Leti og mannhatur

Punktar

Enn einu sinni vekur Útlendingastofnun athygli fyrir leti og mannhatur. Saga Romylyn Patty Faigane er skelfileg. Langvinnar tilraunir til að fá leyfi til að búa hér hjá móður sinni fara út um þúfur. Syfjuðu og lögfræðiskóluðu íhaldskerlingarnar í Útlendingastofnun eru meira en ár að svara bréfum. Þær vita ekkert í sinn haus og biðja sífellt um sömu skírteinin aftur og aftur. Þetta er eins og í skáldsögu eftir Franz Kafka. Nú hafa aðstandendur Faigane gefizt upp og hún er farin. Kristín Völundardóttir forstjóri hlýtur að vera stolt af íhaldskerlingum sínum. Er ekki hægt að leggja þessa stofnun niður?

Kratar hugsa hægt

Punktar

Meðal annars fyrir tilstilli Morgunblaðsins verður flugvöllurinn aðalmálið í prófkjöri sjálfstæðis. Gegnum nálaraugað munu þeir einir komast, sem vilja af fullri hörku hafa völlinn þar sem hann er. Sumir frambjóðendur verða því að hafa hraðar hendur við að skipta um skoðun. Úr því verður óvígur her, sem mun að óbreyttu valta yfir núverandi meirihluta, sem þó hefur nokkra mánuði til að skipta um skoðun. En kratar hugsa hægt og eiga erfitt með að skilja hugtakið forsendubrest. Líklega munu þeir fljóta sofandi að feigðarósi að vori eins og þeir gerðu í vor í skuldamálum fólks. Nú orðið gerast hlutir hratt.

Blaðurfulltrúi í felum

Punktar

Björn Ingi Hrafnsson má hafa skoðanir eins og aðrir. Hans sérstaða er að koma hvergi fram undir nafni. Notar á Pressunni dulnefni á borð við Orðið á götunni eða Kaffistofan. Frekar óttaslegið framferði, þótt Framsókn sé. Eins og hann sé í bráðri hættu. Gamall blaðurfulltrúi formanna Framsóknar er enn að verki, þótt hann sé í felulitum sem útgefandi Pressunnar. Viðfangsefni BInga er núna að telja okkur trú um, að formaðurinn og Bjarni Ben gangi í takt. Vísar þar í stjórnarsáttmála, sem menn eru sammála um að skilja hver á sinn hátt. Jafnvel Frosti hefur sinn vinkil, sem menn skilja ekki heldur.

Herinn verndar minnihluta

Punktar

Kosturinn við herforingjastjórnir í miðausturlöndum, líklega sá eini, er, að þær vernda minnihlutahópa gegn trúarofstæki. Frægasta dæmið er Tyrkland, þar sem herinn heldur hlífiskildi yfir gyðingum, kúrdum og armenum, sem sumir múslimar vilja feiga. Íslamistar í Tyrklandi hafa ekki rofið þessa vernd. Öðru máli gegnir um Egyptaland, þar sem íslamistar byrjuðu strax að ofsækja kristna, þegar þeir náðu völdum. Nú hefur herinn þar aftur tekið völdin og kristnum er heldur rórra. Í Sýrlandi hefur herforingjastjórn Assad verndað kristna, en alltof margir uppreisnarmanna vilja helzt útrýma slíku fólki.

Velferð eða réttlæti

Punktar

Þetta er ekkert flókið. Fyrrverandi ríkisstjórn taldi, að rétta þyrfti hag þeirra skuldara, sem stóðu verst eftir hrunið. Dæmigerð velferðarhugsun. Núverandi ríkisstjórn telur, að leiðrétta beri “forsendubrest” ALLRA, líka hinna, sem breiðari hafa bökin. Dæmigerð réttlætishugsun. Annars vegar var velferðarstefna og hins vegar er réttlætisstefna. Kjósendur höfnuðu í vor fyrri leiðinni og völdu hina síðari, sem kostar þrefalt. Margir hafa líklega gert það vegna misskilnings á loforði Framsóknar. Þeir vakna upp við, að Framsókn styður helzt gráðuga fólkið, en síður þá, er lepja dauðann úr skel.

