. Mér dytti ekki heldur í hug að mæta með hálsbindi og skil vel, að Elín Hirst vilji mæta í gallabuxum. Reglur alþingisforseta og skrifstofu um hegðun og búnað þingmanna eru aftan úr forneskju. Þær hafa hingað til ekki megnað að framkalla neina virðingu alþingis. Virðing kemur að innan, ekki af umbúnaði.

Forrit í stað lagatækna

Punktar

Hvað eftir annað kemur í ljós, að lögmenn ráðuneyta geta ekki samið frumvörp til laga. Þau virka mörg ekki eins og til er ætlast. Á alþingi skortir líka lagatækni í að sníða slíka annmarka af lögum. Nýtt dæmi eru gjaldeyrislögin, sem samþykkt voru 2008. Við gerð frumvarpsins hvarf ákvæði um sviptingu starfsréttinda hinna brotlegu. Ákvæðið var í uppkasti Seðlabankans, en hvarf í bankaráðuneyti Björgvins G. Sigurðssonar. Án efa frekar vegna heimsku en vegna ásetnings. Til er hugbúnaður, sem heldur utan um öll afbrigði í þróun lagatexta og Wikipedia-texta. Ríkið þarf að reka lagatækna og kaupa eintak.

Staurblind sparnaðarnefnd

Punktar

Bændablaðið fæst ókeypis í stórmörkuðum á kostnað ríkisins. Á gullöld ferðaþjónustu afskrifa Bændasamtökin milljarðs lán til Hótel Sögu, einnig á kostnað ríkisins. Bændasamtökin eru rekin af ríkinu í þágu landbúnaðar, sem að hálfu leyti liggur uppi á ríkinu. Haldið þið svo, að sparnaðarnefnd Vigdísar og Guðlaugs taki eftir þessu? Nei, hugmyndir hennar um niðurskurð snúast um annað, niðurskurð eftirlits með bófum og niðurskurð velferðar. Vandræði stjórnarinnar snúast um niðurskurð á ríkistekjum í þágu kvótagreifa og annarra forgangsgreifa, sem kosta kosningabaráttu pólitískra bófaflokka.

Klappa saman lófum

Punktar

IgNobel háðungarverðlaunin eru hér þekktust fyrir, að Davíð Oddsson og hinir bankastjórarnir fengu þau 2009. Þeir höfðu þá vakið heimsathygli fyrir lítið vit á peningum. Í Time Magazine hafði Davíð verið settur í hóp þeirra, sem mesta ábyrgð bæru á heimskreppunni 2008. Nú hefur annar snillingur fengið IgNobel, það er Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands. Verðlaunaður fyrir að banna fólki að klappa saman lófum á almannafæri. Löggan þar var líka verðlaunuð fyrir að taka einhentan mann höndum fyrir að klappa saman lófum. Snillingurinn, sem segist eiga heimsmet í ráðagerðum, fær hann IgNobel 2014?.

Styrjöld gegn heilsu

Punktar

Philip Morris er gott dæmi um þrýsting bófaflokka á pólitíkina. Framleiðandi Marlboro ver milljarði króna til að fá Evrópusambandið til að fresta hertum viðvörunum á sígarettupökkum. Og til að fresta banni við ýmsum tegundum af sígarettum. Til þess hefur dópsalinn 161 starfsmann í þrýstivinnu og mútum í Bruxelles. Markmiðið er að fresta ákvörðun Evrópu fram yfir áramót. Þá tekur Grikki, væntanlega spilltur, við formennsku í stjórn sambandsins. Og þetta er bara eitt af mörgum tóbaksfyrirtækjum, sem taka þátt í styrjöldinni gegn bættri heilsu í Evrópu. Það er víðar en hér, sem bófaflokkar ógna heilsunni.

Kafteinn ofurbrók

Punktar

Kafteinn ofurbrók er þekkt fyrirbæri í bókmenntum. Krakkar lásu myndasögur um Superman og Spiderman, sem flugu milli húsa og leystu allan vanda fólks. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sem pólitíkus frá upphafi verið Kafteinn ofurbrók. Byrjaði á að útvega þjóðinni 2000 milljarða norskt lán og forða henni frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Fór með Höskuld Þórhallsson til Noregs að sækja féð, en það fannst ekki. Ofurbrók fór þvínæst í sendiráð Kanada og fékk það til að fallast á að við mættum nota Kanadadollar. Ekkert var heldur til í því. Nú fer Kafteinn ofurbrók enn með himinskautum og lofar milljarða afskriftum þrautpíndra skuldara. Ljúft er að láta sig dreyma teikniseríur.

Horfin heimsveldisþrá

Punktar

Sýrlandsstríðið markar þau tímamót í veraldarsögunni, að Bandaríkin eru að losa sig við heimsveldisþrána. Í fyrsta skipti ráða vopnaframleiðendur og aðrir stríðsæsingamenn ekki skoðunum Bandaríkjamanna. Þrír af hverjum fjórum borgurum landsins telja Assad Sýrlandsforseta beita efnavopnum. Samt telja tveir af hverjum þremur, að Bandaríkin eigi að hafna aðild að málinu. Því tvístígur Obama. Bandaríkin eru ekki lengur heimslöggan. Ekki riddaraliðið, sem kemur með lúðraþyt til bjargar í lok kvikmyndarinnar. Fyrir löngu hefur ríkið fyrirgert rétti sínum til slíks og nú er ríkið að viðurkenna stöðuna.

