Afskaffa Sérstakan

Punktar

Ríkisstjórnarflokkarnir halda áfram að gæta hagsmuna fjárhaldsmanna sinna. Búnir að lækka auðlindarentuna og losna við auðlegðarskattinn. Næsta skref er að afskaffa embætti Sérstaks saksóknara. Þetta er í samræmi við spá Evu Joly á sínum tíma. Fjárveitingar til embættisins eru í fjárlagafrumvarpi skornar niður um helming. Stjórnarliðið segir skynsamlegra að horfa fram á veginn heldur en að velta sér upp úr fortíðinni. Markmiðið er, að málaferli gegn gerendum hrunsins veslist upp og fyrnist, verði að engu. Mikilvægt skref í átt til nýrrar söguskoðunar, sem strikar yfir hrunið. Hvaða hrun?

Allt væri auðvelt

Punktar

Auðvelt hefði verið að láta Landspítalann fá þá tólf milljarða, sem hann þarf til að losna frá hengifluginu. Auðvelt hefði verið að setja fyrirhugað náttúruminjasafn upp í Perlunni. Auðvelt hefði verið að halda vaxtabótum og barnabótum í fyrra formi. Auðvelt að halda inni framlaginu í framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Auðvelt hefði verið að hefja átak nýsköpunar atvinnulífs. Auðvelt hefði verið að reka framhaldsskólana og heilsugæzlustöðvarnar. Þetta og ótalmargt annað hefði verið hægt að hafa í fjárlögum. Ef silfurskeiðungar hefðu neitað landsgreifunum um afslátt af auðlindarentu og auðlegðarskatti.

Fyrirheitna landið

Punktar

Fyrirheitna landið er afar ólíkt landi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er land án vaxandi stéttaskiptingar, án fátækrafjötra, án þess að fólk þurfi að neita sér um sjúkrahjálp, án biðraða eftir mat. Það er land, þar sem ekki er linnulaust logið að fólki og byggðir upp gerviheimar og sýndarheimar. Það er land, þar sem þjóðarviljinn er ekki sífellt vanvirtur og þar sem þjóðin fær sína eigin stjórnarskrá. Á móti þessu býður Sigmundur Davíð útvatnaða og spillta þjóðrembu, þar sem þjóðin flykkir sér um fremsta bófann. Og gefur honum frið til að þjóna hag hinna fáu, sem hafa öll gögn og gæði af landinu.

Trylltir ganga lausir

Punktar

Helztu geðsjúklingar lögreglunnar skipa sérsveit til fá útrás. Fyrir viku réðst sveitin inn á opinbert heimili hælisleitenda í Kópavogi, braut hurðir og bramlaði, gargaði ókvæðisorð að fólki, sem skildi ekkert. Allir fimmtán heimilismenn voru handteknir, sumir á nærbuxunum, og færðir á lögreglustöð. Síðar um daginn var þeim sleppt út á götuna, þá enn á nærbuxunum. Sérsveitin er skipuð ruddalýð, sem á heima á stofnun fyrir hættulega geðsjúklinga. Og yfirmenn þeirra ættu ekki að hafa landvistarleyfi. Yfirlögregluþjónninn Friðrik Smári Björgvinsson segir þetta “í samræmi við aðstæður”. Snargalið.

Sumir hissa – aðrir ekki

Punktar

Fjárlagafrumvarpið kemur kjósendum Sjálfstæðisflokksins varla á óvart. Fyrir kosningar var vitað, að flokkurinn teldi hallað á kvótagreifa og auðgreifa landsins. Vitað var, að hann vildi minnka auðlindarentu og auðlegðarskatt. Vitað var, að hann vildi þrengja velferð almennings. Plaggið kemur á óvart mörgum kjósendum Framsóknar, þeim sem trúðu loforðunum. Hvergi vottar fyrir stórum og skýrt skilgreindum loforðum á borð við tólf milljarða innspýtingu í Landspítalann. Að vísu var þegar í sumar búið að eyða fénu í kvótagreifana og auðgreifana, en fábjánar föttuðu ekki samhengið. Nú er það öllum ljóst.