Bara ein leiðrétting

Punktar

Fjölmiðlar og þingmenn virðast hissa á, að skuldarar fái ekki nema eina leiðréttingu á svokölluðum “forsendubresti”. Frosti Sigurjónsson leiðrétti þetta á þingi í gær. Breytingin frá fyrra ástandi sé sú, að þeir, sem áður fengu ekki leiðréttingu, fái hana í vetur. Í fjárlögum næsta árs verður gert ráð fyrir upphæðum inn og út. Þær fela í sér, að gömlu bankarnir borgi allt, þótt ekki sé byrjað að semja við þá. Kannski gerist það með eignarnámi í þrotabúunum. Þetta verður spennandi gósentími lagatækna. Bara á að laga stöðu þeirra, er standa betur, enda standa þeir nær hjarta Sigmundar Davíðs og Bjarna.

Fiskur uppi í sveit

Veitingar

Góð veitingahús finnast utan 101. Langt uppi í sveit, í 104, er afskekktur Laugaás. Þar hefur Ragnar Guðmundsson staðið vaktina í 34 ár. Eitt fárra fiskhúsa landsins, þar sem hægt er að fá ýmsan fisk dagsins í hefðbundinni matreiðslu. Hin fiskhúsin eru Þrír Frakkar Úlfars Eysteinssonar, Tilveran í Hafnarfirði og tvær fiskbúðir. Í Laugaási fengum við í hádeginu hveitilausa Thai súpu með beikoni, bláskel úr Keflavík og indælis þorsk. Súpa og einn sex rétta dagsins kostaði 1800 krónur. Svo er Laugaás heimilislegt bistró. Ýmis matarhús, sem kenna sig við fisk, hafa bara einn fiskrétt dagsins.

Setjið slár á vegina

Punktar

Ungt fólk fylgist ekki reglulega með fréttum og fréttafíklum fækkar. Einu sinni vissu allir, hvað var í hádegisfréttum útvarps og vissu um aðvífandi óveður. Ekki lengur. Margir vita ekkert um viðvaranir, þegar þeir leggja í hann. Enn frekar gildir þetta um útlendinga á illa búnum bílaleigubílum. Þeir vita ekkert, hvað er í aðsigi. Því er ekki nóg að birta viðvaranir eða setja upp skilti. Setja þarf upp slár, sem hægt er að láta loka vegum, þegar þeir eru taldir ófærir. Sama gildir um sumarvegi á hálendinu. Tíðar fréttir af tjóni á bílum og ferðafólki í lífshættu eiga að hafa vit fyrir kerfinu.

 

Hrun Landspítalans

Punktar

Ný ríkisstjórn hefur lækkað skatttekjur ríkisins til að hjálpa kvótagreifum og öðrum auðgreifum. Samt verður hún að bregðast við hruni Landspítalans. Hann getur ekki lengur sinnt hlutverki sínu og siglir hraðbyri í átt til þriðja flokks spítala. Því miður er líf og heilsa þjóðarinnar ekki efst á forgangslista stjórnarinnar. Þar eru greiðslur til sukkara, sem reistu sér hurðarás um öxl í húsnæði. Að svo miklu leyti sem ríkið getur náð peningum út úr gömlu bönkunum, eiga þeir að fara í heilsu og menntun, ekki í gjafir á borð við þær, sem ríkisstjórnin hefur þegar fært kvótagreifum og auðgreifum.

Brennheitur flugvöllur

Punktar

Stjórnmálamenn þurfa alltaf að fylgjast með breytingum á pólitísku veðri. Mega að vísu ekki að hlaupa eftir almenningsálitinu, en þurfa að taka tillit til þess. Aðstæður eru allt aðrar en þær voru, þegar ákveðið var að losna við flugvöllinn í Vatnsmýri. Þyrlað hefur verið upp víðtækri og brennheitri andstöðu gegn flutningi. Verði ekki gripið í taumana, mun málið verða helzta mál borgarkosninganna að vori. Munið bara eftir svokölluðum forsendubresti og kosningunum í vor sem leið. Nægur tími er fyrir borgarfulltrúa að skipta um skoðun og reyna að bjarga stólunum, áður en fárviðrið skellur á þá.