Gerið eins og við

Punktar

Þýzkaland mun 22. september senda umheiminum sömu skilaboð og það hefur sent áratugum saman. Þá fær Angela Merkel stuðning til að vera áfram kanzlari. Áfram mun Þýzkaland hafna þeirri stefnu að sukka sig úr erfiðleikum. Áfram verður rekin aðhaldsstefna í fjármálum með heilbrigðum ríkisrekstri, fullri atvinnu og öflugum vöruútflutningi. Settar verða skorður við peningaaðstoð við sukkara í suðrinu við Miðjarðarhaf. Að öðru leyti verður stutt við bak Evrópusambandsins og evrunnar. “Gerið eins og við”, mun Merkel segja næstu fjögur árin. Þýzkaland hefur tekið við af Norðurlöndum sem fyrirmynd Evrópu.

Vestrænn viðbjóður

Punktar

Valdarán hersins í Chile fyrir réttum fjörutíu árum markaði tímamót í mati margra vesturlandabúa á stöðu sinni í heiminum. Að undirlagi Bandaríkjanna og með virkri aðild leyniþjónustunnar var löglegri ríkisstjórn velt úr sæti. Borgarar landsins voru pyntaðir og fólk látið hverfa þúsundum saman. Spámenn Hannesar Hólmsteins voru kallaðir til að stjórna landinu með atvinnuhruni og lífskjarahruni. Fremstur fór þar í flokki hinn ógeðfelldi Milton Friedman. Margir vesturlandabúar sáu viðbjóð eigin forusturíkis, Bandaríkjanna, svo og viðbjóð frjálshyggjunnar. Sumir Íslendingar hafa ekki séð þann viðbjóð enn.

Heimsmet í hræsni

Punktar

Eitt er það heimsmet, sem Sigmundur Davíð hefur ekki náð. Það er heimsmet Barack Obama í hræsni. Bandaríkin mega eiga 30.000 tonn af eitrinu Sarin og selja það og annað eitur út um heim allan. En kaupendur mega ekki nota það. Bandaríkin mega dreifa eitri í stórum stíl yfir þriðja heiminn, allt frá Víetnam til vorra daga. En aðrir mega það ekki. Bandaríkin mega 83 sinnum beita neitunarvaldi í öryggisráðinu gegn vilja annarra ríkja. En Rússland og Kína mega það ekki. Engin furða er, þótt Bandaríkin hafni aðild að alþjóða stríðsglæpadómstólnum. Friðarverðlaunahafi Nóbels er mesti stríðsglæpamaður nútímans.

Tvöfalt heimsmet

Punktar

Ofan á fyrra heimsmet í kosningaloforðum hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sett heimsmet í áætlunum. Á alþingi í gær sagðist hann vera með á prjónunum heimsins róttækustu aðgerðir í málum skuldara. Lítið er samt vitað um gerðir hans í þessu efni. Annað en að enn er verið að skipa í nefndir. Þetta minnir á ferð hans til Noregs í gamla daga eftir hrunið. Þá ætlaði hann að sækja hundruð milljarða til að forða okkur frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Aldrei fundust þeir peningar. En nú er hugsanlegt, að takist að koma hinum flottu nefndum í gang. Sigmundi Davíð verður sjaldan orða vant um sinn góða vilja.

Eitt af undrum veraldar

Punktar

Íslenzka hrunið var ekki bara íslenzkt, heldur olli meira tjóni erlendis. Þess vegna setti fréttaritið Time sjálfan Davíð Oddsson sem einn þeirra, er þyngsta ábyrgð bæri á heimskreppunni. Hrokafulli fúskarinn í Seðlabankanum kom að hruninu á ýmsan hátt. Fyrst einkavinavæddi hann bankana og kom í gang atburðarásinni. Síðan tryggði hann, að fjármálaeftirlitið sinnti alls ekki eftirliti. Hann olli ekki bara hruninu 2008, heldur líka snjóhengjunni, sem nú vofir yfir þjóðinni. Davíð er mara, sem hvílt hefur á þjóðinni í ýmsum myndum í þrjá áratugi og gerir enn. Nú er hann í boði kvótagreifanna.

Spila með líf fólks

Punktar

Uppkast ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að fjárlögum ársins 2014 var byggt á þáverandi tekjupóstum. Fyrsta verk ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar var að skera niður tekjupósta. Svo lýgur Bjarni, að fyrra uppkast hafi verið illa fjármagnað. Það er núverandi uppkast en ekki það fyrra, sem er illa fjármagnað. Sigmundur og Davíð töldu sig þurfa að endurgreiða kvótagreifum og öðrum forgangsgreifum fyrir að hafa kostað kosningabaráttu þeirra. Þess vegna er ríkið í vandræðum með brýnustu stofnanir, einkum Landspítalann. Bófaflokkarnir stefna lífi fólks í hættu.