Silfur og sætabrauð

Punktar

Hér á landi er enginn jafnoki Angelu Merkel. Ríkjum ráða sætabrauðsdrengir yfirstéttarinnar, sem eingöngu gæta hagsmuna auðmanna. Silfurskeiðungarnir hafa aldrei dýft hendi í kalt vatn og vita ekkert um þarfir þjóðarinnar. Þegar þeir fengu völdin, flýttu þeir sér að gefa kvótagreifum milljarða og öllum auðgreifum aðra milljarða. Svo ætla þeir í vetur að gefa þeim, sem skulda í stóru húsnæði, enn fleiri milljarða. Alþýðan fær síðar molana, sem falla af borði silfurskeiðunga. Þessi vitleysa er í boði kjósenda. Þeir eru gersamlega ófærir um að meta pólitíkusa á sama hátt og Þjóðverjar gera.

Einbeitingarskortur minn

Fjölmiðlun

Mig skortir EINBEITINGU. Þegar ég sæki fyrirlestur, dettur athyglin ítrekað úr sambandi. Því hef ég búið fyrirlestra mína og námskeið í blaðamennsku á allt annan hátt. Efnið er á myndskeiðum, svo að þú getur notað þau, þegar þér hentar og þú ert í stuði, hvar sem þú ert. Þú getur horft á myndskeiðin, hlustað á þau, lesið textann á skjánum eða á meðfylgjandi skjali. Þú getur svissað fram og aftur milli skilningarvita til að hvíla þig eða notað fleiri en eitt skilningarvit í senn. Námskeiðin eru hér á heimaslóðinni www.jonas.is. Þau eiga að lina skort á kennslu í sjálfu handverki blaðamennskunnar.

Mamma veit bezt

Punktar

Angela Merkel mun slá Margaret Thatcher út í langlífi í embætti. Verður áfram kanzlari Þýzkalands næstu árin. Áfram kjölfestan í evrópsku samstarfi á leið út úr kreppunni. Ótrúlegur pólitíkus, kemur frá Austur-Þýzkalandi og er ekki fyrir augað fremur en Trabant. En hún nýtur trausts. “Mamma veit bezt” segja menn. Er alls ekki með neinn ofsa í kristilegri hægri pólitík, heldur sig fremur á miðjunni. Vill félagslegan markaðsbúskap og getur samið við alla, jafnvel græningja og pírata. Skilur þjóðarsálina, er til dæmis að loka kjarnorkuverum Þýzkalands. Enginn slíkur leiðtogi er til á Íslandi.

Þolir ekki hópefli

Punktar

Mikið skil ég Brynjar Níelsson vel. Hann þolir ekki hópefli, ekki einu sinni hópefli þingmanna ríkisstjórnarinnar á Nesjavöllum. “Ég hef engan sérstakan húmor fyrir svona uppákomum en ég var neyddur til að fara og taka þátt … En sem betur fer þurftum við ekki að gista og fórum heim um nóttina.” Minnir mig á hópefli, sem Eyjólfur Sveinsson stóð fyrir á Leirubakka. Þar áttu DV starfsmenn að stilla saman strengi, auglýsingamenn og blaðamenn. Auðvitað víðáttu-vitlaust. Ég passaði mig á að geta komizt undan á eigin bíl. Í sumum starfsgreinum er hópefli ekki við hæfi. Einmitt í lýðræðislegri starfsemi.

Hatrið á Evrópu

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson, Davíð Oddsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hatast út í Evrópu, því þar er hlegið að þeim. Ólafur Ragnar hossar sífellt Kína, Indlandi og Rússlandi, þótt þar sé ofbeldisstjórn og lýðræðishalli. Evrópa er hins vegar háborg siðmenningar og lýðræðis. Eina álfan, sem leysir vanda sinn á friðsamlegan hátt. Frá Evrópu koma hingað ferðamennirnir og þar er markaðurinn fyrir afurðir okkar. Evrópa vill líka auka lýðræði á kostnað gerræðis. Fer í taugar valdshyggjumanna, er vilja svigrúm til davíðsku með verðlausri krónu. Og þeim hefur tekizt að hræða alla skynsemi úr kjósendum.