Sömu góðu matarholurnar

Punktar

Rölti milli góðbúanna í veitingabransanum í september. Staðfesti hér með, að allt er við það sama. Beztu matarholurnar eru þær sömu. Fremst meðal þriggja jafningja er Sjávargrillið við Skólavörðustíg. Ævinlega fullkomlega eldaður fiskur dagsins og flott humarsalat, þjónusta hlýleg. Næst kemur Friðrik V, eina sanna bistró borgarinnar. Þar er kallinn í eldhúsinu, konan í salnum og ættingjar hjálpa eftir þörfum. Stefnuföst matarhola nýþjóðlegrar matreiðslu. Þriðja í röðinni er svo Fiskfélagið. Nánast alltaf með fínustu matreiðslu og aðeins stífara í andrými en hin tvö. Nokkur hús fylgja svo fast á eftir.

Gjáin hefur breikkað

Punktar

Girðing löggunnar um alþingi er komin út á miðjan Austurvöll. Líklega á að hindra, að þingmenn verði grýttir. Auðvitað þurfa þeir að halda heilsu. En þetta segir langa sögu í einni málsgrein: Gjáin milli þings og þjóðar hefur breikkað. Kominn er meirihluti, sem eingöngu þjónar hagsmunum hinna ríkustu. Auðlindarentan var lækkuð og auðlegðarskatturinn lagður niður. Á sama tíma riðar Landspítalinn til falls. Ráðherrar stritast við að felast bakvið ný orð: Orðið Hagræðing kemur í stað orðsins Niðurskurður. Og svo framvegis. Kjósendur hafa fíflast til að velja sér vellygna fulltrúa, sem svíkja þá.

Velferðin hrynur

Punktar

Heilsu þjóðarinnar hrakar í samanburði við nágrannalöndin. Fátæklingar hafa margir ekki ráð á að borga sinn hlut í heilsugæzlu. Tannlækningar eru þar fremstar, enda lengi verið einkareknar. Fimmti hver íslenzkur lágtekjumaður neitar sér um tannlækningar. Við erum í sömu stöðu og Búlgarar og Lettar, þjóðir með skörðóttan kjaft. Þetta hrikalega afturhvarf frá velferðinni er óþekkt víðast um Evrópu. Síðan magnast ógæfan, Landsspítalinn rambar á barmi hruns. Þátttaka sjúklinga í kostnaði vex. Fleiri verða einfaldlega að neita sér um þjónustuna. Velferðin hrynur og fólk fer að deyja af þessum sökum.

Ofvirkni og tombólur

Punktar

Hroki og ofvirkni vegagerðarinnar í árás vinnuvéla á Gálgahraun einkennir suma verkfræðinga umfram aðra. Sumum líður illa, nema allt sé á fullu. Ég er doktor í drullu, sagði Gunnar I. Birgisson verkfræðingur, áður bæjarstjóri Kópavogs. Þetta var kallað óþægð í börnum í gamla daga, en kallað dugnaður í dag. Hugarfarið hefur tröllriðið Landsvirkjun, Orkuveitunni og HS Orku. Menn vilja grafa, moka og bora, leggja rör og leiðslur. Verst er, þegar ofvirkni slær saman við græðgi verktaka. Þá halda fólki engin bönd. Út úr því koma frægar stórvirkjanir, sem látnar eru selja orku til stóriðju á tombóluverði.

Engir kaupendur að orku

Punktar

Er fjárflestar hlógu að Sigmundi Davíð í London, fattaði hann, að útlendir peningar mundu ekki fást í stórvirkjanir. Var ástandið þó nógu slæmt fyrir, verð lægra á áli og fyrirsjáanlegt lágt verð um árabil. Allir virðast tapa á álinu, ekki bara þeir, sem selja orku á tombóluverði. Sigmundur Davíð hefur fattað, að engir munu kaupa orku á frambærilegu verði. Ekki til Helguvíkur, ekki til Bakka. Ekki frá Hellisheiði og ekki frá Þeistareykjum. Áfall fyrir hina froðufellandi jarðvöðla og álfíkla á borð við Sigurð Inga Jóhannsson. En gleðitíðindi fyrir flesta aðra landsmenn, sem vilja rifa stóriðjuseglin.