Eins og naut í flagi

Punktar

Takmörk hljóta að vera fyrir því, hversu lengi Framsókn getur valtað yfir Sjálfstæðis í stjórnarsamstarfi. Sumir ráðherrar Framsóknar láta eins og naut í flagi. Einkum eru það utanríkis- og umhverfisráðherrar, en einnig sparnaðarnefndarmenn. Bjarni Benediktsson talaði um flatan niðurskurð, en þá komu nefndarmenn og sögðu hann verða misjafnan. Margir sjálfstæðismenn eru ósáttir við, að utanríkis fari á svig við lög í meðferð Evrópumálsins. Sumir þeirra telja nokkuð frekt hjá umhverfis að setja alla rammaáætlun orku og umhverfis beinlínis á hvolf. Hvað svo með heimsins dýrasta kosningaloforð?

Kjærsgård er með það

Punktar

Pia Kjærsgård hefur sett saman stefnuskrá danska þjóðrembuflokksins. Leggur áherzlu á, að vonda ríkisstjórnin í Danmörku sé skipuð fólki, sem drekki café latte og gangi í hönnuðum tízkufötum. Þetta feli í sér eitraða árás á dönsk gildi og spanni daður við Evrópu og við útlenda glæpamenn. Latte-fólk hafni svínakjöti og jólatrjám, sem séu dönsk og góð gildi. Það dragi taum höfuðborgar gegn landsbyggð. Þessi elíta vilji innflutning útlendinga og grafi undan samfélagsgerðinni. Mér sýnist þetta vera tilvalin stefnuskrá fyrir Framsókn, síðan hún gerðist þjóðrembuflokkur yzt á hægri jaðrinum.

Tuttuguþúsund heimsóknir

Fjölmiðlun

Tuttuguþúsund mismunandi Íslendingar heimsóttu bloggið mitt í gær, 19.961 mismunandi IP-tölur. Samkvæmt google.com/analytics. Á einum sólarhring, 15. september. Fyrir utan þrasið mitt á fésbók. Ég þakka fyrir aðild ykkar að þessu óvænta persónulega meti. Þetta blogg er orðið eins og heill fjölmiðill með tugum starfsmanna.

Titringur í samstarfi

Punktar

Það framkvæmda vill oft haldast, þótt það sé umdeilt. Minna svigrúm er til að vinda ofan af því gerða heldur en að hindra, að það sé gert. Sá, sem hefur frumkvæði, sigrar oft þann sem stígur varlegar til jarðar. Þetta er þema ráðherra Framsóknar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þeir gera það, sem hefði átt að fara hefðbundna leið, til dæmis um alþingi. Utanríkis rýfur viðræður við Evrópu án ákvörðunar þings. Umhverfis rífur rammaáætlun án ákvörðunar alþingis. Forsætis hótar ítrekað greiðslum í forsendubrest, en Sjálfstæðisflokkur er þögull. Titringur eykst í samstarfinu, springur það?

Allir fagna ruglinu

Punktar

Allir fagna Sýrlandssamningi Bandaríkjanna og Rússlands nema uppreisnarmenn.  Segir mér, að Assad og stjórn hans séu sigurvegarinn. Hann skrifar undir og drepur svo eftir megni að hætti Saddam. Borgararnir græða hvorki né tapa. Í auknum mæli verða deiluaðilum útveguð hefðbundin vopn. Skynsöm leið hefði verið að gera Sameinuðu þjóðunum kleift að taka við stjórn í landinu. Til þess hefði þurft að ryðja Assad úr vegi. Allir græða á samningnum nema þjóðin og uppreisnarmenn. Obama forðast óvinsælt stríð og Pútín gerir sig gjaldgengan í störukeppni heimsveldanna. Blóðbaðið heldur svo bara áfram.