Loftslagið hitnar

Punktar

Loftslagsbreytingaráð Sameinuðu þjóðanna birtir senn skýrslu, sem enn einu sinni staðfestir sannleikann: Loftslagið er að breytast af mannavöldum og hraði breytinganna fer vaxandi. Þetta er niðurstaða 259 vísindamanna frá 39 löndum. Búið er að hreinsa út ýkjur, sem voru í eldri skýrslum. Nú er bara um að ræða óhrekjanlegar staðreyndir. Þar á meðal aðvörunina um að hægt og sígandi hækkar hitastig að meðaltali og stefnir í óefni. Breytir því ekki, að hatursmenn vísinda munu áfram æpa “falsanir” og benda á kólnun hér og þar. Undir kynda olíufélög, sem verja milljörðum til að hindra gagnaðgerðir.

Flatjarðarsinnar

Punktar

Flatjarðarsinnar höfnuðu kenningunni um, að jörðin sé hnöttur. Seinna varð þetta háðsyrði yfir alla, sem hafna vísindum. Nær yfir þá, sem trúa svæsnum samsæristilgátum eða óvinveittum geimverum, hafna þróunarkenningunni eða loftslagsvísindum. Oft kynda hagsmunaaðilar undir þessu, olíufélög og aðrir mengunarvaldar. Verja milljörðum í áróður, pólitískar mútur og gervivísindi til að fá auðtrúa til að hafna loftslagsvísindum. Auðvelt er að sjá, hvar öflugir hagsmunir eru að baki ruglinu. Annars getur þetta orðið lævíst. Allt er fullt af gervifólki, sem ritar greinar þvert á viðurkenndar staðreyndir.

Réttlæti sjálfhverfra

Punktar

Með aukinni sjálfhverfu eykst þörf fólks fyrir að njóta réttlætis. Fólk telur sig eiga rétt á að vera miðpunkturinn. Að geta farið beint úr skóla í vel borgaða vinnu og geta fengið 100% lán í 400 fermetra húsnæði. Einn nemenda minna sagðist eiga skilið hærri einkunn, því að hann hefði fengið hátt í skóla. Sumt af þessu fólki býr við skert veruleikaskyn og telur sér alla vegi færa. Svo þegar einn af mörgum jarðskjálftum hagsögunnar spillir fjárhag allra, hrópar sukkfólkið “forsendubrestur forsendubrestur”. Heimtar, að vikið sé frá velferðarstefnu yfir í “réttlæti” fyrir hina sjálfhverfu.

Ráðstefnu-gullnáman

Punktar

Ráðstefnugestir nota tvöfalt meiri peninga hér á landi en aðrir ferðamenn. Skynsamlegt er að nota fé til að efla ráðstefnuhald fremur en aðra þætti ferðamála. Markaður fyrir ráðstefnur er nánast ótakmarkaður. Flest samtök og fyrirtæki eiga enn eftir að bæta Íslandi á ráðstefnulistann. Í Reykjavík þarf að reisa fleiri hótel. Þar á meðal hótelið á Hörpulóðinni, þótt kvosin verði að öðru leyti látin í friði. Hægt er að reisa hótel í jaðri gamla miðbæjarins, svo sem við Ánanaust og Mýrargötu, við Þverholt og Bríetartún. Veitingahúsin birtast svo næstum sjálfkrafa. Þetta er sannkölluð gullnáma.

Komið með peningana

Punktar

Peningamenn í London hlógu, þegar Kafteinn ofurbrók sagði: “Ég vonast til að sjá ykkur og peningana ykkar á Íslandi”. Áður var hann búinn að segja hér heima, hvernig ætti að flá svonefnda hrægamma. Já, fjármagnseigendur heita ýmsum nöfnum eftir því, hverja er verið að sleikja hverju sinni. Ofurbrókin hefur enga fjármögnunarstefnu, heldur slær bara um sig með þeim slagorðum, sem henta hverju sinni. Hefur gefizt vel í kosningum á Íslandi, þar sem nóg er af fábjánum, en hentar síður í City eða Wall Street. Þar hlæja menn bara. Kafteinninn flýgur með himinskautum og kemur sjaldan við hér niðri á jörð.