Talar ekki íslenzku

Punktar

Kristján Þór Júlíusson segir ekki, að skera þurfi niður heilsuþjónustu. Orðar það svo, að hagræða þurfi. Hagræða? Segir ekki, að gagnrýnendur eigi að halda kjafti. Orðar það svo, að vanda þurfi umræðuna um Landspítalann. Er vandinn þar? Segir ekki, að ástandið sé í steik. Orðar það svo, að umræða um ástandið sé í ólagi. Umræðan í ólagi? Þurfa álitsgjafar endurhæfingu? Segir ekki, að stór hluti heilsuþjónustu hrynji. Orðar það svo, að grunnþjónustan verði vernduð. Grunnþjónustan? Kristján talar ekki íslenzku. Talar newspeak úr bók Orwell. Hafnar veruleika, lifir í sýndarveruleika hugtakabrenglunar.

Greifarnir eiga pólitíkina

Punktar

Ríkisstjórnin varði fyrirhugaðan niðurskurð menningar og eftirlits með bófaflokkum fjármála með því að peningana vantaði í heilbrigðiskerfið. Svo kemur í ljós, að peningarnir fara ekki heldur í heilbrigðiskerfið. Þeir voru nefnilega strax sendir kvótagreifum og auðgreifum. Ekkert er orðið eftir af réttlætingum, nema örfá innantóm slagorð: “Gefum þeim séns” og “Þetta skýrist seinna”. Raunar hafði ríkisstjórnin aðeins eitt mál á dagskrá, að létta auðlindarentu af kvótagreifum og auðlegðarskatti af auðgreifum. Hins vegar mega sjúklingar éta það, sem úti frýs. Greifarnir eiga pólitíkina.

Tólf týndir milljarðar

Punktar

Fyrir kosningar lofaði Framsókn að spýta 12-13 milljörðum í Landspítalann. Eftir kosningar ítrekaði Vigdís Hauksdóttir 12-13 milljarðana. Þeir fóru svo bara í kvótagreifana. Nú hefur Björn Zoëga forstjóri sagt af sér, því að hann sér ekki týnda féð á fjárlögum. Þótt spítalinn sé að hrynja. Kristján Þór Júlíusson, sjálfur spítalaráðherrann, er hlaupinn í felur. Meira að segja Vigdís Hauksdóttir er hætt að bíta í skjaldarrendur og er hlaupin í felur. Landlæknir kemur fram og segir þetta ekki ganga lengur, flótti sé brostinn á í hópi lækna. Kvótagreifar smjatta, en fólk fer senn að deyja.

Skipti um skoðun

Punktar

Sigmundur Davíð kom frá London sem breyttur maður. Þar hlógu útlendingarnir, þegar hann sagði þeim að koma með peninga til Íslands. Vilja ekki festa fé í krónufrysti. Forsætis fór hingað kominn beint í sjónvarpið og sagði okkur ekki þurfa erlenda peninga. Erlent áhættufé væri næsti bær við erlend lán. Betra væri að nota innlenda peninga, til dæmis fé lífeyrissjóða. Svo sagði þessi formaður stóriðjuflokks, að fremur þyrfti að efla sprotafyrirtæki. Snerist á punktinum. Er hann orðinn vinstri grænn? Auðvitað á þjóðin fyrst og fremst að fagna, að Sigmundur Davíð getur skipt um skoðun á punktinum.

Krónan er þjóðremba

Punktar

Hæstaréttardómurinn um útgreiðslu eigna í krónum skapar möguleika í náinni framtíð. En einnig fylgir ýmis framtíðarvandi. Guardian segir Landsbankann hafa í London hótað gjaldþroti, fái hann ekki lengd lán. Nú telja erlendir bankar, að gjaldeyrir, sem fer hingað, frjósi inni í krónum. Um leið sitja kröfuhafar uppi með krónur, sem þeir geta ekki skipt vegna gjaldeyrishafta. Að öllu samanlögðu hindrar þetta, að ríki og bankar fái gjaldeyri að láni. Ísland fer á svartan lista og verður svo um fyrirsjáanlega framtíð. Vegna þeirrar firru, að krónan sé nothæfur gjaldmiðill. En hún er bara þjóðremba.