Hafa ekki ráð á heilsu

Punktar

Fyrir rúmum áratug var meðalkostnaður fólks af heilbrigðisþjónustu kominn í 20% af heildarkostnaði hennar. Þetta virtist ekki leiða til að fólk neitaði sér um þjónustuna. Svo kom hrunið og lífskjörin versnuðu. Þá kom í ljós, að mikill fjöldi gat ekki lengur nýtt sér þjónustuna, hafði ekki ráð á henni. Þetta dregur úr lífslíkum þjóðarinnar og skerðir heilsu hennar. Einkum eykur þetta mun ríkra og fátækra. Sú munur jókst, þegar stjórn sætabrauðsdrengja í þágu ríkra tók við völdum. Hún hefur eingöngu gert breytingar, sem eiga að stækka hlut hinna ríku af kökunni og ráðgerir eingöngu slíkar breytingar.

Hópefli ráðherra

Punktar

Ríkisstjórnin leitar aðstoðar sálfræðings. Forsætis telur nauðsynlegt, að ráðherrar stundi hópefli, stilli saman strengi, læri að vinna saman. “Ein Volk, ein Reich, ein Führer”. Til þess er fenginn Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur. Jafnframt segir okkur almannatengillinn Björn Ingi Hauksson, að Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson séu einhuga um að ganga í takt. Sigmundur Davíð ætlar sko ekki að reyna að smala köttum eins og Jóhanna. Bráðum fara baráttusöngvar hópeflisins að hljóma út um glugga fundarsala ráðherranna. Klykkt verður út með: “Fram unga fólk undir Framsóknar merki”.

Ýmis forsendubrestur

Punktar

Sé hugtak forsendubrests skoðað nánar, standa margir nær réttlætinu en þeir, sem ginu yfir of stóru húsnæði. Húseigendur hafa almennt orðið fyrir 29% verðmætisbresti. Launafólk hefur almennt orðið fyrir 30% tekjubresti. Þjóðin í heild hefur orðið fyrir 35% gengisbresti. Það er til ýmis forsendubrestur. Þegar er búið að gera ýmislegt til að lina vanda fátækustu íbúðaskuldaranna. Framsókn hyggst láta örlætið ganga líka til tekjuhárra, sem ginu yfir of stóru húsnæði. Hugtakið forsendubrestur er í tízku, en leiðir mjög fljótt í ógöngur. Betra er að beita venjulegum aðferðum velferðar við vanda skuldara.

Vinsæll forsetabíll

Punktar

Bílstjóri forsetans vekur ítrekað athygli fyrir athyglisýki. Nú króaði hann tvo bíla inni meðan forsetinn talaði í Melaskóla um umferðarmenningu. Áður hafði hann gert slíkt hið sama við Sólon meðan forsetinn var þar að borða. Forsetaritarinn laug svo, að borðhaldið hafi aðeins staðið í 40 sekúndur. 40 sekúndur. Á tímum snjallsíma er þetta ófært, forsetabíllinn þekkist of vel. Myndir af parkeringum bílstjórans eru óðar komnar á sérstakar síður um óvini fatlaðra og aðra umferðardólga. Forsetinn er sjálfur orðinn svo hrokafullur, að hann hefur tapað áttum. Telur sig sitja með öðrum guðum á Ólympsfjalli.

Þverhaus vegamála

Punktar

Til skamms tíma voru forstjórar Vegagerðarinnar þekktir af diplómatískri hæfni. Þurftu að friða ótal aðila til að geta komið saman áætlunum um vegi og viðhald. Nú er hins vegar kominn hrokafullur þverhaus í embættið. Hreinn Haraldsson talar um helztu náttúruverndarsamtök sem óviðkomandi aðila úti í bæ. Lætur hreppsnefnd í Garðabæ ýta sér út í framkvæmdir í Gálgahrauni, þótt dómsmál séu í gangi vegna eyðileggingar náttúruverðmæta. Á sparnaðartíma er lagt í gersamlega óþarft milljarðasukk, sem mun leiða til álitshnekkis Vegagerðarinnar. Það er ekki nóg að vera verkfræðingur til að fá respekt.